Ögn um fjársjóðskistuna Kvikmyndasafnið og framlag þess til þáttanna um sögu íslenskra kvikmynda

Kvikmyndasafn Íslands á stóran hlut í þáttaröðinni Ísland: bíóland með því að finna til og endurskanna fjölda eldri kvikmynda og margt annað. Ásgrímur Sverrisson ræddi við Þóru Sigríði Ingólfsdóttur forstöðumann safnsins um þessa vinnu sem og helstu verkefni og áskoranir safnsins um þessar mundir.

Kvikmyndasafnið er mikil og merkileg fjársjóðskista sem heldur utan um kvikmyndaarf Íslendinga. Þar er unnið mikilvægt starf sem verður ekki nógsamlega undirstrikað. Safnið hefur verið stór og mikilvægur hluti af vinnslu þáttaraðarinnar Ísland: bíóland allt frá því að undirbúningur og rannsóknarvinna hófst 2016 þar til vinnslu lauk í árslok 2020.

Framlag safnsins og starfsmanna þess fólst meðal annars í útvegun ýmiskonar heimilda og upplýsinga, sérstaklega um eldri hluta íslenskrar kvikmyndasögu, útvegun vinnslueintaka kvikmynda og ýmiskonar annars tengds efnis sem notað var við klippingu þáttanna og síðast en ekki síst endurskönnun fjölmargra eldri kvikmynda sem að lokum rötuðu inní þættina í lokavinnslunni.

Uppúr djúpinu

Staðan hefur lengi verið sú að margar eldri íslenskar kvikmyndir hafa verið sýndar í frekar bágbornu ásigkomulagi og er þar í flestum tilfellum um að ræða gamlar yfirfærslur sem gerðar voru fyrir jafnvel áratugum síðan. Þessi sýningareintök standast ekki kröfur, litir og ljós hafa skolast mjög til og margar voru aðeins fáanlegar í lágri upplausn í 4:3 myndskurði, enda miðaðar við sýningar í sjónvarpi eldri tíma.

Það var því mikið gleðiefni að fá í hendurnar á eftirvinnslutíma þáttana nýjar stafrænar yfirfærslur á sýningareintökum þessara mynda frá safninu. Þarna komu þær uppúr djúpinu eins og maður man eftir þeim fyrst, með breidd í litum, ljósi og áferð.

Eins og Þóra Ingólfsdóttir kemur inná í viðtalinu að neðan eru þetta ekki full-endurunnar myndir (restoration) þar sem farið er í frumefnið og myndirnar endurunnar frá grunni, heldur yfirfærsla á bestu fáanlegu sýningareintökunum. Engu að síður er himinn og haf milli þessara endurskönnuðu eintaka og þeirra eldri. Nokkrar íslenskar kvikmyndir hafa fengið slíka ítarlega endurvinnslu (sem er dýrt og vandmeðfarið verkefni) og er að sjálfsögðu sýnt úr þeim í þáttunum.

Takk fyrir elju, ósérhlífni og fagmennsku

Nú kann að virðast sjálfsagt að Kvikmyndasafnið komi að vinnslu þátta sem fjalla um sögu íslenskra kvikmynda – og víst er að án þess væru þættirnir ekki nema svipur hjá sjón. En málið er ekki alveg svo einfalt. Kvikmyndasafnið býr við þröngan fjárhagsramma og því ekki sjálfgefið að fá það til að leggja fram afar mikla vinnu við gerð slíkra þátta. Því ber að þakka Þóru og hennar starfsfólki, Gunnþóru Halldórsdóttur, Jóni Stefánssyni, Boga Reynissyni, Ester Bíbí Ásgeirsdóttur og Sigfúsi Guðmundssyni þá miklu elju, ósérhlífni og fagmennsku sem þau lögðu fram við þetta verk, langt umfram það takmarkaða fjármagn sem við aðstandendur höfðum til umráða varðandi þessa verkþætti.

Hér hefst viðtalið:

Safnið rétt að slíta barnsskónum í skönnunar- og endurgerðarmálum

ÁS: Þóra, gætirðu lýst aðkomu safnsins að þáttunum í stórum dráttum?

ÞÓRA: Kvikmyndasafnið lagði gríðarmikla vinnu í það verkefni að rannsaka, leita og grúska í eldra efni og gera það skoðunarhæft. Eins fór mikil vinna í að gera mikið af eldra efni eins sýningarhæft og mögulegt var.

Nú er staðan sú að sáralítið efni af filmu hefur verið stafvætt og gert upp enda fékk safnið fyrst hágæða 5K skanna árið 2018 og er safnið í raun rétt að slíta barnsskónum í skönnunar- og endurgerðarmálum. Þess vegna var mikið af því efni sem notað var í þættina hreinlega ekki til á stafrænu formi, eða það var til í afar misjöfnum gæðum.

Nú er það svo að það tekur safnið að lágmarki 6-8 vikur að endurgera mynd og getur tekið upp í marga mánuði eða ár allt eftir ástandi frumefnis og mannafla. Mikill metnaður var til að hafa sem mest af klippum í þáttunum í sem bestum gæðum en tíminn var lítill.

Það efni sem til var uppgert frá grunni var innan við 10 heilar kvikmyndir árið 2020 og var það auðvitað nýtt. Eins var brugðið á það ráð að skoða sýningareintök sem til voru af hverri kvikmynd en þau voru allt frá einu og upp í tíu. Þetta er mjög tímafrek vinna en sýningareintök á filmu eru misvel farin eftir því hvaðan þau koma, hversu oft þeim var rennt í gegnum sýningarvél og hvert ástand sýningarvélarinnar var. Valin voru bestu sýningareintökin í hverju tilviki og þau skönnuð í bestu gæðum miðað við efni.

Skönnun á góðu sýningareintaki jafnast ekki á við endurgerð úr frumefni, en er þó mun betri kostur en að nota gamlar útgáfur. Að öðru leyti fólst vinnan í allskonar tæknivinnu, endurrömmun og að gera gamalt efni hæft til skoðunar á stafrænu formi svo eitthvað sé nefnt.

Saga Borgarættarinnar (1921) er ein þeirra mynda sem Kvikmyndasafnið hefur endurgert.

Staðan á safnkostinum misjöfn

ÁS: Hver er svona almennt talað staðan á kvikmyndaarfinum með tilliti til ástands eintaka?

ÞÓRA: Staðan er mjög misjöfn eftir aldri og sniði efnis. Safnið geymir mikið af filmu við kjöraðstæður í kæli og frysti, við ákveðið hita- og rakastig. Farið hefur ýmsum sögum af því hvernig filman varðveitist best í gegnum tíðina en niðurstaða fagmanna er sú að þær geymast best við þessar aðstæður og út frá reynslunni er talað um að minnsta 100 ára öryggi en reynslan á ef til vill eftir að sýna miklu lengra geymsluþol. Nú skiptir auðvitað máli í hvaða ástandi filman er þegar hún kemur til varðveislu en það ástand á að minnsta kosti ekki að breytast til hins verra við þessar kjöraðstæður.

Elstu myndir og menningarverðmæti safnsins eru geymd í frysti. Við höfum því ekki sérstakar áhyggjur af varðveislu filmunnar eins og er.

Hitt er annað mál að minna er vita um geymsluþol efnis á ýmsum öðrum sniðum sem eru í takt við þróun kvikmyndaupptaka í gegnum tíðina. Safnið varðveitir spólur af margvíslegum toga og vinnur nú að stafvæðingaráætlun á þessu efni í forgangsröð. Elstu spólunar eru U-matic og byrjað er að stafvæða þær, en tæki til afspilunar eru vandfundin núorðið, safnið á nokkur slíkt tæki og ríður á að stafvæða þetta efni.

Safnið rak sig í þessu ferli strax á að efnaskipti í spólunum geta valdið skemmdum í afspilunartækjunum og hefur því verið brugðið á það ráð, að erlendri fyrirmynd, að baka allar spólur fyrir stafvæðingu í sérstökum ofni. Svo tekur hvert formið við af öðru í ferlinu.

Stafvæðingarferlið er snúið og krefst mjög mikillar forvinnu og forgangsröðunar. Safnið stefnir að því að stafvæða eigið efni í samhengi við mat á hættu á skemmdum. Eins þarf að fara yfir allt efni áður en það er stafvætt og flokka hvað á að stafvæða. Sumt efni er til í mörgum útgáfum og þá þarf að ákveða hvaða útgáfu skal stafvæða, sumt efni á spólum er líka til á filmu og er það þá heldur stafvætt af filmunni síðar meir og svo framvegis. Það er að mörgu að hyggja og ferlið mun taka mörg ár.

Unnið að nýjum gagnagrunni sem hægt er að leita í utan safnsins

ÁS: Hver er staðan á skráningu efnis, hvað liggur fyrir af upplýsingum um myndefni og á hvern hátt er það aðgengilegt?

ÞÓRA: Skráning efnis er misítarleg en í heildina býsna góð. Efni safnsins er skráð eftir ákveðnum reglum sem eru í samhljómi við reglur FIAF, alþjóðlegra samtaka kvikmyndasafna, en þó á eftir að efnisgreina heilmikið efni sem mun taka tíma og mannafla.

Efnið er skráð í gagnagrunn sem er eingöngu gerður fyrir starfsemi safnsins til að halda saman upplýsingum um efni, ástand og staðsetningu þess. Þessi grunnur hefur verið þróaður í langan tíma og af vanefnum enda hefur safnið verið fjársvelt frá upphafi. Úr því hefur þó ræst nokkuð síðastliðið ár.

Safnið er nú að vinna í því að máta sig í nýjan og nútímalegan gagnagrunn og mun því verkferli vinda fram á þessu ári og þróast í samræmi við hversu vel til tekst að afla fjár til verkefnisins. Nýr gagnagrunnur mun líka tryggja enn frekar góða skráningu þar sem hann er sérstaklega hannaður með kvikmyndasöfn í huga og byggður á alþjóðlegum skráningarreglum. Enn fremur er nýr og nútímalegri gagnagrunnur forsenda þess að hægt verði að opna fyrir leit í meginefni safnsins utanfrá. Það er ekki gerlegt tæknilega séð eins og stendur.

ÁS: Hvaða fyrirætlanir hefur safnið um að bæta eða skýra skráningu safnkostsins?

ÞÓRA: Skráning safnkostsins fer eftir skýrum reglum í dag eins og áður er nefnt. Allt efni sem skilað er í dag fer eftir fyrirfram ákveðnu verklagi og kröfum.

Kvikmyndasafnið og Kvikmyndamiðstöð hafa komið sér saman um reglur um sameiginleg skil til beggja stofnana til að tryggja sem best gæði og örugg skil til varanlegrar varðveislu.

Margskonar efni hefur safnast saman í gegnum tíðina eftir ýmsum leiðum og verður að hafa í huga að safnið hafði lengi vel hvorki fjármagn né mannafla til skráninga en lögð var áhersla á að fá sem mest efni inn í safnið. Þannig er eldra efni ekki allt skráð í þaula og því liggur fyrir talsverð vinna við yfirferð og efnisgreiningu, sér í lagi á eldra efni. Vonir standa til að hægt verði að fjármagna það verkefni að ráða mannskap í slíka vinnu.

Eins teljum við að nokkur efnisgreining muni skila sér í gegnum vefinn Ísland á filmu frá almenningi en þar gefst mönnum kostur á að gefa upplýsingar um myndefni á vefnum. Reynslan frá Danmörku sýnir að talsvert hefur bæst við efnisgreiningu eldri safnkosts í gegnum vefinn.

Frá opnun vefsins Ísland á filmu. Þóra Ingólfsdóttir forstöðumaður Kvikmyndasafnins og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fyrir miðju ásamt starfsfólki safnsins og öðrum aðstandendum verksins.

Almenningur fær aðgang að efni safnsins

ÁS: Hverskonar aðgengi hefur almenningur að safnkostinum?

ÞÓRA: Það er ástæða til að taka fram að Kvikmyndasafnið hefur fyrst og síðast varðveisluhlutverk, sem þýðir að safna, skrá og varðveita efni en við það bætist svo sýningaskylda og rannsóknarhlutverk sem felst meðal annars í því að skapa fag- og fræðimönnum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir.

Safnið er þannig ekki myndbandaleiga sem er merkilega algengur misskilningur. Safnið má sýna efni á eigin vegum en á auðvitað ekki sýningarrétt verka nema að hluta. Þannig hefur safnið ekki leyfi til að sýna neitt sem er í höfundarétti annarra án leyfis.

Safnið á þó talsvert af eldra efni og vorið 2020 náðist sá áfangi að opna almenningi í fyrsta sinn aðgang að efni safnsins. En þá var opnaður vefurinn Ísland á filmu, sem er samvinnuverkefni Kvikmyndasafns Íslands og Danmerkur. Þarna er að finna áður óbirt efni úr vörslu Kvikmyndasafnsins.

Vefurinn er opinn öllum og er ókeypis en á honum eru nú um 300 myndbrot. Þar er að finna fjöldann allan af heimildamyndum sem gerðar voru um miðbik 20. aldar af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar. Má þar nefna Ósvald Knudsen, Óskar Gíslason og Ásgeir Long.

Bætt verður við efnið smám saman eftir því sem stafvæðingu vindur fram. Þessar vikurnar er einmitt verið að bæta við heilmiklu efni á vefinn sem verður auglýst jafnóðum.

Vefurinn fékk strax mjög góðar undirtektir og voru heimsóknir um 16.000 fyrstu tvo dagana. Heimsóknir á síðuna eru hundruðir og stundum þúsundir daglega. Það er því alveg ljóst að gríðarmikill áhugi er fyrir því að fá að sjá og grúska í gömlu íslensku kvikmyndaefni.

ÁS: Hvaða fyrirætlanir hefur safnið um að auka þetta aðgengi almennings?

ÞÓRA: Fyrir utan Ísland á filmu eru ýmsar hugmyndir um aukið aðgengi að safnaefninu. Hvað eldra efni varðar stendur þó allt og fellur með því að hliðrænt efni verði gert stafrænt og það kostar tíma og fjármagn.

Verið er að skoða samvinnu við RÚV um sýningar á nokkrum myndum sem eru endurgerðar og tilbúnar til sýninga. Eins gerir nýja kvikmyndastefnan ráð fyrir því að þróuð verði streymisveita með íslensku efni. Ábyrgð á því verkefni hefur ráðuneyti, Kvikmyndamiðstöð og Kvikmyndasafn. Þessar umræður eru rétt að hefjast og vissulega mun safnið spila stórt hlutverk hvað varðar að útvega efnið, að undangenginni þróunarvinnu og samningum við rétthafa. Verkefni safnsins verður væntanlega að stórum hluta það að stafvæða hliðrænt efni og gera það sýningarhæft.

Að öðru leyti standa vonir til að hægt verði að gera upplýsingar um safnkostinn leitarbærar utanfrá og að tengja megi upplýsingar Kvikmyndasafns og Kvikmyndamiðstöðvar á einum stað. Þetta verkefni getur ekki farið af stað fyrr en safnið hefur fengið nýjan og nútímalegri gagnagrunn sem býður upp á ýmsa möguleika á tengingu efnis yfir í skoðunarvefi fyrir almenning.

Frá húsakynnum Kvikmyndasafnsins.

Myndin er ekki tilbúin fyrr en hún er komin til safnsins

ÁS: Að lokum Þóra, hvað viltu segja um mikilvægi þess að myndefni sé haldið til haga, skilað til safnsins?

ÞÓRA: Það er gott að minna á að við erum hér að tala um eign ríkis og þar með þjóðar en ekki einkaeign safnsins. Kvikmyndasafnið hefur lögbundið hlutverk að varðveita kvikmyndaefni og gæta þess við bestu mögulegu aðstæður til framtíðar og gera sitt til að koma í veg fyrir að það skemmist eða glatist.

Þeir sem fá styrk til kvikmyndagerðar frá Kvikmyndamiðstöð er skylt samkvæmt lögum um skylduskil til safna nr. 20/2002 að skila til safnsins og á þetta í raun við allt íslenskt eða Íslandstengt efni sem birt er opinberlega.

Nú hefur verið tryggt í samvinnu við Kvikmyndamiðstöð að kvikmyndaarfurinn skili sér í varanlega geymslu, en lokastyrkur fæst ekki fyrr en safnið hefur staðfest að efni hafi verið skilað samkvæmt skilaskyldu. En jafnframt er hagræðing í því að skila aðeins á einn stað.

Þrátt fyrir talsverða leit að efni í gegnum tíðina eru því miður allmörg tilfelli þar sem myndir hafa hreinlega glatast að eilífu, efni hefur fest í vinnustofum erlendis eða dagað uppi einhversstaðar og horfið og það er óbætanlegt tjón.

Það vill stundum brenna við að eftir sýningu snúa menn sér að öðrum verkefnum og halda kannski ekki öllu skilaskyldu efni til haga. Ég trúi því að aðstandendur kvikmynda vilji alls ekki að verk þeirra falli í glatkistuna heldur lifi um ókomna tíð og skili sér til komandi kynslóða. Því væri það góð regla að temja sér að líta svo á að verklok verði ekki fyrr en myndin hefur verið send í varanlega varðveislu.

(Ljósmyndir frá Kvikmyndasafni Íslands).

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR