Þáttaröðin Trom er komin í heild sinni á efnisveituna Viaplay. Stikla verksins er komin út. REinvent Studios í Danmörku framleiðir þættina í samvinnu við Kyk Pictures í Færeyjum og Truenorth á Íslandi.
Þættirnir, sem eru sex talsins, byggja á bókum færeyska rithöfundarins Jógvans Isaksen um rannsóknarblaðamanninn Hannis Martinsson. Í þáttunum rannsakar Martinsson andlát dýraverndunarsinna sem virðist hafa verið myrtur á meðan grindhvaladrápi stendur í eyjunum.
Það eru danski leikstjórinn Kasper Barfoed og sá íslenski Davíð Óskar Ólafsson sem leikstýra þáttunum. Davíð var framleiðandi og einn leikstjóra þáttanna Brot sem sýndir voru á RÚV haustið 2019.
Færeyingurinn Torfinnur Jákupsson skrifaði handritið en aðalhlutverk eru í höndum dönsku leikaranna Ulrich Thomsen og Mariu Rich og þess færeyska Olafs Johannessen.