Hæst bera Óskars-, Golden Globe og BAFTA verðlaun til handa Hildi Guðnadóttur tónskáldi fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker, sem og sú staðreynd að aldrei áður hafa jafn margar bíómyndir og þáttaraðir verið teknar upp á Íslandi á einu ári. Og það gerðist þrátt fyrir þær miklu skorður sem faraldurinn setti á kvikmyndatökur.
Fjórar bíómyndir voru frumsýndar 2020, mun færri en undanfarin ár. Farsóttin spilar þar inní, nokkrum var frestað og ætla má að jafnvel fleiri hefðu komið út í eðlilegu árferði. Athyglisvert er að tvær bíómyndir fengu meiri heildaraðsókn en nam aðsókn á allar 16 bíó- og heimildamyndir síðasta árs.
Þáttaraðir hafa aldrei verið fleiri eða sex talsins á árinu. Útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram á næstu árum. Þetta var jafnframt fyrsta árið þar sem þáttaraðir voru fleiri en bíómyndir.
Fjórar heimildamyndir voru sýndar á almennum sýningum í kvikmyndahúsum, en fjölmargar aðrar voru sýndar á hátíðum heima og heiman.
Þá var lögð fram metnaðarfull kvikmyndastefna til 2030 á árinu og Bíó Paradís var bjargað frá varanlegri lokun.
En fyrst að verkunum sem komu út. Athugið að hlekkir í heiti mynda vísa á allar færslur um viðkomandi mynd og þar má skoða umsagnir, aðsóknartölur, viðtöl og annað.
Frumsýndar bíómyndir færri en áður
Nýjar íslenskar myndir voru óvenju fáar þetta árið eða 4 talsins og spilar farsóttin þar nokkuð inní. Þrátt fyrir það var heildaraðsókn mun hærri en 2019 þar sem 10 bíómyndir voru frumsýndar.
Gullregn Ragnars Bragasonar (Mystery) reið á vaðið 10. janúar, löngu áður en plágan skall á og sýnist heil eilífð síðan. Myndin, sem byggð er á samnefndu leikriti Ragnars, segir af Indíönu Jónsdóttur sem býr í lítilli íbúð í Fellahverfinu í Breiðholti, þar sem hún lifir á bótum þótt hún sé alheilbrigð. Indíana er umkringd fólki af erlendum uppruna sem hún fyrirlítur. Í litlum garði við íbúðina hefur hún ræktað gullregn sem er hennar stolt og yndi. Þegar einkasonurinn kemur heim með kærustu af erlendum uppruna snýst heimur Indíönu á hvolf.
Verkið hlaut ágætar umsagnir, en aðsókn var undir meðallagi.
Síðasta veiðiferðin eftir Þorkel Harðarson og Örn Marinó Arnarson (Nýjar hendur/Markell) var frumsýnd 6. mars, rétt um það bil sem faraldurinn fór að láta verulega finna fyrir sér. Hún segir af vinahóp sem fer í sinn árlega veiðitúr. Í þetta skiptið á að taka veiðina alvarlega, slaka á í ruglinu og njóta náttúrunnar. Það er erfitt að kenna gömlum hundum að sitja og brátt þróast mál þannig að allt fer á versta veg – hratt og örugglega.
Myndin fór vel af stað, en eftir tæpar tvær vikur var kvikmyndahúsum lokað og stóð sú lokun í sex vikur. Aðsókn tók vel við sér eftir opnun og reyndist myndin eiga mikið inni. Hún endaði sem lang aðsóknarhæsta mynd ársins, með yfir 35 þúsund gesti. Umsagnir gagnrýnenda voru á ýmsa vegu.
Mentor eftir Sigurð Anton Friðþjófsson var frumsýnd 24. júní. Þetta er gamanmynd sem fjallar um unga stúlku sem skráir sig í uppistandskeppni þótt hún hafi aldrei stigið á svið og leitar til uppistandarans sem vann keppnina tíu árum fyrr um aðstoð. Aðsókn var lítil.
Amma Hófi eftir Gunnar B. Guðmundsson (Nýjar hendur/Markell) kom í bíó 10. júlí og mun það vera í fyrsta skipti sem íslensk kvikmynd er frumsýnd í þeim mánuði. Edda Björgvinsdóttir og Laddi leika eldri borgarana Hófí og Pétur sem eru olnbogabörn í kerfi sem hefur lítið gagn af þeim lengur og orðin leið á því. Þau ræna banka til að hafa efni á að kaupa sér litla íbúð.
Þessi gamanmynd fékk fína aðsókn og er önnur aðsóknarhæsta mynd ársins. Athygli vekur að þessar tvær myndir frá Nýjum höndum/Markeli fengu meiri aðsókn en nam heildaraðsókn á allar íslenskar kvikmyndir árið 2019. Báðar fengu afar takmarkaðan stuðning frá Kvikmyndasjóði.
Heildarlisti yfir aðsókn á myndirnar mun birtast að venju í janúar.
Þáttaraðir aldrei verið fleiri
Alls voru sýndar sex þáttaraðir á árinu og hafa þær aldrei verið fleiri á einu ári.
Brot í leikstjórn Þórðar Pálssonar, Davíðs Óskars Ólafssonar og Þóru Hilmarsdóttur (Truenorth) voru átta spennuþættir af Nordic Noir skólanum um rannsókn lögreglumanna á mögulegum raðmorðum. Fyrsti þáttur fór í loftið um jólin á RÚV en sýningar náðu fram í miðjan febrúar. Þeir voru síðan teknir til sýninga á Netflix og vöktu þar athygli. Nína Dögg Gunnarsdóttir og Björn Thors fóru með aðalhlutverk. Handrit skrifuðu Margrét Örnólfsdóttir, Óttar Norðfjörð, Mikael Torfason og Otto Geir Borg.
Ísalög var sænsk/íslensk framleiðsla (Yellow Bird/Sagafilm), átta þátta umhverfispólitísk, spennudrama þáttaröð sem RÚV sýndi. Þegar Svíþjóð reynir að fá Norðurskautsráðið til að banna olíuvinnslu í Norðurhöfum verður sænskt skip fyrir árás undan ströndum Grænlands. Ráðamennirnir verða að ákveða hvort þeir eigi að fresta fundinum vegna hryðjuverksins eða halda samningaviðræðum til streitu þrátt fyrir yfirvofandi ógn um fleiri árásir. Leikstjórarnir þrír voru frá Noregi, Svíþjóð og Íslandi, handritshöfundar íslenskir (Birkir Blær Ingólfsson, Jónas Margeir Ingólfsson og Jóhann Ævar Grímsson) og starfslið að mestu íslenskt, en þættirnir voru að verulegu leyti teknir upp á Íslandi með sænskum, dönskum og grænlenskum leikurum. Þættirnir hafa verið seldir víða um heim.
Jarðarförin mín í leikstjórn Kristófers Dignusar (Glassriver) var sýnd frá apríl í Sjónvarpi Símans. Í þáttaröðinni leikur Þórhallur Sigurðsson (Laddi) dauðvona mann sem ætlar að skipuleggja og vera viðstaddur sína eigin gala jarðarför. Auk Kristófers komu Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, Jón Gunnar Geirdal, Ragnar Eyþórsson, Sóli Hólm og Baldvin Z að handritsskrifum.
Ráðherrann (Sagafilm) hófst á RÚV í september. Ólafur Darri Ólafsson fór með aðalhlutverk en þættirnir fjölluðu um um forsætisráðherrann Benedikt Ríkharðsson sem glímir við geðhvörf. Björg Magnúsdóttir, Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson skrifuðu handrit ásamt Jóhanni Ævari Grímssyni. Arnór Pálmi Arnarson og Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstýrðu. Þáttaröðin hefur verið seld víða um heim.
Gamanþáttaröðin Eurogarðurinn (Glassriver) hófst á Stöð 2 í lok september. Þættirnir voru átta talsins og gerast í Húsdýragarðinum. Drykkfelldur miðaldra braskari með vafasaman viðskiptaferil kaupir Húsdýragarðinn og reynir að virkja starfsfólk garðsins með sér. Þau eiga því miður ekki auðvelt með að sætta sig við nýjan eiganda og þær hugmyndir sem hann hefur um framtíð Húsdýragarðsins. Arnór Pálmi Arnarson leikstýrði og Jón Gnarr, Anna Svava Knútsdóttir, Auðunn Blöndal, Steindi Jr. og Dóri DNA fóru með helstu hlutverk.
Þriðja syrpa gamanþáttaraðarinnar Venjulegt fólk (Glassriver) kom í Sjónvarp Símans Premium í lok október. Vinkonurnar Vala og Júlíana takast á við lífið, tilveruna og hvora aðra. Fannar Sveinsson leikstýrði og skrifaði handrit ásamt Völu Kristínu Eiríksdóttur, Júlíönu Söru Gunnarsdóttur og Dóra DNA. Vala Kristín og Júlíana Sara fóru með aðalhlutverkin.
Áfram mikil gróska í heimildamyndum en faraldurinn setti strik í reikninginn
Heimildamyndir í bíó voru 4 talsins á árinu. Margar aðrar voru frumsýndar á hátíðum, Stockfish, Skjaldborg og RIFF, auk erlendra hátíða. Heimsfaraldurinn riðlaði dagskrám margra hátíða á heimsvísu en sumar héldu úti rafrænum útgáfum. Aðsókn á heimildamyndir í bíó hefur ekki verið góð á undanförnum árum hér á landi, en þær sem sýndar eru í sjónvarpi fá yfirleitt gott áhorf.
Myndirnar sem sýndar voru á almennum sýningum voru eftirtaldar:
Ég er einfaldur maður, ég heiti Gleb eftir Ingvar Þórisson. Rússneskur maður, Gleb Terekhin, skrifar litrík bréf til fjölmiðla og óskar eftir aðstoð við að finna sér eiginkonu og vinnu á Íslandi. Tíu árum síðar rekst Kristján Guðmundsson listamaður á bréfin og finnur í þeim samsvörun við lífsviðhorf sín og félaga sinna í félagi Hreiðars heimska og ákveður að bjóða Gleb til Íslands.
Húsmæðraskólinn eftir Stefaníu Thors fjallar um hinn horfna heim íslensku húsmóðurinnar og hvernig hlutverk skólans hefur breyst í áranna rás.
Á móti straumnum eftir Óskar Pál Sveinsson er um transkonuna Veigu. Veiga er fyrsta manneskjan til að róa 2.100 kílómetra í kringum Ísland á móti straumnum. Hún fæddist fyrir 44 árum síðan sem strákur í sjávarplássi á Vestfjörðum. Veigar giftist og eignast börn en ákveður svo 38 ára að hann geti ekki lengur lifað sem karlmaður og ákveður að fara í kynleiðréttingu. Innri baráttan þangað til var helvíti líkust og Veigar reyndi tvisvar að taka eigið líf.
Þriðji póllinn eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur lýsir ferðalagi þeirra Högna Egilssonar tónlistarmanns og Önnu Töru Edwards í Nepal. Hún veitir innsýn í hugsun og veruleika tveggja einstaklinga sem hafa glímt við geðhvörf. Myndin var einnig sýnd á RÚV 27. desember.
Rétt er einnig að geta heimildaþáttaraðar RÚV, Siglufjörður – saga bæjar, í umsjón Egils Helgasonar þar sem saga Siglufjarðar er rakin. Þættirnir fimm voru sýndir á RÚV í janúar og febrúar og vöktu mikla athygli. Bærinn var lengi utan alfaraleiðar en vegna mikils uppgangs á 20. öld varð hann þungamiðja síldveiða sem um skeið voru arðvænlegasta atvinnugrein á Íslandi. Í þáttunum er einnig sagt frá skemmtanalífi, rómantík, slagsmálum, tónlist, skíðaiðkun og einstökum bæjarbrag. Dagskrárgerð annaðist Ragnheiður Thorsteinsson.
Heimildamyndir á hátíðum
Margar heimildamyndir litu dagsins ljós á hátíðum, bæði innlendum og erlendum. Ýmislegt gekk þó á. Í upphafi faraldursins varð lítið úr sumum hátíðum en síðar var farið að halda þær rafrænt að miklu leyti.
Last and First Men eftir Jóhann Jóhannsson var frumsýnd á Berlínarhátíðinni í febrúar, áður en faraldurinn skall á Evrópu af fullum þunga. Myndin fékk frábæra dóma helstu fagmiðla og var talin meðal bestu mynda hátíðarinnar. Myndin hefur verið á nokkrum hátíðum á árinu og verður sýnd á RÚV.
Eins og málverk eftir Eggert Pétursson eftir Gunnlaug Þór Pálsson um samnefndan málara var frumsýnd á Stockfish hátíðinni í mars en hátíðin fór verulega úr skorðum vegna farsóttarinnar. Myndin var í kjölfarið í boði á VOD-leigum.
A Song Called Hate eftir Önnu Hildi Hildibrandsdóttur um för hljómsveitarinnar Hatari á Eurovision 2019 stóð upphaflega til að sýna á CPH:DOX í mars en farsóttin setti strik í reikninginn. Myndin var síðan frumsýnd á RIFF um haustið og hefur einnig verið sýnd á nokkrum erlendum hátíðum. Umsagnir gagnrýnenda hafa verið lofsamlegar. Hún er væntanleg á RÚV.
Skjaldborgarhátíðinni var frestað tvisvar á árinu en fór loks fram í september í Bíó Paradís. Hér má sjá myndavalið en Hálfur álfur eftir Jón Bjarka Magnússon og Er ást eftir Kristínu Andreu Þórðardóttur hlutu dómnefndarverðlaun annarsvegar og áhorfendaverðlaun hinsvegar.
Aðrir hápunktar ársins
Óskarsverðlaun Hildar Guðnadóttur: Í febrúar bárust mikil merkistíðindi þegar Hildur Guðnadóttir varð fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaun, en verðlaunin hlaut hún fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker eftir Todd Phillips. Hildur naut einstakrar velgengni á verðlaunahátíðum allt frá haustinu 2019 þegar hún fékk Emmy verðlaun (fyrir þáttaröðina Chernobyl). Eftir áramótin komu stór verðlaun á færibandi: Golden Globe verðlaunin (Joker), Grammy verðlaun (Chernobyl), BAFTA verðlaun (Joker) og loks Óskar. Í þakkarræðu sinni hvatti Hildur allar þær konur sem finndu tónlistina óma innra með sér að hlusta á hjartað og láta í sér heyra því heimurinn þyrfti á þeim að halda.
Björgun Bíó Paradísar: Í janúar tilkynni Bíó Paradís um fyrirhugaða lokun frá vori vegna þess að fjárhagurinn leyfði ekki þá mikla hækkun á leigu sem leigusalar höfðu boðað. Uppi varð fótur og fit meðal almennings, en þreifingar milli aðila héldu áfram. Bíóið lokaði svo 24. mars líkt og önnur kvikmyndahús vegna farsóttarinnar. Leikar fóru svo að í júlíbyrjun var tilkynnt um að samningar hefðu tekist við eigendur hússins með fulltingi Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytis. Bíóið opnaði aftur á tíu ára afmælinu um miðjan september. Í lok nóvember opnaði bíóið síðan eigin efnisveitu, Heimabíó Paradís, fyrst íslenskra kvikmyndahúsa.
Kvikmyndastefna: Í byrjun október lagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fram Kvikmyndastefnu til ársins 2030, en þetta er í fyrsta sinn sem slík stefna kemur fram. Stefnan inniheldur fimm meginmarkmið sem ætlað er efla íslenskan kvikmyndaiðnað á næstu árum. Meðal annars er kveðið á um eflingu Kvikmyndasjóðs, stofnun sérstaks fjárfestingarsjóðs fyrir sjónvarpsverkefni, háskólamenntun í kvikmyndagerð, bætta miðlun kvikmyndaarfsins, fjölskylduvænna starfsumhverfi, skattaívilnanir og starfslaun höfunda kvikmyndaverka. Stefnuplaggið má lesa hér. Hér að neðan má sjá stutt myndband þar sem helstu þættir stefnunnar eru tíndir til.
Aldrei fleiri verkefni í tökum: Það verður að teljast merkilegt að á árinu 2020 voru filmuð fleiri innlend verkefni en nokkru sinni fyrr, eða alls 19 talsins (10 leiknar bíómyndir og 9 þáttaraðir). Þetta gerðist þrátt fyrir þær miklu skorður sem heimsfaraldurinn reisti tökum. Baltasar Kormákur og hans fólk gaf tóninn með sérstakri aðferð varðandi sóttvarnir við tökur á Netflix þáttaröðinni Katla og vakti það mikla athygli í alþjóðlegum kvikmyndaheimi. Gerð er grein fyrir þessum verkefnum hér (athugið að tökur á tveimur þessara verkefna (Abbababb og Una) eru ekki enn hafnar og tvær bættust síðar við, barnamyndin Birta í leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar og Þorpið í bakgarðinum eftir Martein Þórsson).
Í janúar munu birtast hinir árlegu listar yfir aðsókn á íslenskar myndir, aðsókn á allar myndir, listi yfir alþjóðleg verðlaun íslenskra mynda og áhorf á íslenskt efni í sjónvarpi.