Björn B. Björnsson: Stjórnvöld stilli sig um að setja kostnaðaraukandi og íþyngjandi reglur varðandi endurgreiðslukerfið

Björn B. Björnsson kvikmyndaframleiðandi hefur lagt fram umsögn á samráðsgátt sjórnvalda varðandi fyrirhugaðar breytingar á lögum um endurgreiðslukerfið, þar sem hann mótmælir því að verk með endurgreiðslu undir 20 milljónum verði ekki lengur undanþegin yfirferð löggilts endurskoðanda.

Í umsögn Björns segir:

Í lögunum sem hér eru til endurskoðunar eru kvikmyndaverk með endurgreiðslu undir 20 milljónum undanþegin því að láta löggiltan endurskoðanda skrifa upp á uppgjör verkefnisins. Þessi uppgjör þurfa engu að síður að vera unnin samkvæmt ströngum fyrirmælum endurgreiðslunefndarinnar og eru yfirfarin af fagfólki sem valið er til þess af ráðuneytinu.

Stjórnvöld töldu, á sínum tíma, óþarflega íþyngjandi að bæta á minnstu verkin þeim kostnaði og þeirri vinnu sem fylgir yfirferð löggilts endurskoðanda. Þau rök standa enn
Reynslan af lögunum eins og þau eru er góð – það er ekkert dæmi um neitt misjafnt.

Það er því ástæðulaust að hækka framleiðslukostnað allra minni kvikmyndaverka með þessum hætti. Minni verkin munar eðlilega mest um þennan kostnað sem skiptir hundruðum þúsunda, auk þeirrar vinnu og tíma sem fyrirtækið þarf að leggja fram.

Athugasemd Ríkisendurskoðunar snýr að því ósamræmi sem felst í að ekki eru öll verk undir sama hatti, ef minnstu verkin eru undanþegin skoðun löggilts endurskoðanda. Það er eðlilegt að Ríkisendurskoðun geri þá athugasemd því best er jú að regluverkið sé einfalt og gildi um allt. En það er ekki eina sjónarmiðið sem hér er uppi.

Ástæðan fyrir undanþágu minnstu kvikmyndaverkanna var ákvörðun stjónvalda um að hlúa að grasrót í kvikmyndaframleiðslu, minnka skriffinnsku í kerfinu og draga úr kostnaði sem ekki skilar arði. Þessar ástæður eru enn í fullu gildi.

Endurgreiðslukerfi kvikmynda á Íslandi virkar með miklum ágætum og á því hefur aldrei verið svindlað. Virkt eftirlitskerfi með öllum fjármunum er til staðar og virkar vel.

Þessu til viðbótar fá flest eða öll þau verk sem um ræðir styrk frá KMÍ þar sem einnig er farið rækilega í gegnum kostnaðaruppgjör verkanna. Við erum því þegar bæði með belti og axlabönd.

Stjórnvöld þurfa að stilla sig um að setja kostnaðaraukandi og íþyngjandi reglur – sem eru með öllu óþarfar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR