Morgunblaðið um ÖLMU: Upp, upp mín sál

„Myndin er nógu forvitnileg og öðruvísi til að fyrirgefa annmarka hennar,“ segir Gunnar Ragnarsson meðal annars í umsögn sinni um Ölmu Kristínar Jóhannesdóttur í Morgunblaðinu.

Gunnar skrifar:

Það er ekki á hverjum degi að einn af frumherjum íslenska kvikmyndavorsins sendi frá sér nýtt verk og er því forvitnilegt að sjá Ölmu, þriðju kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur.

Kristín er óneitanlega kvikmyndahöfundur (fr. auteur), í þeirri merkingu sem var lögð í orðið á sjötta áratug síðustu aldar, þ.e.a.s. verk hennar bera auðkennandi þætti sem eru gegnumgangandi og láta hverja einustu mynd vera greinanlega „hennar“.

Á hjara veraldar (1983) storkaði hefðbundnu frásagnarformi, sem ku hafa reynt á þanþol íslenskra áhorfenda, en henni er jafnan lýst sem „draumkenndri“. Ýmsar hliðstæður má sjá milli frumraunar Kristínar og Ölmu – myndirnar er í modernískum anda og frásagnirnar hlaðnar táknrænum eiginleikum. Samfélagsrýni er í bakgrunni – virkjanapólítík og náttúruvernd í tilfelli Á hjara veraldar en kvótakerfið og bankahrunið í Ölmu. Áhorfandinn er þar með staðsettur í söguheimi sem vísar til eigin veruleika – en hlutir og persónur merkja þó einlægt annað en yfirborð þeirra sýnir. Flókið getur verið að fóta sig í slíkri veröld en þó er stuðst við sögufléttu og drama en uppbygging þeirra er ekki sterkasta hlið Ölmu.

Frásögnin hefst á myndskeiði af barni í fangi móður sinnar en uppklæddur faðir leikur á fiðlu í seilingarfjarlægð. Hríðskotabyssuhvellir drynja í hljóðrásinni og klippt er á sýn af föðurnum falla fyrir slíku. Nærmynd af andliti barnsins blasir við – þetta er stundin sem mótar allt sem koma skal. Stríðsátök fjarlægra landa og fórnarlömb þeirra eru notuð á þennan hátt sem abstrakt hugmynd til þess að tákna sálrænt áfall. „Þarna gerðist það, nákvæmlega þarna, vitundin klofnaði í tvennt“ – mælir stúlkurödd á meðan stjörnur á blárri festingu birtast og dofna. Sögumannsröddin, til skiptis ung stúlka og eldri kona, þó sama brotakennda sjálf, er vitundarmiðja verksins. Textinn og flutningur hans er háfleygur og ljóðrænn, og óvenjulegur í kvikmyndalegu samhengi.

Alma, leikin af Snæfríði Ingvarsdóttur, birtist okkur á réttargeðdeild eftir upphafstitlana. Þar búa konur sem hafa orðið karlmönnum að bana, en Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Arndís Hrönn Egilsdóttir eru eftirminnilegar í hlutverki vistkvenna. Alma er mállaus, réttara sagt talar hún ekki, a.m.k. fyrst um sinn. Hún byrjar að skrifa og þekur fljótlega alla veggi, og á endanum, líkama sinn með stafrófinu – í tilraun til þess að ná tengslum á ný. Hilmir Snær Guðnason fer með hlutverk Ingvars geðlæknis sem gengst upp í að stjórna konunum, en á öðrum sviðum lífsins virðist hann vera undirgefinn, en Alma er eftirlætið hans.

Kaflinn innan geðdeildarinnar er sterkasti hluti myndarinnar. Myndavél Ita Zbroniec-Zajt svífur á spori endilangra hvítra ganga– allt skjannahvítt, svo hvítt. Ásgeir H. Ingólfsson, gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1, bendir á skyldleika við Gaukshreiðrið (Milos Forman, 1976) sem er nokkuð ótvíræður og skemmtilegur (og Englar alheimsins flögra þarna jafnvel líka). Besta senan er játningarræða Ólafíu Hrannar, þar sem fylgst er með konunum í óslitinni töku hlusta á hvernig hún drap karlskarfinn („af því hann snerti börnin“).

Ofbeldi og átök kynjanna er greinilegt meginþema. Í ljós kemur þó að kærasti Ölmu, sem hún kvað hafa vegið, er sprelllifandi eftir allt saman og í felum í Mið-Austurlöndum út af dópskuld á Fróni. Hún flýr deildina og heldur heim á leið, í órætt sjávarþorp úr magnaðri bíóveröld.

Þar er allt á undanhaldi, grotnandi og stórkarlar seilast í kvóta smáútgerðar. Alma snýr til uppeldismæðra sinna en stórleikkonurnar Kristbjörg Kjeld og Emmanuelle Riva (Hiroshima mon amour, Amour) mynda stórkostlegt tvíeyki. Hús þeirra er erkibíólegt íslenskt fornheimili í bárujárnsklæðum með litríku veggfóðri. Hönnun sviðsmyndar, en ekki síður kómískur leikur kvennanna, minnir á litasamsetningar og ömmuna stórfenglegu í Nóa albínóa (svo er Þröstur Leó líka skammt undan). Sjávarþorpssögusviðið vekur upp fleiri íslenskar myndir, Hafið og Kaldaljós (þar sem Kristbjörg og Snæfríður mættust fyrst), og stjörnukraftar Rivu minna hápunkta franska listabíósins. Þessi margvíslegu textatengsl og „bíóleiki“ myndarinnar gleðja.

Samtölum og leikstíl myndarinnar er hægt að lýsa sem and natúralískum (í takt við fyrri verk Kristínar) og leikhúslegum. Myndin er mjög ójöfn að þessu leyti, töluvert er af senum og samtölum sem virka stirð og textinn óþarflega uppskrúfaður. Þessi sérstæði stíll er þó líklega hluti af höfundarætlan – að gera skáldskapinn skáldskaparlegan.

Reyndari leikararnir valda þessu almennt vel. Mikið er þó lagt á herðar Snæfríðar Ingvarsdóttur, sem er einkar myndræn og stendur sig vel í krefjandi aðalhlutverkinu. Persóna hennar, að upplagi, líður einfaldlega fyrir táknrænan frásagnarmáta Kristín – er hún myndlíking eða persóna af holdi og blóði? Það er erfitt að tengjast Ölmu og því sem vindur fram. Sjávarþorpsfléttan með Ölmu og fyrrum kærasta (Snorri Engilbertsson), er hvað verst hvað það varðar – þar sem tónn og flæði samtala er of óeðlilegur. Söguhetjur modernísks skáldskapar eru gjarnan utan seilingar og ekki gefinn sálfræðilegur bakgrunnur fyrir gjörðir þeirra – það bókstaflega á að vera ómögulegt að tengjast þeim. Þetta getur þó varla verið ætlunin hér, þar sem einfalt sálfræðilegt upplegg persónunnar er lykilþáttur – en kvikmyndin fetar tyrfinn meðalveg í þessu samhengi.

Sem heildarverk gengur Alma skrykkjótta leið að endamarki sem næst, tæplega þó. Myndin er nógu forvitnileg og öðruvísi til að fyrirgefa annmarka hennar. Löngu tímabært er að fá nýja kvikmynd frá þessum lykil leikstjóra í íslenskri kvikmyndasögu og vonandi hefur Kristín ekki sagt sitt síðasta á hvíta tjaldinu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR