Aðstandendur VERBÚÐARINNAR lögðu upp með að hafa þetta líflegt

Gísli Örn Garðarsson, Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir ræddu við Atla Má Steinarsson í hlaðvarpsþættinum Með Verbúðina á heilanum í kjölfarið á lokaþætti Verbúðarinnar.

Á vef RÚV segir:

„Þau eru alltaf að forðast það að leika hjón,“ segir Björn Hlynur Haraldsson um Gísla Örn Garðarsson og Nínu Dögg Filippusdóttur. Gísli leikstýrði eiginkonu sinni og besta vini í ástarsenum í Verbúðinni sem lauk síðasta sunnudag. Gísli, Björn Hlynur og Nína eru öll meðlimir Vesturports, hafa verið vinir í áratugi og vinna ótrúlega vel saman að eigin sögn.

Lokaþáttur Verbúðarinnar var sýndur síðasta sunnudag og þá fylgdist þjóðin andaktug með örlögum ekkjunnar Hörpu og fiskvinnslunnar. Þátturinn hefur notið geysilegra vinsælda og má segja að æði hafi gripið um sig. Fólk keppist við að birta sem spaugilegastar myndir af sjálfu sér frá níunda áratugnum, annaðhvort að störfum í verbúð eða á leið á dansleik með ljónagreiðslu, spreyjað hár og axlapúða, til að fagna þeim tíðaranda sem dreginn er upp í þáttunum.

Gísli Örn Garðarsson, Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir fengu hugmyndina að Verbúðinni fyrir um áratug. Þá hafði verið gaukað að þeim hugmyndinni um að þau skrifuðu sjónvarpsseríu sem fjallaði á einhvern hátt um sveitarómantík. Þau ræddu við Atla Má Steinarsson í hlaðvarpsþættinum Með Verbúðina á heilanum í kjölfarið á lokaþættinum.

Sveitarómantík og kvótakerfið
Þríeykið sat nokkra fundi og komst að þeirri niðurstöðu að þau langaði að tengja söguna við sjávarútveginn og kvótakerfið. Þá lá beint við að fara á Vestfirði. „Við höfum öll tengingu vestur, höfum öll verið á Suðureyri og það hafði mallað í okkur að gera eitthvað þar,“ segir Gísli.

Björn Hlynur segir að hópurinn hafi lagt upp með að gera líflegan þátt. „Við vildum segja sögu í ákveðnu tempói, hafa þetta sprúðlandi lifandi en líka kómískt því hugmyndin, per se, þegar þú heyrir hana fyrst er þetta ekkert brjálað entertainment. Við vitum það alveg,“ segir hann og hlær. „En ég held að þeir sem hafa horft á þættina hafi áttað sig á því að það er mjög mikilvægt að þetta sé skemmtilegt, litríkt og kraftmikið. Það er eitthvað energí sem við vildum alltaf stefna á með þá.“ Nína tekur undir og bætir við að þau hafi viljað hafa þættina nálægt sér sem hóp. „Við erum öll vinir og þetta fjallar um þessi vinahjón sem eru að kaupa togara. Tengingin er inn á við fyrir okkur líka og sagan nálægt okkur,“ segir hún.

Fylgja hjartanu
Þau ákváðu að ímynda sér hvernig staðan hefði verið hefðu þau verið stödd á þessum stað á þessum tíma. „Hvernig hefðum við sem vinahópur dílað við þetta? Dæmisagan er í raun að þetta hefði getað gerst, við hefðum getað verið þetta fólk og spilað svona úr þessu,“ segir Gísli. „Við erum búin að vinna mjög lengi saman og við þekkjum hvert annað mjög vel. Það er sköpunargleði í okkur og þessari leikgleði er ekki troðið inn. Svona erum við og svona gerum við okkar verk. Það er oft litríkt og skemmtilegt en líka hádramatískt. Við fylgjum dálítið mikið okkar eigin hjarta.“

Fengu verðlaun í Frakklandi en endurskrifuðu fyrsta þáttinn
Þau fóru til Frakklands og sýndu fyrstu tvo þættina þar á hátíð þar sem þau hrepptu aðalverðlaunin í sínum flokki. Þrátt fyrir frábærar undirtektir fundu aðstandendur þáttanna að eitthvað væri ekki alveg eins og þau vildu hafa það. „Við horfðum á byrjunina og vorum svona: Hmmm, þetta er ekki rétt,“ rifjar Gísli upp. Þá settust þau niður og endurskrifuðu byrjunina að fyrsta þætti og skutu þær senur upp á nýtt með ýmsum breytingum. „Þegar ég stend að horfa í spegilinn að tala við sjálfan mig, það var ekki til, og þegar ég labba niður á höfn og hitti Nínu og Hlyn, það var ekki til. Það var allt önnur byrjun,“ tekur hann sem dæmi.

„Mér finnst yndislegt að hafa þig sem manninn minn“
Nína segir að handritið hafi farið í marga hringi áður en það tók á sig lokamynd. Eins og áhorfendur vita leika Nína og Björn Hlynur hjónin Hörpu og Grím en karakter Nínu heldur við Jón, sem Gísli leikur. „Þau eru alltaf að forðast að leika hjón svo ég leik manninn hennar Nínu og tek því bara fagnandi,“ segir Björn Hlynur sposkur. „Mér finnst yndislegt að hafa þig sem manninn minn,“ bætir Nína við en þá grípur Gísli glettinn inn í og svarar: „Getum við talað um eitthvað annað?“

Leika í ástarsenu og fara svo heim að sjóða fisk
Björn Hlynur segir að áður en farið sé í slíka senu aftengi leikarinn sig ekki heldur leggi sig allan fram við að gera kemistríuna trúanlega. Hann bendir á að í kvikmyndagerð nú á dögum sé orðið algengt að á setti starfi nándarleikstjórar sem æfi hreyfingar með leikurum. „Hann kemur við þig hér og þetta er búið til eins og dans.“

Nína segir að hópurinn hafi leikið saman í tuttugu ár og fram að því voru þau saman í bekk. Þau hafa gengið í gegnum ýmislegt saman. „Gísli er búinn að leikstýra okkur á sviði þar sem við erum elskhugar og í senunni í sjöunda þætti er Gísli á tökustað,“ segir hún. „Þú ferð á fullt inn í þetta ferðalag tilfinningalega sem karakterinn þinn en svo verðurðu að stíga út úr því, hitta börnin þín og sjóða fisk. Setja í þvott og krakkarnir eiga eftir að lesa,“ segir hún. „En við gerum þetta alltaf af heilum hug.“

Vinahópurinn og sögusviðið
Gísli segir frá hugmyndinni að máta vinahópinn við sögusviðið og segir að hlutverk Jóns hafi af ýmsum ástæðum verið sitt. „Ég væri líklegri braskandi bæjarstjóri en Hlynur, Hlynur væri líklegri til að vera á bát með sitt dæmi þar. Nína er miðjan á þessu öllu og svo erum við að þykjast vera svaka mikilvægir,“ segir hann. „Ingvar er aðalskipstjórinn, svo ertu með Góa sem er vélstjóri og Unnur Ösp tekur yfir fiskvinnsluna. Selma Björnsdóttir, konan mín í þáttunum, segir hlutina beint út, hún er svolítið svoleiðis.“

Pétur Jóhann fer svo með hlutverk lögreglumannsins Gils. Hópurinn hafði upprunalega allt aðra hugmynd um hvernig leikari færi með það hlutverk. Það sama á við um Kristínu Þóru Haraldsdóttur sem leikur Tinnu, barnsmóður Gríms. „Fyrst var pælingin að hún væri yngri og okkur fannst það skrýtið, svo kemur Kristín Þóra og neglir þetta þannig að maður er bara: Jesús, hún er svo ótrúleg,“ segir Nína. Þau sáu fyrir sér að blaðamaðurinn sem Hilmir Snær leikur væri yngri en leikarinn en svo var hann algjörlega sá rétti í hlutverkið. Þau tóku sér tíma til að velta fyrir sér hver ætti að fara með hlutverk systur Nínu en um leið og Rakel Garðarsdóttir, kona Hlyns og systir Gísla, stakk upp á Önnu Svövu þá kom enginn annar til greina. „Við hringdum í Önnu Svövu og hún bara: Ha, ég? Svo hitti hún okkur og var bara geggjuð,“ segir Björn Hlynur. „Jógvan er annar, hann er alveg frábær.“

Ingvar bað um að fá að leika Torfa
Ingvar E. fer með hlutverk skipstjórans og það kom áhorfendum mörgum á óvart að stórleikaranum sjálfum væri bara slaufað eftir fyrsta þátt, því hans karakter deyr strax í byrjun. Það var Ingvar sjálfur sem vildi taka að sér þetta hlutverk. „Svona var samtalið: Ingvar, við erum búin að taka frá flest hlutverkin við Hlynur, Nína og Gói en hvað vilt þú leika?“ rifjar Gísli upp. „Það eru alls konar aðrar persónur. Hann fær handritið, kemur til baka og er bara: Sko, ég verð að leika þennan Torfa. Þetta er bara skrifað fyrir mig. Þar með var það ákveðið.“

Ræðan tekin upp úr ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur
Það eru ýmsar skírskotanir í raunverulega atburði í þáttunum. Megnið af ræðunni sem Jón heldur í öðrum þætti er tekið beint upp úr ræðu sem Jóhanna Sigurðardóttir hélt á sínum tíma. „Í raun er allt þetta pólitíska og þróunin á þessu kerfi, það fór mikil vinna í að ná utan um það og vera ekki að bulla í þeim efnum,“ segir Gísli um heimildavinnuna. „Auðvitað er það sett í búning, tímalínan er ekki alltaf alveg 100% en allur innblásturinn er kominn úr raunveruleikanum.“

Umræðan um kvótakerfið ætti ekki að vera svona eldfim
Þó þættirnir fjalli um kvótakerfið þá taka aðstandendur þeirra ekki afstöðu um réttmæti þess. Mikið hefur verið deilt um það í gegnum tíðina en Gísli segir að málið þurfi ekkert að vera svona eldfimt því þetta sé ekkert leyndarmál. „Það voru sett kvótalög og það stendur í fyrstu grein laganna að fiskurinn sé sameign allra. Hann er það ekki því í framkvæmd laganna er hann séreign. Hvort sem það er rétt eða rangt er síðan eitthvað sem við getum talað um og fólk haft ólíkar skoðanir á, en það er ekkert leyndarmál. Þannig er það bara. Kannski þarf það að vera þannig, kannski þarf það ekki að vera þannig. Þess vegna kjósum við fólk á Alþingi til að taka ákvarðanir um það fyrir okkar hönd.“

Og hann segir að mögulega séu einmitt þeir aðilar sem eigi kvótann og sjái um setningu og framkvæmd laganna einmitt best til þess fallnir að sinna sínu hlutverki. „Kannski væri allt í volli ef það væru frjálsar veiðar. Kannski væri enginn fiskur í sjónum, kannski værum við á hausnum og allt í rugli.“

Halldór Ásgrímsson átti hlut í fiskveiðifyrirtæki
Gísli bætir því við að kvótakerfið snúist um hagsmuni og þeir hagsmunir séu að það verði ekki ofveiði. „Að það verði hægt að byggja upp iðnaðinn og til að gera það þarf að hafa tryggingu fyrir því að framtíðin sé trygg, það eru hagsmunir. Auðvitað eru mjög margar hliðar á því,“ segir hann.

Þannig hefur þingmaðurinn Jón í þáttunum hagsmuna að gæta og Harpa einnig. „Við erum listamenn og það er pólitík að útfæra þetta,“ segir Gísli og bætir við: „En við skulum ekki horfa framhjá því að Halldór Ásgrímsson sem var sjávarútvegsráðherra þegar kvótakerfið var sett á átti hlut í fiskveiðifyrirtæki. Það besta við þættina er að sumt er sjokkerandi en það eru hlutir sem gerðust í raun, það er afhjúpandi því þetta er sögustund í bland.“

Björn Hlynur segir að þau hafi áttað sig á því þegar rýnt var í söguna að það væru gloppur í lögunum sem fólk hafi nýtt sér. „Það er í okkar eðli að finna glufur, eins og síldartorfa reynir að finna gat,“ segir hann. „Það virðist hafa gerst þarna og hvað segir það okkur? Viljum við alltaf hafa stífari reglur og lög um allt? Ég veit það ekki. Við lærðum helst hvað þetta var sloppy og skringilega að þessu staðið. Það var mesta lexían fyrir okkur því við vorum örlítið of ung til að átta okkur á því hvað hefði gerst.“

Harpa er hetja sögunnar
Það kemur í ljós fljótlega eftir fyrsta þáttinn að Harpa er aðalpersóna seríunnar. Hún starfar í byrjun sem ritari en er svo komin með völdin í sínar hendur og tekur mikilvægustu ákvarðanirnar. Nína segir að Harpa hafi í raun viljað bjarga bænum og að hennar gjörðir hafi komið frá góðum stað. „Til dæmis þegar þau fara til Hull þá er það bara hvað eigum við að gera við fiskinn? Heyrðu ég er með hugmynd, komum honum þangað,“ segir hún. „En þetta er ekkert allt úthugsað hjá henni, hún er bara klár bisnesskona.“

Björn Hlynur tekur undir. „Harpa er að dreifa kleinum á bæjarskrifstofunni en hún finnur fljótt öryggi í sér til að stíga inn í þennan heim, því hún sér hvað þetta er í raun mikið kallakjaftæði,“ segir hann og Nína er sammála. „Hún líka er með yfirsýn yfir allt eins og konur eru. Þetta er ekki langt frá henni þegar kemur að því að stökkva á þetta, þá er hún eins og hún segir við Sverri: Ég kann þetta, veit allt og Jón veit ekki neitt,“ segir hún. „Hún þarf bara að bjarga bænum – annars verður skipið selt annað. Drævið er rosalegt.“

Nína naut þess að leika Hörpu, „því hún er svo breysk og marglaga á sama tíma og hún er að reyna að halda uppi þorpinu,“ segir hún.

Tvíburabróðir Gríms gæti leitað hefnda
Gísli segir að Harpa sé haldin réttlátri reiði og að það fari ekki vel fyrir þeim sem reyni að svíkja hana, eins og þegar hún kemst að því að Tinna hefur verið að segja blaðamanninum allt. „Ef hún gefur þér traust þitt og þú svíkur það, þá ertu illa settur,“ segir hann. Björn Hlynur tekur undir: „Hún endar bara sem Godfather. Hún lokar dyrunum á þá sem þarf að úthýsa.“

Í lokin, þegar eiginmaður hennar er látinn og bæjarbúar pískra um að hún hafi hrint honum finnur hún að henni er ekki stætt í bænum lengur. „Fyrir tíu árum, þegar nordic noir var að ná hæðum, þá drap Harpa Grím,“ segir Gísli sposkur. „Hann var feigur alveg frá byrjun,“ segir Björn Hlynur um Grím, og það gerir það að verkum að ef það væri gerð framhaldssería myndi hann ekki geta leikið karakter í henni, þar sem hann er allur. „Það er hugmynd um tvíburabróður hans Sævar sem kemur að leita hefnda,“ grínast hann og Gísli tekur undir: „Sævar mætir, síson tvö.“

Björn Hlynur og Gísli leikstýra þáttunum nema fimmta og sjöunda, þar sem María Reyndal situr í leikstjórasætinu. „Við Hlynur erum svolítið mikið að leika á móti hvor öðrum í þeim þáttum svo við hugsuðum sem svo að það væri ágætt fyrir okkur að fá að stíga til hliðar,“ segir Gísli um ákvörðunina og Nína bætir við: „Svo var líka pæling að fá kvenlega sýn á móti í leikstjórn.“

„Ef ég segi þér það þarf ég að drepa þig“
En hefur ferðalagið haft áhrif á þau? „Klárlega,“ segir Nína. „Að fara í gegnum svona ferðalag eins og þetta, sem er búið að taka okkur tíu ár, styrkir okkur sem teymi.“ Gísli tekur undir: „Sérstaklega því viðtökurnar voru svona góðar.“ Nína bætir við: „Við vinnum ótrúlega vel saman.“

Um möguleikann á framhaldsseríu svarar Nína: „Það kemur eitthvað.“ Gísli segir að þau séu með fullt af hugmyndum sem þau langi að koma í farveg sem fyrst. Aðspurður hvort það komi framhald af Verbúðinni svarar Gísli kankvís: „Ef ég segi þér það þá þarf ég að drepa þig. Við erum ekki sest í helgan stein og það kemur eitthvað.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR