Menningarsmygl um EUROVISION myndina: Karlabörn á Húsavík

Ásgeir H. Ingólfsson segir á Menningarsmygli að íslenski hluti Eurovison Song Contest: The Story of Fire Saga sé eins og Hollywood-uppfærsla á eldgömlu áramótaskaupi með Bond á eftirlaunum, samtöl séu skelfilega skrifuð og titillinn um það bil sá versti í sögunni – en þrátt fyrir það sé myndin merkilega fyndin á köflum.

Ásgeir skrifar:

Netflix var að frumsýna bíómynd um Evróvisjón, þetta fyrirbæri sem er svo ódrepandi að RÚV eyddi líklega fleiri klukkutímum í það á dagskránni í ár en nokkru sinni áður þótt engin keppni hafi verið þetta árið. Og myndin, hvar á ég að byrja?

Plottið er einfalt: Rachel McAdams og Will Ferrell leika Húsvíkingana Sigrit og Lars sem eiga sér þann draum helstan að vinna í Evróvisjón og komast svo öllum að óvörum í keppnina.

Myndin státar svo af einhverjum verst skrifuðu samtölum sem heyrst hafa í bíómynd, hún er alltof löng og þetta er svona um það bil versti titill á bíómynd í veraldarsögunni: Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.

Þrátt fyrir þetta er myndin merkilega fyndin á köflum og það er líka einhver sál þarna, þökk sé þeirri frábæru leikkonu Rachel McAdams (sem hefur samt vissulega oftast verið miklu betri) og nokkrum frábærum aukaleikarum.

Meira að segja helvítis álfarnir eiga eitt gott augnablik, Ólafur Darri og félagar eru dálítið frábær sem stjórn RÚV (þetta var samt ekki hrós til stjórnar RÚV, fariði nú að hætta að vera svona plebbaleg og hættiði að kikna í hnjánum um leið og Júró berst í tal), Mikael Persbrandt leikur seðlabankastjóra sem mætir á flesta fundina og þykist vera á móti því að vinna vegna kostnaðarins, ég held hann vilji bara ekki fá alla þessa vondu tónlistarmenn til landsins.

En þau sem stela myndinni með húð og hári eru Melissanthi Mahut sem gríska tálkvendið Mita og – sérstaklega – Dan Stevens sem rússneski tálkarlinn Alexander Lemtov. Maður bíður eftir að vafasamur ásetningur þeirra verði afhjúpaður, en það sem kemur skemmtilega á óvart er að bæði vilja hrekklausu Íslendingunum allt hið besta og eru í raun þegar allt kemur til alls gegnheilustu persónur myndarinnar.

Erlenda Evróvisjóngengið er raunar heillandi persónugallerí í heild sinni – og skemmtilega kunnuglegt – og það á líka við um raunverulegu Júró-stjörnunar sem mæta, Salvador Sabral og Loreen sérstaklega.

Það óraunsæasta við myndina er hins vegar líklega gæði tónlistarinnar. Í hefðbundinni Eurovision keppni eru kannski 5 þokkaleg lög, tíu á góðu ári – þau eru öll í þessari mynd. Það er raunar ítrekað gefið í skyn að Sigrit og Lars hafi verið heppnin og séu keppninni ekki samboðin, en jafnvel á sínum verstu stundum eru þau nú samt alveg á pari við meðal-Júróvisjónlag.

Undantekningin er hið viljandi skelfilega Ja ja ding dong, en hatrömm og blind ást Hannesar Óla á því lagi er hins vegar einn af hápunktum myndarinnar. Íslenski hlutinn er svo eins og eitthvað flipp frá árshátíð Íslandsstofu – og Pierce Brosnan er æðislegur sem hönkí sjómaðurinn sem á líklega alla krakkana í sveitarfélaginu. Hann er eins og myndarlegur sænskur kokkur út úr hól innan um Arnar Jónsson og félaga í fjölskylduboði, þetta er eins og Hollywood-uppfærsla á eldgömlu áramótaskaupi með Bond á eftirlaunum.

Þetta er sumsé skelfilega skrifuð en merkilega fyndin og krúttleg lítil mynd – ef ekki væri fyrir einn risastóran galla. Mann sem heitir Will Ferrell. Mann sem þarf að útskýra allt svo nákvæmlega svo að jafnvel treggáfuðustu áhorfendur viti hvað hann er að tala um. Mann sem hefur helgað feril sinn því að leika ofvaxin mannabörn, hann er í raun sjálfumglaða karlmennskan holdi klædd, heimska útgáfan nánar tiltekið. Þess vegna er besta myndin hans líklega þessi örstutta stuttmynd þar sem hann mætir raunverulegum öskrandi smákrakka.

Einstöku sinnum virka myndirnar hans sem satíra á þennan heim þar sem frekir og vanhæfir karlar fá flestu sínu framgengt – en þessi mynd er dæmi um hið gagnstæða, þar sem krúttlegur mórallinn er einfaldlega þessi: sæta, klára og hæfileikaríka stelpan á vitaskuld að kasta öllum sínum draumum á glæ til þess að hanga með þorpsfíflinu og smekklausum vinum hans – af því þau ólust upp saman, sjáiði til.

Þannig er ástarsaga myndarinnar og endirinn á Húsavík krúttvædd þjóðernishyggja og karlremba sem er milljón sinnum verri en kjánalegt hetjurunk fótboltalandsliðsins. Eitthvað sem súmmerar Júróvisjón kannski ágætlega upp; þessi keppni er krúttlegt fílgúdd en afskaplega einföld heimsmynd. Þangað til auðvitað Hatari eða Conchita Wurst eða Salvador Sabral koma og hrista stöku sinnum upp í hlutunum.

Og vonandi er einhvers staðar til almennilegt lokaklipp af myndinni þar sem Sigrit túrar heiminn með rússanum góða eða bara sóló, langt frá amerískættuðum húsvískum karlabörnum.

Sjá nánar hér: Evróvisjón og karlabörn á Húsavík

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR