Endurgreiðslur gætu numið 7,6 milljörðum á þessu ári

Endurgreiðslur vegna sjónvarps- og kvikmyndaverkefna gætu numið 7,6 milljörðum á þessu ári. Þetta kemur fram í áhættumati fjármálaráðuneytisins sem kynnt var fyrir fjárlaganefnd Alþingis í vikunni.

Greint er frá þessu á vef RÚV og þar segir ennfremur:

Þetta er rúmlega helmingi hærri upphæð en greidd var á síðasta ári þegar endurgreiðslur námu 3,4 milljörðum. Sem var þá nýtt met.

Þetta er býsna stórt stökk frá því þegar fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp sitt á blaðamannafundi 12. september. Fjárframlög til málaflokksins voru aukin um 300 milljónir, fóru úr 1,3 milljörðum í 1,7 milljarða.

Daginn áður hafði menningarmálaráðherra tilkynnt um stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar, fjórðu þáttaröðina af True Detective sem er nánast öll tekin upp hér. Hún var í tilkynningu ráðuneytisins sögð vera 9 milljarða fjárfesting.

Og þegar fjárlaganefnd skilaði af sér breytingartillögum á fjárlagafrumvarpinu í desember var lagt til að framlag fyrir endurgreiðslum yrði hækkað um fjóra milljarða þannig að hægt yrði að standa við þau vilyrði sem höfðu verið gefin út. Fjárveiting ársins var því 5,7 milljarðar en nú eru vísbendingar um að enn þurfi tæpa tvo milljarða í þennan málaflokk.

Alþingi samþykkti í maí að hækka endurgreiðslur vegna stærri verkefna í kvikmyndaframleiðslu úr 25 prósentum í 35 prósent. Skilyrðin voru þau að kostnaðurinn þarf að nema 350 milljónum, starfsdagar þurfa að vera að lágmarki 30 og fjöldi starfsmanna þarf að vera að lágmarki 50. „[Ég]er viss um að þessi breyting muni efla innlenda kvikmyndagerð og draga stór erlend fjárfestingarverkefni til landsins,“ var haft eftir Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra á vef Stjórnarráðsins.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR