spot_img

Verðlaunamyndirnar af Skjaldborgarhátíðinni sýndar í Bíó Paradís

Verðlaunamyndirnar frá Skjaldborgarhátíðinni síðustu verða sýndar í Bíó Paradís í dag laugardag. Tvær þeirra munu síðan halda áfram í sýningum.

Myndirnar eru:

Ósigraður eftir Jónu Grétu Hilmarsdóttur. Myndin hlaut Skjölduna, dómnefndarverðlaun í flokki heimildastuttmynda og fjallar um Hilmar Pál Jóhannesson, föður leikstjórans, og áralanga baráttu hans við Reykjavíkurborg um lóð í Gufunesi. Skipulagsbreytingar eyðilögðu drauma hans og málið hefur tekið yfir líf hans. Í gegnum tengsl hans við ástvini birtist maður sem glímir við sorg, reiði, einangrun og sjálfan sig.

Bóndinn og verksmiðjan eftir Barða Guðmundsson og Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Myndin hlaut afgerandi kosningu um Einarinn, áhorfendaverðlaun Skjaldborgar 2025. Hross á bæ í Hvalfirði veikjast eitt af öðru af völdum meintrar flúormengunar frá álverksmiðju í næsta nágrenni. Bóndinn á bænum mætir skilnings- og afskiptaleysi stjórnvalda og er sjálfur sagður bera ábyrgðina. Bóndinn leitar allra leiða til að komast að hinu sanna í málinu en á við ofurefli að etja.

Paradís amatörsins eftir Janus Braga Jakobsson. Myndin hlaut Ljóskastarann, dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2025. Í Paradís amatörsins deila íslenskir karlmenn úr fjórum kynslóðum eigin lífi á YouTube – frá óperusöng í stofunni til fjölskyldumyndbanda og einlægra játninga. Heimildamynd Janusar Braga fjallar um hvernig menn móta sjálfsmyndir sínar í myndböndum – og spegla þar djúpstæðar þarfir til tengsla og merkingar. Að lokinni sýningu á myndinni mun Kári Friðriksson leigubílstjóri, óperusöngvari og eitt viðfangsefni heimildamyndarinnar Paradísar Amatörsins heiðra gesti með nærveru sinni og syngja nokkur af sínum frumsömdu lögum.

Fjallað er um þessar myndir í Skjaldborgarklippu Klapptrés sem skoða má hér:

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR