spot_img

JÁ-FÓLKIÐ og SÍÐASTA HAUSTIÐ fá verðlaun á Nordisk Panorama 

Rammi úr Já-fólkinu.

Stuttmyndin Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson hlaut verðlaun yngstu áhorfendanna (Children’s Choice Award) á stutt- og heimildamyndahátíðinni Nordisk Panorama sem stendur nú yfir til 27. september. Þá hlaut heimildamyndin Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg sérstaka heiðursviðurkenningu dómnefndar (Honourable Mention) í flokki bestu norrænu heimildamyndar.

Þetta kemur fram á vef KMÍ og þar segir einnig:

Hægt er að horfa á báðar myndirnar frítt í streymikerfi hátíðarinnar þar sem fjöldi heimilda- og stuttmynda er í boði fyrir þá sem búsettir eru á Norðurlöndum á meðan hátíðinni stendur yfir.

Já-fólkið hefur fengið góðar viðtökur og ferðast víða á hátíðum síðan hún var heimsfrumsýnd síðastliðinn janúar á Minimalen stuttmyndahátíðinni í Þrándheimi, Noregi. Þá er hún meðal annars sýnd á RIFF næstkomandi sunnudag sem hluti af flokknum íslenskar stuttmyndir. Gísli Darri Halldórsson leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni og framleiðendur eru Arnar Gunnarsson og Gísli Darri fyrir framleiðslufyrirtækið Caoz.

Já-fólkið er teiknimynd sem fjallar um íbúa í ónefndri blokk sem vakna einn vetrarmorgun og rútína hversdagsleikans tekur við – hvort sem það er vinnan, skólinn eða heimilislífið. Við fylgjum fólkinu í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmunstur hvers og eins að kristalla persónurnar (dugnaður, leti, fíkn og ástríða). Um kvöldið eru allir komnir heim og um blokkina ómar ýmist ástaratlot eða æpandi þögn sambandsleysis. Að lokum þarf hver og einn að horfast í augu við gjörðir dagsins. Þetta er gamansöm, hálf-þögul teiknimynd um fjötra vanans.

Síðasta haustið undir leikstjórn Yrsu Roca Fannberg var heimsfrumsýnd á hinni virtu kvikmyndahátíð Karlovy Vary í júlí 2019. Það húmar að hausti þar sem vegurinn endar að Krossnesi í Árneshreppi. Þar er sveitabær Úlfars og eiginkonu hans og fjölskyldan kemur til þeirra til að aðstoða við smölun. Barnabörnin koma úr borginni til að taka þátt en hjónin hafa ákveðið að bregða búi svo þetta er síðasta haustið sem þau smala. Hér er á ferðinni einstök innsýn inn í samband mannsins við náttúruna og dýrin. Í þessari heimildarmynd verðum við vitni að umbreytingu sem kallast á við söguna og alla bændurna sem standa í sömu sporum í fortíð og framtíð.

Framleiðandi myndarinnar er Hanna Björk Valsdóttir og framleiðslufyrirtæki eru Akkeri Films og Biti aptan bæði. Myndin var tekin á 16mm filmu, haustið 2016 í Árneshreppi á Ströndum þegar fjórir bændur af átta hættu búskap.

Lista yfir alla verðlaunahafa Nordisk Panorama hátíðarinnar má finna hér.

Sjá nánar hér: Já-fólkið vinnur til verðlauna á Nordisk Panorama – Síðasta haustið hlýtur heiðursviðurkenningu dómnefndar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR