VOLAÐA LAND Hlyns Pálmasonar valin á Cannes

Volaða land eftir Hlyn Pálmason hefur verið valin til þátttöku í keppnisflokknum Un Certain Regard í aðaldagskrá alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Síðasta mynd Hlyns, Hvítur, hvítur dagur var einnig valin á Cannes hátíðina.

Myndin verður heimsfrumsýnd á hátíðinni, sem fer fram dagana 17. – 28. maí.

Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar á för sinni. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn smám saman tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

Hlynur leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni. Fyrri verk Hlyns hafa verið heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðunum í Berlín, Cannes, Locarno og Toronto, og unnið til fjölda verðlauna víðsvegar um heiminn. Stuttmyndin Sjö bátar hóf ferðalag sitt í Toronto árið 2014, kvikmyndin Vetrarbræður tók þátt í aðalkeppni Locarno árið 2017, og kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur keppti í Critics’ Week á Cannes árið 2019. Þá var stuttmyndin Hreiður valin til þátttöku á þessu ári í Berlinale Special hluta Berlínarhátíðarinnar.

Volaða land er framleidd af danska framleiðslufyrirtækinu Snowglobe og hinu íslenska Join Motion Pictures. Framleiðendur eru Katrin Pors, Anton Máni Svansson, Eva Jakobsen, og Mikkel Jersin, í samvinnu við sænska og franska meðframleiðendur.

Með aðalhlutverk fara þeir Elliott Crosset Hove og Ingvar E. Sigurðsson, og í stærstu aukahlutverkum eru þau Hilmar Guðjónsson, Jacob Hauberg Lohmann, Vic Carmen Sonne, og Ída Mekkín Hlynsdóttir. Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Mariu von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo sá um klippingu myndarinnar. Frosti Friðriksson var leikmyndahönnuður myndar, Alex Zhang Hungtai samdi tónlistina, og Björn Viktorsson sá um hljóðhönnun ásamt Kristian Eidnes Andersen.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR