Hrafn Garðarsson: Vissi ekki að ég væri að lesa besta handrit ævinnar

Hrafn Garðarsson kvikmyndatökumaður var að pakka í tösku fyrir þriggja mánaða ferðalag um Suður Ameríku þegar hann fékk símtal frá Gísla Erni Garðarssyni sem bað hann að sjá um kvikmyndatöku í Verbúðinni. Rætt var við Hrafn í hlaðvarpinu Með Verbúðina á heilanum á vegum RÚV.

Á vef RÚV segir:

Hætti við að fara til Suður Ameríku eftir símtal frá Gísla
Hrafn Garðarsson hafði yfirumsjón með kvikmyndatöku þáttanna. Hann hafði lært í Bandaríkjunum og svo komið heim til að starfa fyrir Saga film og í fréttum og þáttagerð á Stöð tvö. Hrafn var í óðaönn að pakka í tösku fyrir ferð til Suður Ameríku þar sem hann ætlaði að dvelja í þrjá mánuði, þegar Gísli Örn sló á þráðinn og bað hann að koma á sinn fund. Hrafn þekkti Gísla ekkert en vissi þó hver hann væri. „Hann segir mér að hann sé með verkefni sem hann langi að bera undir mig. Út frá því hefjast bara samningaviðræður og ég enda með að hætta við ferðina út.“

Fyrsta skrefið var að lesa handritið til að kynna sér söguna. Hrafn var sannarlega hrifinn af því. „Þegar ég les þetta handrit þá veit ég ekki að ég er að lesa bara besta handrit ævinnar sko,“ segir Hrafn sem las handritið að mestu standandi, of spenntur fyrir framvindunni til að fá sér sæti.

Skoðaði ljósmyndir frá þessum tíma til að ná fram stemningunni
Hann fór á Ljósmyndasafn Ísafjarðar til að kynna sér tíðarandann, skoða litina og áferðina á myndum frá þeim tíma sem sagan gerist. Svo hófst undirbúningur með ljósadeild í þrjá til fimm daga, að prófa filtera og breyta litum. „Við prófuðum endalaust af litum fyrir framan ljósin, endalausar tegundir af ljósum,“ segir Hrafn.

Alltaf tími til að bregða út af plani og gera eitthvað skapandi
Leikstjórarnir, Gísli Örn, Björn Hlynur og María Reyndal, gáfu Hrafni punkta og skýrðu fyrir honum hverju þau væru að leita að. Í framhaldinu fór hann að blanda saman litum og ljósi. Myndatakan í hverri senu var rækilega plönuð en þegar Hrafni eða öðrum í teyminu datt í hug að prófa eitthvað nýtt var gjarnan brugðið út fyrir handritið. Hrafn segir þá Gísla Örn og Björn Hlyn alltaf hafa verið tilbúna til að gera skemmtilegar tilraunir. „Þeir hætta ekkert að vera hypercreative,“ segir Hrafn. „Það er alltaf tími til að gera eitthvað creative og skreyta.“

Ákváðu að vera frekar ýkt en að fara öruggu leiðina
Kvikmyndatöku- og ljósateymið ákvað að ganga langt í tilraunamennskunni og reyna að vera óhefðbundið í nálgun sinni. „Ef þetta lítur venjulega út erum við að gera eitthvað vitlaust,“ segir Hrafn að þau hafi ákveðið. „Rauði þráðurinn í okkar samstarfi var að ýta alltaf, vera ekki seif heldur fara yfir línuna og vera alltaf smá ýktir. Að þetta væri alltaf skemmtilegt, allir rammar væru skemmtilegir og það væri eitthvað í þeim.“

Ákváðu að breyta dagsenum í nætursenur í miðju ferli
Það var stundum stressandi að taka þessar áhættur en Hrafn segist hafa ákveðið að trúa alltaf á eigin sannfæringu. En það var fleira sem breyttist í ferlinu. Eftir nokkra daga af tökum bæði að taka upp dag- og nætursenur komust Gísli og Björn Hlynur að þeirri niðurstöðu að þeim þættu nætursenurnar fallegri og dýnamískari og að þeir vildu breyta handritinu svo það væru fleiri kvöldsenur. Það var ekki auðvelt en teymið var lausnamiðað. „Það er meira að segja það þegar þú ert búinn að bóka tökustað á fjórðu hæð, þar sem þú ert með dagsljós inn allan daginn og þú þarft að finna út úr því hvernig þú gerir það að nótt svo þú sért að fá ljósastaura þarna inn en ekki sólina,“ segir Hrafn.

Gísli og Björn Hlynur eins og bræður
Það sem upp úr stendur eftir verkefnið segir Hrafn að sé hópurinn sem að þessu stóð. „Að vita að þú ert með fólk í kringum þig er alltaf mikilvægt. Fólk sem skilur þig og er samhuga,“ segir hann. Það hafi líka hjálpað til hve nánir Björn Hlynur og Gísli Örn eru og hve vel þeir þekkja inn á hvorn annan. En þegar aðrir komu inn þurfti að fínstilla nokkra hluti. „Það samstarf að koma inn í Vesturport og til þeirra sem hafa verið bara bræður í tuttugu ár og átt í einhverju creative samstarfi, sem verður svo allt í einu einhver þríhyrningur það tekur tíma að pússa,“ segir hann. Eftir samstarfið með þeim segist hann hafa lært ýmislegt. „Nú er ég opnari fyrir því að hugsa út fyrir kassann,“ segir hann að lokum.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR