SYSTRABÖND tilnefnd til handritaverðlauna Norræna sjóðsins

Þáttaröðin Systrabönd er tilnefnd til Nordisk Film og TV Fond handritsverðlaunanna á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg sem hefst í lok janúar. Þáttaröðin keppir þar um besta handrit í flokki dramasjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndunum.

Jóhann Ævar Grímsson á hugmyndina að þáttaröðinni en auk hans skrifuðu handritin Björg Magnúsdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Silja Hauksdóttir, en Silja er jafnframt leikstjóri þáttanna.

Á tíunda áratug síðust aldar hverfur fjórtán ára stúlka sporlaust á Snæfellsnesi. Tuttugu og fimm árum síðar finnast jarðneskar leifar hennar og þrjár æskuvinkonur neyðast til að horfa í augu við fortíð sína.

Þáttaröðin er framleidd af Sagafilm fyrir Sjónvarp Símans og Viaplay á Norðurlöndum í samstarfi við Sky Studios á Bretlandi. Gautaborgarhátíðin er stærsta kvikmyndahátíðin á Norðurlöndum og stendur frá 29. janúar til 8. febrúar 2021.

Meðal þáttaraða sem keppa við Systrabönd eru danska þáttaröðin Ulven kommer, norska serían Velkommen til Utmark sem Dagur Kári leikstýrir, sænska serían Thin Blue Line og að lokum finnska þáttaröðin Cargo.

Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans Premium um páskana á næsta ári og fara þættirnir í kjölfarið í sýningar á Norðurlöndunum og í alheimsdreifingu á vegum NBC Universal Global Distribution.

Fram­leiðend­ur þátt­anna eru Tinna Proppé, Hilm­ar Sig­urðsson og Kjart­an Þór Þórðar­son og eru þættirnir fram­leidd­ir með styrk frá Kvik­mynda­miðstöð Íslands, Media Creati­ve Europe og nýtur framleiðslan ­25% end­ur­greiðslu úr rík­is­sjóði af fram­leiðslu­kostnaði.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR