Fréttablaðið um ÖLMU: Hug­hrífandi, al­ís­lensk, got­nesk mar­tröð

„Snæ­fríður Ingvars­dóttir ber uppi marg­brotið og ljóð­rænt lista­verk Kristínar Jóhannes­dóttur, sem eins og endra­nær gerir miklar kröfur til á­horf­enda sem lík­lega upp­skera mest með því að reyna að skynja Ölmu frekar en skilja,“ skrifar Þórarinn Þórarinsson í fréttablaðið um Ölmu Kristínar Jóhannesdóttur.

Þórarinn skrifar:

Kristín Jóhannesdóttir er eyland í íslenskri kvikmyndagerð og þótt víðar væri leitað og óhætt að fullyrða að enginn gerir kvikmyndir eins og hún. Ekki síst vegna þess að fátítt er að leikstjórar leyfi sér að gera jafn miklar kröfur til áhorfenda og hún gerir, sem verður óhjákvæmilega til þess að hún er ekki allra og sjálfsagt munu einhverjir hausar hristast yfir Ölmu eins og yfir Á hjara veraldar og Svo á jörðu sem á himni á sínum tíma.

Ljóðrænan er ríkjandi í myndum Kristínar og tíminn er afstæður innan sem utan höfundarverksins, sem aðeins telur þessar þrjár myndir sem hún hefur gert á tæpum fjórum áratugum. Frumraunin, Á hjara veraldar, hristi upp í mannskapnum 1983, Svo á jörðu sem á himni var frumsýnd 1992 og nú, 29 árum síðar, birtist Alma. Kröftug, ágeng og ljóðræn saga sem lýtur sínum eigin lögmálum og er líkleg til þess að vekja alls konar hughrif.

Það er síðan undir hverjum og einum komið hvort hann hrífist með eða láti stjórnast af ferköntuðum pirringi, þegar Kristín kastar hefðbundnum frásagnarmáta fyrir róða og lætur linsu tökuvélarinnar leika um margbrotinn og klofinn huga titilpersónunnar.

Súrrealískar stemningar
Myndinni er lýst sem örlagasögu Ölmu, ungrar konu, sem er vistuð á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærastanum sínum þótt ekkert sé líkið og hún muni ekkert eftir verknaðinum. Sjö árum síðar stígur hinn myrti fram sprelllifandi og Alma ákveður þá að fremja glæpinn sem hún hefur þegar afplánað hugarvíl og innilokun fyrir.

Ferðalag Ölmu liggur um hugarheima hennar frá réttargeðdeild út á land.
Á pappírnum gæti þetta hæglega verið söguþráður ósköp venjulegrar glæpamyndar, en Alma er eitthvað allt annað og miklu meira. Myndin gerist að miklu leyti í huga aðalpersónunnar þar sem sjálfið leynist í mörgum vistarverum í ýmsum brotum.

Sagan sjálf, sem þó keyrir hugsanir og gjörðir Ölmu áfram, er því í raun aukaatriði, en um leið veikasti hlekkurinn í firnasterkri keðju hughrifa, heillandi stemninga, súrrealískra útúrdúra og seiðandi og ágengra myndbrota og stemninga.

Háfleygar lýsingar? Óhjákvæmilega, þar sem Alma er marglaga listaverk sem sprengir í raun kvikmyndaformið utan af sér og streymir fram í ólgandi lýrik þar sem ljós og myrkur, þungir tónar og léttir dansa saman í hárfínu jafnvægi sem Kristín heldur af mikilli íþrótt. Þarna væri svo auðvelt að misstíga sig og missa myndina út í uppskrúfaða tilgerð, en þrátt fyrir stöku feilspor hér og þar gerist það aldrei.

Stórleikur Snæfríðar
Snæfríður Ingvarsdóttir sýnir yfirvegaðan stórleik í hlutverki Ölmu og ber myndina á herðum sér, enda er persónan eða hugur hennar nánast alltaf í mynd. Persónan er flókin og hvergi fer á milli mála að hlutverkið er krefjandi og Snæfríður stendur svo fullkomlega undir þessu að myndin, eins undarleg og hún er, gengur upp. Á einhvern undarlega óræðan hátt.

Aðrir leikarar skila sínu með sóma. Kristbjörg Kjeld og franska leikkonan Emmanuelle heitin Riva glansa og sýna ómótstæðilegan samleik í hlutverkum aldraðra kvótaprinsessa sem hýsa Ölmu þegar hún hverfur aftur heim í sjávarþorp æsku sinnar.

Hús þessara sérlunduðu kvenna er síðan eins og gotneskur kastali og einhver alflottasta sviðsmynd sem sést hefur í íslenskri kvikmynd. Alveg ofboðslega „erlendis“ eins og í raun myndin öll, sem er löðrandi í gotneskum minnum en um leið einhvern veginn alíslensk.

Hilmir Snær Guðnason leikur sálfræðing Ölmu og örlagavald, sem er ekki allur þar sem hann er séður, áreynslulaust og Þröstur Leó Gunnarsson bregst ekki frekar en fyrri daginn frekar en aðrir leikarar. Ólafía Hrönn Jónsdóttir skarar þó alveg fram úr og stelur sínum senum með átakanlegri en samt dálítið kómískri túlkun á andlega veikum morðingja sem dvelur með Ölmu á réttargeðdeildinni.

Undir áhrifum
Kvikmyndin er, rétt eins og hugur Ölmu, litrík mósaík þar sem saman koma magnaðar sviðsmyndir, frábær kvikmyndataka Ita Zbroniec-Zajt af tilkomumiklu landslagi og þrúgandi, smart skotum þar sem sumir rammar eru svo drekkhlaðnir táknum og vísunum að hugurinn nemur ekki nema brotabrot af úthugsuðu áreitinu í nístandi fallegum martraðarstemningum.

Heillandi frammistaða Emmanuelle Riva reyndist vera svanasöngur hennar.

Yfir þessu öllu og utan um svífur svo ferlega flott tónlist Högna Egilssonar, sem kallast svo brjálæðislega vel á við myndefnið að áhrifin verða á köflum bókstaflega líkamleg.

Sagan um glæpinn sem aldrei var framinn en verður það kannski, hríslast framan af eftir þessu myndræna völundarhúsi huga aðalpersónunnar. Er eiginlega bara enn eitt brotið í myndinni og sennilega hefði farið best á því að leyfa sögunni að rekast þannig til enda.

Heildarmyndin verður einhvern veginn aðeins veikari undir lokin, þegar reynt er að jarðtengja söguna með einhverri línulögun þannig að hún „meiki sens“. Þetta verður einhvern veginn til þess að maður byrjar að bögglast við að reyna að skilja myndina. Hvað var ég eiginlega að horfa á? Þegar besta svarið er sennilega: Ég veit það ekki og mér er alveg sama.

Þessi mynd virkar best þegar hún er óskiljanleg og hughrifin allsráðandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR