Stockfish hátíðin haldin 20.-30. maí

Stockfish Festival fer fram í Bíó Paradís dagana 20.-30. maí í sjöunda sinn. Á þriðja tug kvikmynda verða frumsýndar. Heimildamyndin Tídægra eftir Anní Ólafdóttur og Andra Snæ Magnason verður frumsýnd á hátíðinni.

Tídægra er eftir þau Anní Ólafsdóttur og Andra Snæ Magnason, en áður gerðu þau myndina Þriðji póllinn sem tilnefnd er til fimm Edduverðlauna.

Þegar frumsýningu Þriðja pólsins var frestað vegna Covid fyrir rúmu ári tók við ákveðið tómarúm hjá tvíeykinu. Þau sátu ekki auðum höndum heldur héldu af stað með kvikmyndatökumanninn Andra Haraldsson með í för til að fanga þennan einstaka tíma. Eða eins Andri lýsir tilurð myndarinnar sjálfur:

,,Eins og allir aðrir upplifðum við glötuð tækifæri þegar samkomubannið vegna COVID-19 skall á. Við meðleikstóri minn, Anní Ólafsdóttir, vorum nýbúin að leggja lokahönd á heimildarmyndina Þriðja Pólinn. Eftir þriggja ára vinnu var frumsýningardagur loksins handan við hornið og sýningar á myndinni á dagskrá kvikmyndahúsa um land allt þegar öllum kvikmyndahúsum er lokað. Margra mánaða markaðsátak runnið út í sandinn og ljóst að vitundarvakning um geðheilsu þurfti að bíða á meðan heiminum þótti aðkallandi að setja bráða ógn við líkamlega heilsu í forgang.

Við vorum frosin og búin að vera í biðstöðu í meira en viku þegar Anní spurði mig: ,,Er okkur að yfirsjást eitthvað hérna? Erum við hugsanlega að syrgja glötuð tækifæri á meðan sögulegt tækifæri rennur okkur úr greipum? Væri ekki nær að skrásetja sögulega tíma, frekar en að bíða nýs frumsýningardags?’’ Þannig að við fengum góða kvikmyndatökuvél og Andra Haraldsson tökumann í lið með okkur og fórum út að fanga samtímann.“

Þau tóku viðtöl við guðfræðinga, heimspekinga og listamenn og spurðu: Hvað er í loftinu? Hvaða þýðingu hefur heims pásan í samhengi við andlega heilsu og stærstu vá samtímans, loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Hér má skoða myndirnar á hátíðinni.

Hér má skoða stuttmyndirnar sem keppa um Sprettfiskinn ár.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR