RÚV verji 12% af útvarpsgjaldi til sjálfstæðra framleiðenda og meðframleiðslu samkvæmt nýjum þjónustusamningi

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert nýjan þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf. sem var undirritaður í dag. Í samningnum segir meðal annars að RÚV skuli verja 12% af innheimtu útvarpsgjalds til meðframleiðslu og kaupa á íslensku efni af sjálfstæðum framleiðendum. Þá er nánar skilgreindur réttur Ríkisútvarpsins til eignarhlutar í samstarfsverkefnum í samræmi við fjárframlög og greiðslur til listamanna í samstarfsverkefnum.

Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir því að framlög til Ríkisútvarpsins nemi 4.515 milljónum króna á næsta ári. 12% af þeirri upphæð eru rétt tæpar 542 milljónir króna.

Samninginn má lesa í heild hér en sá liður hans sem snýr að sjálfstæðum framleiðendum er svohljóðandi:

2.1. Kaup af sjálfstæðum framleiðendum og meðframleiðsla Ríkisútvarpið skal styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildarmyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Þar undir fellur einnig talsetning og gerð útvarpsþátta. Skal verja til þess 12% af innheimtu útvarpsgjalda á ári. Velji Ríkisútvarpið að gerast meðframleiðandi er því heimilt að krefjast eignarhlutar í verkefui í réttu hlutfalli við fjárframlag sitt. Ef eignarhlutur Ríkisútvarpsins í samstarfsverkefni með sjálfstæðum framleiðanda er 50% eða stærri skal greiða listamönnum fyrir vinnu sína samkvæmt gildandi samningum Ríkisútvarpsins og hlutaðeigandi félags rétthafa. Á gildistíma samningsins leggur Ríkisútvarpið áherslu á leikið íslenskt efni til að efla kvikmyndagerð í landinu og auka framboð og gæði á leiknu íslensku sjónvarpsefni.

Ríkisútvarpið býður sjálfstæðum framleiðendum aðstoð við að koma íslensku sjónvarpsefni inn á erlenda markaði í samstarfi við alþjóðlega dreifingaraðila í gegnum RÚV Sölu ehf.

Með sjálfstæðum framleiðanda er átt við framleiðanda hljóð- eða myndefnis sem er sjálfstæður lögaðili, óháður Ríkisútvarpinu í þeim skilningi að hann er ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum þess, hvorki sér né sameiginlega með öðrum, og hefur frelsi til að skilgreina sína eigin viðskiptastefnu, sbr. 36. tölulið 2. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Greiðslur til þáttarstjórnenda, sjálfstætt starfandi tæknimanna, handritshöfunda, ráðgjafa, leikara o.s.frv., auk greiðslna vegna leigu á búnaði eða öðrum aðföngum vegna dagskrárefnis sem Ríkisútvarpið ber ábyrgð á, teljast þar af leiðandi ekki greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda, samkvæmt samningi þessum.

Forsenda fyrir framlagi Ríkisútvarpsins til leikins efnis er að árleg fjárveiting á grundvelli útvarpsgjalds lækki ekki að raunvirði á samningstímanum.

Segir um samninginn á vef RÚV:

Samkvæmt samningnum verður lögð aukin áhersla á fræðsluhlutverk Ríkisútvarpsins og rækt við íslenska tungu. Lilja Afreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að það sé í takti við áherslu Ríkisútvarpsins síðustu mánuði þegar skólastarf hefur verið takmarkað vegna COVID-19.

„Lögð verður áhersla á þjónustu við börn og ungmenni, m.a. til að efla lýðræðisvitund, auka miðla- og upplýsingalæsi og hvetja til þátttöku í dagskrárgerð og öðru skapandi starfi,“ segir í nýrri tilkynningu frá ráðuneytinu. Þar segir að Ríkisútvarpið muni verja 12 prósentum af innheimtu útvarpsgjalds til meðframleiðslu og kaupa á íslensku efni af sjálfstæðum framleiðendum.

Þá eigi að leggja áherslu á varðveislu og miðlun efnis úr safni Ríkisútvarpsins, þjónustu við eldri borgara og þátttöku í þróun máltæknilausna með það fyrir augum að íslenska verði nothæf og nýtt í tölvum og tækjum. Þá segir einnig að ýmis atriði sem voru óljós í fyrri þjónustusamningum hafi verið gerð skýrari með þeim nýja, eins og réttur Ríkisútvarpsins til eignarhlutar í samstarfsverkefnum í samræmi við fjárframlög og greiðslur til listamanna í samstarfsverkefnum.

„Annars skal við framkvæmd markmiða í þjónustusamningi horft til framboðs á efni og áherslna í dagskrá annarra fjölmiðla og gætt að samkeppnissjónarmiðum, þar sem RÚV sinnir skyldum sem aðrir fjölmiðlar uppfylla ekki á markaðslegum forsendum,“ segir einnig um samninginn.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR