spot_img

Mikið áhorf á SYSTRABÖND

Þáttaröðin Systrabönd í leikstjórn Silju Hauksdóttur birtist í heild sinni á efnisveitu Símans, Sjónvarp Símans Premium, um páskana. Síminn hefur gefið út að þáttaröðin hafi slegið áhorfsmet hjá miðlinum með yfir 210 þúsund spilanir á fyrstu dögunum.

Þáttaröðin er einnig sýnd í línulegri dagskrá Sjónvarps Símans. Ljóst er af umfjöllun í fjölmiðlum og umræðu á samfélagsmiðlum að þáttaröðin hefur vakið mikla athygli og hlotið lofsamlega dóma.

Systrabönd fjallar um hvarf 14 ára stúlku en jarðneskar leifar hennar finnast 25 árum síðar og þá þurfa þrjár æskuvinkonur að horfast í augu við fortíðina.

Ilmur Kristjánsdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Lilja Nótt Þórarinsdóttir fara með aðalhlutverkin en í öðrum hlutverkum eru meðal annars Halldóra Geirharðsdóttir, Sveinn Geirsson og María Heba Þorkelsdóttir. Auk þess að leikstýra kemur Silja Hauksdóttir einnig að handritasmíðinni ásamt Björgu Magnúsdóttur, Jóhanni Ævari Grímssyni og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Sagafilm framleiðir.

„Við erum afskaplega þakklát fyrir þessar frábæru viðtökur. Ég kolféll fyrir sögunni og persónunum þegar hugmyndin kom á frumstigi inn á borð til okkar hjá Símanum frá Sagafilm, ég þóttist vita að þetta yrði eitthvað einstakt sem varð raunin,“ segir Pálmi Guðmundsson dagskrárstjóri Sjónvarps Símans í tilkynningu.

Í sömu tilkynningu kemur fram að fyrra áhorfsmet eigi þáttaröðin Venjulegt fólk þriðja syrpa, sem sýnd var síðasta haust. Ekki fylgja tölur um spilanir.

Klapptré er ekki kunnugt um að Síminn hafi sent frá sér upplýsingar um fjölda spilana á tilteknu tímabili síðan þáttaröðin Stella Blómkvist var í sýningum haustið 2017. Þá voru uppgefnar spilanir um 230 þúsund frá frumsýningu að hausti til áramóta.

Samkvæmt þessu er áhorf á Systrabönd mun hærra á fyrstu metrunum.

Sjónvarp Símans tekur ekki þátt í áhorfsmælingum Gallup líkt og RÚV og Stöð 2, en að gefnum ákveðnum forsendum gæti þetta litið svona út:

Þættirnir eru sex talsins og sé reiknað með því að áskrifendur horfi á alla þáttaröðina er horft á þættina á um 35 þúsund heimilum. Sé reiknað með að tveir horfi að meðaltali hafa um 70 þúsund manns horft á þættina hingað til. Búast má við að þessi tala hækki þegar frá líður. Tekið skal fram að hér er um hreina ágiskun að ræða og undirstrikað að hún er alfarið Klapptrés.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR