spot_img

Þrýst á um hækkun endurgreiðslunnar – „glapræði að nýta ekki tækifærið núna“

Leifur B. Dagfinnsson framkvæmdastjóri True North.

Endurgreiðsla ríkisins á kostnaði sem fellur til við erlend kvikmyndaverkefni hér á landi þyrfti að vera hærri, að mati Leifs B. Dagfinnssonar stjórnarformanns True North. Rætt var við hann í Morgunútvarpi Rásar 2.

Á vef RÚV segir einnig:

Hann tekur sem dæmi að aðeins 10% af mynd Wills Ferrells, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, hafi verið tekin upp hér á landi þrátt fyrir að Ísland sé sögusviðið í meira en helmingi myndarinnar.

„Þeir komu og skoðuðu þetta fyrir ári. Þá var krónan mun sterkari.“ Því hafi verið ákveðið að taka myndina upp að mestu leyti ytra og fóru útitökurnar fram í Skotlandi. „Keppnin [í myndinni] fer fram í Edinborg og þau skutu meira að segja íslenskt landslag í Skotlandi. Auðvitað finnst mannig það miður,“ segir Leifur í samtali við Morgunútvarpið. Endurgreiðslan er nún 25% og Leifur segir að ef hún væri 10 prósentustigum hærri hefði verið hægt að taka alla myndina hér. „Þá værum við ekki að tala um 500 milljónir sem fóru í framleiðsluna hér heldur fimm, sex, sjö milljarða.“

Leifur segir að skatttekjurnar sem myndu fylgja auknum umsvifum kvikmyndageirans gætu réttlætt hærri endurgreiðslu. „Erlendir leikarar sem koma hingað til lands borga skatt af laununum sínum á Íslandi.“ Hann segir þó að stærsta ástæðan sé að kvikmyndabransinn gæti rétt af ferðaþjónustuna sem sé á heljarþröm vegna COVID-19. „Þetta er undirstaðan. Fjörutíu prósent ferðamanna segjast koma til Íslands því þeir sáu það í bíómynd eða sjónvarpsþætti.“ Fyrir utan hreinlega bein viðskipti sem kvikmyndageirinn beini í ferðaþjónustuna. „Við veltum 3,3 milljörðum á þessum fjórum verkefnum sem við vorum með í október og nóvember í fyrra. Þar af fór milljarður, einn þriðji, til ferðaþjónustunnar; gisting, bílaleigubílar, ferðir, veitingastaðir, súperjeppar. Þetta er besti ferðamaðurinn, kvikmyndaferðamaðurinn.“

Aukning endurgreiðslna til erlendrar kvikmyndagerðar er þekkt aðferð til að örva eftirspurn í kreppu, að sögn Leifs. „Nágrannalönd okkar eru að gera þetta, Spánverjar hækkuðu hana strax upp í 50%. Við erum í samkeppni við lönd eins og Írland sem er með að meðaltali 35% endurgreiðslu.“ Hann segist hafa rætt við þingmenn og ráðherra og heyrist á þeim að það sé þverpólitísk sátt um að hækka endurgreiðsluna. „Þetta er ekki nema 10% hækkun, 3-5 ár til reynslu. Þetta er enginn kostnaður, peningurinn þarf að koma inn í hagkerfið fyrst, og vera þar í 9-12 mánuði áður en við förum að greiða eitthvað til baka. Fyrir hvert starf sem ég bý til á setti verða til tvö önnur afleidd störf í samfélaginu.“

Í heimsfaraldrinum felast líka tækifæri fyrir íslenskt kvikmyndagerðafólk, bæði vegna þess hversu vel hefur tekist að koma böndum á COVID-19, auk strjálbýlisins og fámennisins. „Ef við hækkum okkur upp í 35% erum við orðin samkeppnishæf og getum fengið stór verkefni, þekktar sjónvarpsseríur í tökur frá sex mánuðum og upp í ár. Við erum í dauðafæri og það væri glapræði að nýta ekki tækifærið núna.“

Sjá nánar hér: „Íslenskt“ landslag tekið upp í Skotlandi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR