“Þegar öllu er á botninn hvolft, fínasta skemmtun þó fyrsta myndin hafi verið öllu betri,” segir Helgi Snær Sigurðsson í Morgunblaðinu um Allra síðustu veiðiferðina eftir Þorkel Harðarson og Örn Marinó Arnarson.
Helgi skrifar:
Gamanmynd Markelsbræðranna Þorkels og Marinós, Síðasta veiðiferðin , sló óvænt í gegn fyrri hluta árs 2020, þrátt fyrir útbreiðslu Covid með tilheyrandi lokunum kvikmyndahúsa og fjöldatakmörkunum.
Í ljós kom að landann þyrsti í íslenska gamanmynd enda aldrei nóg af þeim og fátt eins gott og að hlæja innilega með fullum sal af fólki. Formúlan var líka skotheld, að smala saman hópi ástsælla leikara og láta þá haga sér eins og fífl við þá vinsælu iðju að veiða lax og drekka sig fulla.
Ekki þurfti laxveiðimenn til að skilja grínið, þó einstaka brandari væri sniðinn að þeim. Margar ótrúlegar sögur eru til af veiðiferðum karla og unnu Markelsbræður vel upp úr þeim og áttu nóg í mörg handrit. Svo mikið í raun að framhaldsmyndir voru strax fyrirhugaðar og nú er sú fyrsta komin í bíó, Allra síðasta veiðiferðin.
Í fyrri mynd voru helstu persónur kynntar til sögunnar með einföldum og skýrum hætti. Í karlahópnum var einn stjórnsamur snobbhani, mágur hans heldur undirgefinn, einn íturvaxinn fyrrverandi taflhnefaleikamaður, einn ofdrykkjumaður og þannig mætti áfram telja.
Allt fór á versta veg í ölæði og stjórnleysi og sumar gjörðir reyndust afdrifaríkari en aðrar. Lítið var veitt af laxi en þeim mun meira drukkið af áfengi og skandalíserað og einn kom á endanum út úr skápnum með afar skrautlegum hætti, svo ekki sé meira sagt.
Ógeðfelldur ráðherra
Víkur nú aftur sögunni að snobbhananum Vali Aðalsteins (Þorsteinn Bachmann) sem nú er orðinn innanríkisráðherra og tengdasonur forsætisráðherra, Ingvars Þórðarsonar (Sigurður Sigurjónsson). Valur er hættur að drekka, að áeggjan eiginkonu sinnar, enda fór hann afar illa út úr síðustu veiðiferð. Strax í byrjun myndar gefur Ingvar sig á tal við tengdasoninn í kokkteilboði og biður hann að redda fyrir sig veiðiferð með „venjulegu fólki“. Valur segist nú aldeilis geta orðið við því og hópnum er smalað saman á ný, að undanskildum einum, Kolla (Hjálmar Hjálmarsson) sem vill alls ekki þiggja neitt af forsætisráðherranum en ráðherrarnir tveir borga brúsann. Nú skal haldið í Laxá í Aðaldal, drottninguna sjálfa. Í stað Kolla kemur ungur barþjónn, Rikki (Sigurður Þór Óskarsson) og verður makker hins drykkfellda Hansa (Þröstur Leó). Félagarnir leggja af stað norður á nokkrum misfínum jeppum og líður ekki á löngu þar til allt fer úr böndunum á ný því forsætisráðherra reynist hömlulaus drykkjumaður og lögreglukonan Erla (Halldóra Geirharðsdóttir) á óuppgerðar sakir við Val úr síðustu veiðiferð.
Sagan er ekki mikið lengri en hér hefur verið lýst og mætti heldur lýsa myndinni sem safni kostulegra uppákoma sem hnýttar eru saman með grönnum þræði. Ólíkt fyrri myndinni eru fáar nýjar persónur kynntar til sögunnar og samtöl eru af skornari skammti. Í raun fá áhorfendur lítið sem ekkert að vita um hinar nýju persónur, forsætisráðherrann og barþjóninn, sem verða fyrir vikið tvívíðar og þjóna gríninu einu. Siggi Sigurjóns er frábær gamanleikari og sannar það hér enn og aftur en gjarnan hefði mátt nýta hæfileika hans enn frekar og sýna fleiri hliðar á hinum ógeðfellda ráðherra. Hann er þrúgandi á allan hátt og í raun ógeðslegur í framkomu sinni og hegðun, líkt og tengdasonurinn Valur. Þorsteinn Bachmann er að sama skapi frábær gamanleikari og gaman að sjá þessa tvo meistara vinna saman, að öðrum ólöstuðum. Hinn sakleysislegi barþjónn Rikki er fórnarlamb aðstæðna og misviturra, eldri manna og undarlegt er eitt af fyrstu atriðum myndarinnar þar sem hann er flekaður af kærustu Hansa. Hansi liggur drykkjudauður með rassinn beran á meðan hamast er við hliðina á honum. Ósmekklegt er það en svo sem fyndið líka á sinn hátt. Annað heldur ógeðfellt samfaraatriði kemur aðeins örfáum mínútum síðar þar sem kylfa kemur við sögu og hefði þetta atriði hæglega getað hækkað aldurstakmark bíógesta, hefði ég talið, í að minnsta kosti 13 ár en myndin er bönnuð innan 12 ára.
Lengra og grófara
Þessi tvö atriði gefa forsmekkinn að því sem koma skal, þ.e. meira af nokkurn veginn því sama og í fyrri mynd en þó öllu grófara, ef mig brestur ekki minni. Persónusköpun víkur fyrir kjána- og subbuskap og uppátæki hverrar persónu spegla þau sem voru í fyrri mynd. Fíflalætin í veiðihúsinu ná nýjum hæðum í óborganlegu atriði þar sem Jónsi (Hilmir Snær) og Maggi (Halldór Gylfason) bjóða upp á skemmtiatriði í sokkum einum fata og spila með tilþrifum á ákveðna líkamsparta. Það sem gerir atriðið svo enn ótrúlegra er lengdin á því (það stendur yfir í margar mínútur) og hversu ófeimnir leikararnir eru við að bera sig fyrir alþjóð. Og lopinn er teygður í fleiri atriðum, til dæmis einu þar sem tveir veiðifélagar komast í hann krappan á stjórnlausum árabáti. Tölvubrellur í því atriði eru hlægilega lélegar, líkt og laxarnir sem sjást reglulega hoppa í ánni en í svona mynd skiptir það engu máli og styður bara við grínið.
Halldóra Geirharðsdóttir fer mikinn í hlutverki lögreglukonunnar Erlu og er hlutverk hennar stærra í þessari mynd en þeirri fyrri. Hegðun hennar er með miklum ólíkindum og auðvitað fjarri öllu raunsæi. Lögreglukonan er ekki síður ógeðfelld en helstu karlpersónur myndarinnar, sem er hressandi tilbreyting frá formúlunni. Konur þurfa ekki að vera englar, fórnarlömb eða óeðlilega umburðarlyndir makar í grínmyndum um karla, eins og svo oft vill verða. Og Erla hefur sannarlega ekki sagt skilið við Val og félaga, ef marka má lok myndarinnar og yfirlýsingar þeirra Markelsbræðra um að þeir hafi lagt upp með að gera margar veiðiferðamyndir.
Ekki svo fallegur dagur
Líkt og í fyrstu mynd eru persónur misáhugaverðar í þessari og misspaugilegar og brandararnir allt frá því að vera heldur ófyndnir yfir í að vera sprenghlægilegir. Í einu allra besta atriðinu kemur Jökull úr hljómsveitinni Kaleo við sögu og býr til skemmtilega andstæðu við þennan ljóta skrípaheim karlanna sífullu. Annar landskunnur og ástsæll tónlistarmaður, Bubbi Morthens, snýr svo aftur og leikur sjálfan sig sem fyrr óaðfinnanlega. Í fyrri mynd hnýtti hinn kunni smellur Bubba og GCD, „Sumarið er tíminn“, saman upphaf og endi sögunnar með skemmtilegum og hugmyndaríkum hætti en núna er það hið sígilda og angurværa lag „Fallegur dagur“. En dagurinn er bara alls ekki fallegur, ekki frekar en slagsmál þau, ríðingar og fyllirí sem Bubbi söng um fyrir nær 42 árum á Ísbjarnarblúsi. Og af þessu þrennu er sannarlega nóg í Allra síðustu veiðiferðinni sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, fínasta skemmtun þó fyrsta myndin hafi verið öllu betri.