Mikil hlutfallsleg fjölgun heimildamynda eftir konur á síðustu árum

Í framhaldi af samantekt minni um hvernig konum sem leikstýra bíómyndum og þáttaröðum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum er einnig fróðlegt að skoða hvort konum sem stýra heimildamyndum hafi fjölgað á sama tímabili. Tölur sýna glöggt að þeim hefur fjölgað mikið hlutfallslega, en heimildamyndum hefur hinsvegar fækkað.

Samanburðartímabil eru þau sömu, annarsvegar síðustu fimm ár og hinsvegar tíu árin þar á undan. Byggt er á lista Kvikmyndavefsins yfir íslenskar heimildamyndir. Þar vantar reyndar nokkrar myndir en látum það vera að sinni.

Alls eru heimildamyndir á öllu tímabilinu 257 talsins (samkvæmt lista Kvikmyndavefsins). Þær eru að meðaltali rúmlega 12 á ári síðustu fimm árin, en tæplega 20 á ári áratuginn þar á undan.

2006-2015:

Alls eru sýndar 196 heimildamyndir. Þar af eru 53 leikstýrt af konum (af þeim eru 15 gerðar í samvinnu við karlkyns leikstjóra). Þetta er um 27% af heildinni.

2016-2020:

Alls eru sýndar 61 heimildamynd (miðað við daginn í dag, nokkrar þeirra verða frumsýndar á allra næstu dögum og þær eru með í þessari upptalningu). Þar af eru 26 eftir konur (af þeim eru 4 gerðar í samvinnu við karlkyns leikstjóra). Þetta er um 43% af heildinni.

Heimildamyndum hefur fækkað

Það sem kemur á óvart er að samkvæmt tölunum hefur heimildamyndum fækkað um rúmlega þriðjung á undanförnum árum miðað við tíu árin þar á undan. Þær eru að meðaltali rúmlega 12 á ári síðustu fimm árin, en tæplega 20 á ári áratuginn þar á undan. Að einhverju leyti kann skýringin að vera sú að ekki eru allar heimildamyndir síðustu ára á lista Kvikmyndavefsins.

Um leið þýðir þetta að heimildamyndum eftir konur hefur ekki fjölgað, heldur hafa þær nokkurnveginn staðið í stað. Þær eru 5,3 að meðaltali árlega 2006-2015, en 5,2 að meðaltali síðustu fimm ár. Heimildamyndum kvenna hefur hinsvegar fjölgað mikið hlutfallslega, úr rúmlega fjórðungi í tæplega helming yfir samanburðartímabilin.

Rétt er þó að benda á að samkvæmt vef Kvikmyndamiðstöðvar eru um 40 heimildamyndir á mismunandi stigum vinnslu þessa dagana, þar af 20 í leikstjórn kvenna. Það gæti breytt myndinni nokkuð á næstu 1-2 árum. Þetta bendir hinsvegar eindregið til þess að þróunin er í áttina að jafnvægi milli kynja.

Konur um 2/3 verðlaunahafa á Skjaldborg, tæplega 40% á Eddunni

Þá er einnig áhugavert að skoða hvernig heimildamyndum eftir konur hefur vegnað á þeim tveimur íslensku verðlaunahátíðum sem veita heimildamyndum verðlaun, Skjaldborg annarsvegar og Eddunni hinsvegar.

Skjaldborg hefur verið haldin síðan 2007, eða alls 14 sinnum. Þar af hafa heimildamyndir eftir konur fengið verðlaun fyrir bestu myndina alls 9 sinnum eða í 2/3 tilfella.

Edduverðlaunin hafa verið veitt síðan 1999, en við höldum okkur við tímabilið 2006-2019 (Eddan 2020 verður í október og úrslit því ekki ljós enn). Þetta eru 13 skipti (Eddan fór ekki fram 2009). Þar af hafa heimildamyndir eftir konur fengið verðlaun 5 sinnum, eða í tæplega 40% tilfella.

 

 

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR