BERDREYMI Guðmundar Arnars Guðmundssonar heimsfrumsýnd á Berlinale

Berdreymi, ný íslensk kvikmynd eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, hefur verið valin til þátttöku á Berlinale, alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Berlín, sem fer fram frá 10 – 20. febrúar.

Myndin er önnur kvikmynd Guðmundar Arnars í fullri lengd á eftir hinni margverðlaunuðu Hjartasteinn sem vakti mikla lukku meðal landsmanna og fór sigurför um kvikmyndahátíðir heims í kjölfar heimsfrumsýningar í Feneyjum árið 2016.

Berdreymi verður heimsfrumsýnd í Panorama flokki hátíðarinnar í Berlín, sem er lýst sem flokki fyrir heillandi og ögrandi kvikmyndir sem líklegar eru til vinsælda á meðal áhorfenda. Berlinale hátíðin er ein stærsta og virtasta kvikmyndahátíð í heiminum og dregur að yfir hálfa milljón manns frá yfir 130 löndum.

Guðmundur Arnar Guðmundsson | Mynd: Lilja Jónsdóttir.

Berdreymi segir frá Adda, unglingsstrák í Reykjavík sem alinn er upp af móður með skyggnigáfu. Einn daginn ákveður Addi að taka eineltisfórnarlamb undir sinn verndarvæng og inn í vinahóp slagsmálahunda. Án eftirlits, leika strákarnir sér að valdbeitingu og ofbeldi en kynnast einnig djúpri vináttu. Þegar hegðun strákana stigmagnast yfir í lífshættulega atburði, fer Addi að upplifa eigin skynjanir. Mun innsæi hans beina vinunum á öruggari braut eða munu strákarnir sökkva lengra inn í heim ofbeldis?

Guðmundur Arnar skrifaði handritið og með helstu hlutverk fara ungstirnin Birgir Dagur Bjarkason, Áskell Einar Pálmason, Viktor Benóný Benediktsson, og Snorri Rafn Frímannsson, ásamt Anítu Briem, Ólaf Darra Ólafssyni og Ísgerði Gunnarsdóttur. Framleiðandi myndarinnar er Anton Máni Svansson fyrir hönd Join Motion Pictures, en myndin er samstarfsverkefni fimm landa með meðframleiðendur frá Danmörku, Svíþjóð, Hollandi og Tékklandi.

Aðstandendur hafa trú á því að myndin muni vekja mikla athygli. „Þetta er grípandi mynd sem á eftir að vekja upp margar tilfinningar hjá áhorfendum, skemmtilegar, ljúfar og ógnvekjandi“ segir Anton Máni framleiðandi myndarinnar.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina og Panorama flokk hennar er að finna á vef Berlinale.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR