Lestin um SYSTRABÖND: Brothættur og blákaldur raunveruleiki

„Vönduð persónusköpun yfirgnæfir brostnar væntingar til sögufléttunnar og áhorfendur sogast inn í virkni kvennanna, sem afhjúpar þær bæði sem breyskar og skeikular á sama tíma og þær reyna að bæta fyrir syndir sínar,“ segir Katrín Guðmundsdóttir gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1 um þáttaröðina Systrabönd.

Katrín skrifar:

Sagan segir frá þremur ólíkum konum sem neyðast til að koma saman og takast á við sameiginlega óuppgerða fortíð. Mannabein finnast skammt utan við smábæ úti á landi og eru konurnar allar mjög greinilega með óhreint mjöl í pokahorninu.

Mér fannst dálítið erfitt að staðsetja þættina greinarfræðilega séð, því þótt atburðarásin hverfist um glæp er þetta ekki með neinu móti hefðbundinn krimmi. Í grunninn er þetta vissulega spenna sem byggist á tveimur leyndardómsfullum þráðum sem afhjúpast eftir því sem líður á söguna, annars vegar hvað átti sér stað þarna í gamla daga og hins vegar hvað mun gerast nú þegar málið hefur verið tekið upp að nýju. Hvorugur þráðurinn er þó sérlega spennandi og nokkuð ljóst frá upphafi hvernig hnútar þeirra munu verða hnýttir. En ég er ekki endilega viss um að þessum þráðum sé ætlað að vera svo spennandi og eftir því sem ég hugsa meira um það held ég að þeim sé fremur ætlað að vera tæki til að miðla öðrum og hugsanlega mikilvægari skilaboðum til áhorfenda.

Systrabönd er saga um konur, sem er sögð af konum en þó ekki aðeins fyrir aðrar konur að horfa á. Umfram allt eru þættirnir nefnilega fjölskyldudrama með sálfræðilegum undirtóni; svið sem er gjarnan tileinkað konum, nema í þessu tilfelli virðast höfundar þáttanna leitast markvisst við að snúa niður þá staðalmynd.

Leikstjórinn, Silja Hauksdóttir, býr yfir einstakri næmni á persónuleg samskipti og dýnamík á milli fólks sem á bæði sameiginlegan reynsluheim og deilir með sér sársauka. Hún sýndi það og sannaði með Agnesi Joy hér fyrir tveimur árum og gengur nú enn lengra inn mannlegan heim áfalla og einmannaleika. Vönduð persónusköpun yfirgnæfir brostnar væntingar til sögufléttunnar og áhorfendur sogast inn í virkni kvennanna, sem afhjúpar þær bæði sem breyskar og skeikular á sama tíma og þær reyna að bæta fyrir syndir sínar og láta gott af sér leiða. Samtöl eru skrifuð af djúpu innsæi í íslenskt fjölskyldulíf og togstreitan sem fylgir nútímasamfélagi er alltumlykjandi. Túlkun leikaranna er jafnframt framúrskarandi raunsæ og á köflum líður manni hreinlega eins og maður sé fluga á vegg í brothættum og bláköldum raunveruleika sögupersónanna.

Þættirnir snerta á ýmsum sígildum og samtímalegum viðfangsefnum, sem eru í senn séríslensk og sammannleg. Með því að stilla upp bældu smábæjarsamfélagi á tíunda áratugnum gagnstætt hinni frjálslyndu og framsæknu borgarmenningu sem við búum flest við í dag er dregin upp mynd af kynlóðabili gamla og nýja Íslands með tilheyrandi vangaveltum um breytt eða bætt siðferði, samfélagsgerð, uppeldishætti og stöðu kvenna í tímans rás.

Vangavelturnar birtast til að mynda í persónubrestum kvennanna sem hafa allar þróað með sér óheilbrigðar og einangrandi venjur til að takast á við daglegt líf, þó án þess að átta sig á því að þessar sömu venjur eru einmitt undirrótin að sársauka fortíðarinnar. Elísabet (Lilja Nótt) er skipandi fullkomnunarsinni alveg eins og íhaldssamir foreldrar hennar, Anna Sigga (Jóhanna Friðrika) flýr ábyrgð móðurhlutverksins, rétt eins og meðvirk móðir hennar, með því að drekkja sér í vinnu og Karlotta (Ilmur Kristjánsdóttir) glímir við margþættan fíknivanda, mögulega vegna fjarverandi móður og eftirlátsams föður í æsku. Mörg höfum við hugmyndir um hvernig foreldrar okkar hefðu getað gert hlutina öðruvísi þegar við vorum að alast upp. Sérstaklega í ljósi þess hve miklum breytingum bæði viðmið og gildi samfélagsins hafa tekið á jafn stuttum tíma og raun ber vitni. Einhvern veginn læðast eiginleikar þeirra samt alltaf að manni þegar minnst varir og jafnvel þótt áherslur breytist kynslóða á milli taka foreldrar og sambærilegar fyrirmyndir sér oftast einhvers konar bólfestu í hegðunarmunstri okkar.

Viðfangsefnin finna sér líka farveg í vinnuháttum lögreglukonunnar Veru (Halldóra Geirharðsdóttir) sem fer með rannsókn málsins eftir að beinin finnast. Sem fulltrúi femínisma og eins konar siðgæðisvörður réttlætis reynir hún ekki aðeins að komast til botns í málinu heldur endurskrifar hún líka sögu þeirra sem áttu hlut að því á sínum tíma. Ekki síst sögu hinnar syrgjandi móður Rutar (María Heba) sem var jaðarsett í litla smábæjarsamfélaginu fyrir að vera bæði einstæð og drykkfelld. Þrátt fyrir að vinna fyrir fjársvelt ríkisvald og vera undir mikilli pressu að loka málinu er Vera tilbúin að hlusta á hvað Rut hefur að segja og enn fremur trúa henni, jafnvel þótt hún gæti allt eins verið morðinginn sem hún leitar að. Hún er eiginlega smá fantasía. Draumalögregla nútímans sem beitir sér gegn misrétti og misnotkun jaðarsettra kvenna þvert á kerfislæg sjónarmið yfirmanns síns og samstarfsmanns, sem eru jú einmitt báðir karlmenn.

Birtingarmynd karla í þáttunum er satt að segja dálítið neikvæð og einkennist af fjarverandi feðrum, alkahólistum, framhjáhöldurum og nauðgurum. Svo skýrar og afgerandi eru sumar senurnar að manni líður stundum eins og maður sé að hlusta á raunverulegar frásagnir #metoo-byltingarinnar, sem ég efast reyndar ekki um að hafi verið sannur innblástur þeirra. Í rauninni kemur bara einn heilsteyptur maður fyrir í þáttaröðinni allri, það er að segja Pétur (Sveinn Geirsson) eiginmaður Elísabetar, sem er jafnframt stillt upp sem eins konar andstæðingi hennar þegar líður á söguna. Birtingarmynd kvennanna er nefnilega engu skárri og eins og spillt sjálfsbjargarviðleitni og eigingirni Elísabetar sýnir fram á er málstaður þeirra alls ekkert heilagur. Hann er engu að síður málstaður sem ber að taka til greina, sama hversu rangur hann virðist vera.

Þættirnir sýna okkur að konur geta líka svikið og prettað, drukkið og dópað, vanrækt börnin sín, haldið framhjá og meira að segja beitt miskunnarlausu ofbeldi og framið morð. Konur eru enda marglaga persónur sem taka ákvarðanir byggðar á reynsluheimi sem mótast af umhverfi og áföllum, alveg eins og karlar og allt þar á milli.

Hér að ofan sagði ég að Systrabönd væri saga um konur, sem væri sögð af konum en þó ekki aðeins fyrir aðrar konur að horfa á. En það er eiginlega ekki rétt og raunar mætti ætla að það væri staðalmyndin sem þættirnir freista að snúa niður, sem og skilaboðin sem höfundarnir reyna að miðla til áhorfenda. Þetta er nefnilega bara saga um fólk sem er sögð af fólki fyrir alls konar fólk að horfa á.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR