spot_img

Menningarsmygl um RÁÐHERRANN: Fantasían í stjórnarráðinu

Ráðherrann fer þá leið að búa einfaldlega til hreinræktaða fantasíu,” segir Ásgeir H. Ingólfsson meðal annars í umsögn sinni á Menningarsmygli um fyrstu tvo þættina.

Ásgeir skrifar:

Það er hægt að fara ýmsar leiðir að því að gera skáldskap um stjórnmál. Það er hægt að reyna að gera hann raunsæan – sem kallar vitaskuld alltaf á að sumum flokkum mun finnast skáldskapurinn raunsær og öðrum ekki, eftir hversu vel þeir koma út. Svo er hægt að gera hreinræktaða fantasíu – og auðvitað allt þar á milli. Gryfjurnar eru kannski helst þær að gera þættina of ídealíska, eða fara alveg í hina áttina og teikna upp pólitík sem er tóm spilling og alveg laus við ídealisma. Allar leiðirnar bjóða samt sömu vandamálum heim; þátturinn er kominn á svið stjórnmálanna og verður túlkaður eftir því – öll óeðlilega jákvæð eða neikvæð sýn á einstaka flokka (eða skáldaða staðgengla þeirra) er jafnvel túlkað sem unnin eða töpuð atkvæði.

Ráðherrann fer þá leið að búa einfaldlega til hreinræktaða fantasíu. Nú er umhverfið vissulega ágætlega kunnuglegt; flokkalandslagið svipað nema Vinstri Græn virðist runnin endanlega inn í Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn inn í Samfylkingu.

Fantasían birtist hins vegar í gervi formanns Sjálfstæðisflokksins, Benedikts Ríkharðssonar, sem Ólafur Darri leikur af mikilli innlifun. Benedikt á einfaldlega ekki nokkurn skapaðan hlut sameiginlegan með Bjarna Ben, Geir H. Haarde eða Davíð Oddssyni eða yfir höfuð nokkrum þeim sem hafa náð alvöru frama í Sjálfstæðisflokknum á meðan ég hef getað fylgst með stjórnmálum. Ég meina, hann er sjarmerandi, hugmyndaríkur og ekki alveg laus við hugsjónir. Svona týpur ná í mesta lagi 19. sæti á lista hjá flokknum, sem ópólitískt skraut.

Eftir að hafa lesið um þáttinn og horft á stiklur hafði ég áhyggjur; á nú að fríkka Sjallana upp? En svo gengur þetta fullkomlega upp, svona týpa gæti vissulega alveg átt smá séns hjá sumum hinna flokkanna (það er hellings Gnarr í honum, jafnvel smá Logi og já, ég kem að Sigmundi síðar) en með því að setja hann inn í Sjálfstæðisflokkinn þá ertu komin með hinn fullkomna Trójuhest til að sprengja stjórnmálin í tætlur á örfáum sekúndum.

Sem hann og gerir með einhverju djarfasta kosningaloforði sögunnar; að skilyrða kosningabandalag (sem eitt og sér þykir merkilega djarft á Íslandi) ekki bara við meirihluta heldur líka við 90 prósent kjörsókn. Til að setja þá tölu í samhengi hefur kjörsókn undanfarin misseri verið í kringum 80 prósent, en þó var hún 87,7 prósent árið 2003 og Alþingiskosningarnar árið 1987 voru síðustu þingkosningarnar sem náðu 90 prósent kjörsókn.

Aukapersónurnar eru vissulega misvel gerðar. Hrefna (Þuríður Blær Jóhannsdóttir), yfirmaður símaversins sem verður aðstoðarmaður Benedikts, er eiginlega hetja þáttanna, sú sem flestir tengja við. Hún á líka hugmyndina að Twitter-stjórnarskránni – hugmynd sem er presenteruð sem skemmtilega klikkuð í þáttunum – en með það í huga að vinsælasta sjónvarpsmyndin þessa dagana fjallar um illsku samfélagsmiðla þá er vonandi að þær skuggahliðar verði kannaðar líka síðar.

Grímur, varaformaðurinn sem heldur fram hjá Hrefnu er óþarflega litlaus ennþá, Þorvaldur Davíð sannaði í Svaninum að hann er hörkuleikari en fær alltof oft fátt annað að gera en vera sæti strákurinn. Jóhann Sigurðarson er hins vegar mjög sannfærandi Sjálfstæðismaður af gamla skólanum og Helgi Björns einstaklega sannfærandi slímug guðföðurstýpa sem hefur lengst af stjórnað því sem hann vill og handvalið formenn hans. Nema Benedikt, sem er einmitt giftur dóttur hans, Steinunni (Anítu Briem), sem talar helst ekki við pabbann. Í gegnum þá sögu sýnist manni að spilling flokksins gæti vel komið í ljós – og Steinunn er skemmtilega óræður karakter, hefur sagt sig úr lögum við mesta spillingargrenið en virðist þó alltaf vera með eitthvað plott í gangi sjálf. Loks er rétt að minnast á Kötlu (Unni Ösp Stefánsdóttur) sem virtist vera aðstoðarmannaefnið – en endar svo á að fá ritstjórastöðu á dagblaði í staðinn. Það plott verður gaman að sjá þróast – og blaðasnápur þáttanna er ágætur, en þyrfti að fá aðeins meiri tíma á skjánum. En djöfull er hins vegar orðið þreytt að sjá íslenska sjónvarpsmenn leika sjálfa sig.

Hinir flokksleiðtogarnir eru misjafnlega sannfærandi. Formenn Samfylkingar og Miðflokks ágætlega trúverðugir án þess að hafa fengið mikið að gera, formaður Pírata hálfgerð skrípamynd en hér stendur óneitanlega upp úr Baldur Trausti Hreinsson sem Framsóknarleiðtoginn sem er fastur í vitlausu leikriti. En höfum samt í huga að þetta er sjónvarp og bara tvær þættir búnir af átta, nægur er tíminn til að dýpka ýmsar aukapersónur.

En það sem gerir þættina áhugaverða er öðrum fremur Benedikt sjálfur. Hann er guðfræðimenntaður og fyrst dettur manni Chance úr Being There í hug, en það passar samt illa, Benedikt er miklu klárari. En svo áttar maður sig, þetta er auðvitað Óli Stef ef hann færi í pólitík. Algjört ólíkindatól sem nær samt árangri, stundum á að virðist óskiljanlegan hátt. Já, og auðvitað er hellings Gnarr í honum. Sem og smá Sigmundur Davíð – það er ýjað að ótímabærum skólalokum í Bretlandi og sömuleiðis ýjað að ákveðnum kunnuglegum brestum og jafnvel geðhvörfum, sérstaklega í torræðu lokaskoti annars þáttar.

En svo er ekki síður heilmikill Ólafur Darri í honum, eða öllu heldur heilmikill leikari. Þegar við kíkjum inní hausinn á honum áttum við okkur á því að hann er leikari í hjartanu, hann er alltaf að reyna að komast í karakter, þetta er hans Sjeikspírska verk (hann er jú Ríkharðssonur) – og tíminn á eftir að leiða í ljós hvort þetta verður harmleikur eða tragedía.

Sjá nánar hér: Fantasían í stjórnarráðinu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR