“Þrátt fyrir annmarka er Skjálfti ágæt frumraun Tinnu Hrafnsdóttur í leikstjórnarstóli,” segir Gunnar Ragnarsson meðal annars í Lestinni á Rás 1.
Gunnar segir:
Kvikmyndaaðlaganir á skáldverkum eru áberandi um þessar mundir í íslenskri kvikmyndagerð. Nú má sjá kvikmyndina Skjálfti í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur í kvikmyndahúsum en hún er byggð á skáldsögunni Stóri skjálfti eftir Auði Jónsdóttur, en aukreitis er von seinna á árinu á aðlögunum á Sumarljós… og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson og Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem verk eftir Auði Jónsdóttur ratar á hvíta tjaldið því árið 2019 kom út kvikmyndin Tryggð, byggð á bók hennar Tryggðarpantur, sem var fyrsta langa mynd Ásthildar Kjartansdóttur í leikstjórnarstóli. Skjálfti er einnig fyrsta langa kvikmynd Tinnu Hrafnsdóttur, en áður hafði hún gert stuttmyndirnar Helga (2016) og Munda (2017), ásamt því hafa starfað sem leikkona um árabil.
Óslitinn þráður liggur milli stuttmynda Tinnu og stóru myndarinnar Skjálfti. Í þeim öllum eru óljós mörk milli hugarheims aðalpersónu og sjónarhorns áhorfandans og huglæg frásögn er megineinkenni. Sálarlíf aðalpersóna er ýmist þjakað af harmi yfir því liðna eða yfirþyrmandi móðurást, jafnvel hvoru tveggja, eins og í tilfelli Sögu, aðalpersónu Skjálfta. Huglæg frásögnin flæðir milli fortíðar og nútíðar, innra með rekast tímalínurnar á og gerast samtímis þar sem áföll eru enn óuppgerð og skilgreina og sliga tilveruna.
Skjálftar titilsins vísa til flogaveiki sem hrjáir söguhetju myndarinnar, sem gefur leikstjóranum færi á að spreyta sig og þróa áfram áðurnefnda huglæga frásagnarhneigð, fyrir utan að hverfast um hugarheim kvenna. Kvikmyndamiðillinn er notaður til að túlka flogin og fylgikvilla þeirra – sýnin verður óskýr, myndin hristist, fer úr fókus og dökknar að lokum algerlega – þar til stingandi hvít birtan tekur við.
Hljóðhönnun Gunnars Árnasonar er ekki síður áberandi: suð og ískur, bjöguð umhverfishljóð og bergmálandi raddir búa til áhrif breyttrar skynjunar Sögu. Hugvitsamleg klipping Davíðs Alexanders Corno magnar einnig brenglað sjónarhorn, til að mynda þegar Saga er nýkomin á sjúkrahús eftir „fyrsta“ flogið þar sem hún hlýðir á starfsmann spítalans, en stokkið er í tíma innan sama rýmis, og undir eins situr móðir hennar, sem Edda Björgvins leikur, við hliðina á henni á sjúkrabeðinu. Sá sem horfir skynjar ólík atriðin sem samfelld augnablik, líkt og aðalpersónan. Á þennan hátt sver myndin sig í ætt við sálfræðitrylla og gælir jafnvel við hrollvekjuna– og mýmörg dæmi kvikmyndasögunnar um „konur á barmi taugaáfalls“ koma upp í hugann í því samhengi. „Ef þau komast að því hvað ég man lítið“, segir Saga við vinkona sína, og glufa opnast fyrir tilvistarlega spæjaragátu að eigin sjálfi, í anda Memento (2000, Christopher Nolan).
Til þess að dýpka þá reið er handritið of kyrfilega bundið við hefðbundið fjölskyldudrama. Geðrænt ástand og flogaveiki Sögu er sett í orsakasamhengi við bælt áfall úr æsku, meira segja með berum orðum af sérfræðilækni í túlkun Sigga Sigurjóns. Vel getur verið að tenging sé á milli flogaveiki og geðrænna áfalla, þar hef ég einfaldlega ekki læknisfræðilega kunnáttu til að skera úr um, en þegar samasemmerki er sett með jafn beinum hætti milli fjölskyldusjúkdómsins alkóhólisma og floganna, orkar leikurinn eilitíð á mann eins og tuggan sem við segjum okkur aftur og aftur um íslenskar kvikmyndir og norræna sársaukastigann (e. Scandinavian Pain Index). Söguheimurinn er einum of almennur og nærumhverfi og viðbrögð þess við veikindum Sögu einstrengislegt. Persónurnar þjóna frekar því hlutverki að skapa umgjörð um fléttuna heldur en að virðast af holdi og blóði.
Stíllega á myndin sína spretti, sterk sjónræn minni eins og af hafi í málverki og rauð kápa söguhetju, en skortir þó heildræna nálgun. Flakkað er milli huglægni sem hefur verið lýst, samhverfupóesíu í anda Wes Anderson og svo heldur almennrar sjónvarpsþáttafagurfræði, sem háir reyndar kvikmyndagerð almennt, á Íslandi og víðar.
Reynt leikaralið veldur rullum sínum vel: áðurnefnd Edda Björgvins í hlutverki móðurinnar og Jóhann Sigurðarson sem faðirinn. Eiginmaður Tinnu, Sveinn Geirsson, túlkar barnsföður Sögu en Tinna leikur sjálf systur aðalpersónurnar. Bergur Ebbi er einna óhefðbundnasta valið sem ástarviðfang Sögu og hefði verið gaman að sjá meira af.
Skjálfti stendur og fellur síðan, og þjónar að vissu leyti líka, með aðalleikkonu sinni, Anítu Briem í hlutverki Sögu. Aníta kemst virkilega vel frá sínu, er með sterka nærveru á tjaldinu og verður áreiðanlega atkvæðamikil aðalleikkona í íslenskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð á næstu árum. Þrátt fyrir annmarka er Skjálfti ágæt frumraun Tinnu Hrafnsdóttur í leikstjórnarstóli, og ber vitni um hækkandi miðgildi íslenskra kvikmynda.