Viðhorf | Ögn um erindið við umheiminn og okkur sjálf

Undanfarin ár hefur átt sér stað hröð þróun í átt að meira og auðveldara aðgengi að gífurlegu magni erlends (aðallega bandarísks) myndefnis gegnum efnisveitur. Það er í sjálfu sér hið besta mál en sýnir mjög glögglega að gefa þarf hressilega í varðandi íslenskt efni, bæði fyrir umheiminn en jafnvel enn frekar fyrir okkur sjálf.

Í húfi er hin menningarlega sjálfsmynd, þetta er víglína sem liggur gegnum miðja vitund okkar eins og skrifað stendur.

Nú skyldi engin halda að ég sé að agnúast útí erlent efni. Öðru nær, ég fagna þessari þróun. Það er mjög gott að eiga val og helst sem fjölbreyttast.

En inní því mengi er einnig okkar eigið efni.

Erindið við umheiminn

Um þessar mundir standa yfir tökur á þáttaröðinni Kötlu undir stjórn Baltasars Kormáks. Netflix fjármagnar verkefnið en þetta er íslenskt hugverk, unnið með íslenskum leikurum og starfsliði að mestu. Þetta eru frábær tíðindi og merk tímamót, því þetta er í fyrsta sinn sem mestöll fjármögnun á íslensku verkefni kemur frá stórum aðila sem spilar á heimsvísu og innlend fjármögnun eingöngu frá endurgreiðslunni. Þetta staðfestir að risafyrirtæki á heimsmarkaði hafa trú á íslenskri kvikmyndagerð. Árangur Baltasars á alþjóðlegum vettvangi er auðvitað einstakur og fagna ber áhuga hans og elju í að byggja upp innlendan kvikmyndaiðnað.

Margir fleiri hafa einnig verið að standa sig vel í að koma íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsefni á framfæri alþjóðlega og þannig hafa orðið miklar breytingar til hins betra í útbreiðslu þess og áhuga á því víða um heim. Ýmislegt bendir til þess að þetta muni eflast, en að sjálfsögðu þarf að hafa fyrir því. Stórir erlendir aðilar munu líklega halda áfram að fjármagna svona efni en það verður selektívt og með áherslu á alþjóðlega skírskotun. 

Að baki þessu er margra áratuga uppbyggingarstarf við að mörgu leyti erfiðar aðstæður, til dæmis takmarkaðan skilning stjórnvalda á fjárfestingu í íslenskri kvikmyndagerð í gegnum tíðina. Slík fjárfesting er þó vissulega fyrir hendi og hefur aukist smám saman (með hæðum og lægðum) svo því sé til haga haldið. En gera má svo miklu betur – og þessi tíðindi eru einmitt sönnun þess. Það kostar að byggja upp kvikmyndaiðnað og taka séns á hæfileikum. Og það tekur tíma en íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa ítrekað sýnt að þeir valda þessu verkefni og hægt er að ná miklu meiri árangri.

Erindið við okkur sjálf

Erindið við umheiminn og erindið við okkur sjálf eru að sjálfsögðu ekki aðskilin verkefni heldur samþætt. Eftir sem áður er jafn brýnt að huga að því efni sem beinist fyrst og fremst að okkur sjálfum og snýst um staðbunda menningu (menningarlegt sjálfstæði). Þar er að sjálfsögðu RÚV í fararbroddi, enda byggir erindi þess við samfélagið á þessu.

Þessvegna er frekar grínagtugt hjalið um RÚV sem „fílinn í herberginu“ og að nauðsynlegt sé að minnka umsvif þess. Þvert á móti þarf að auka möguleika þess til að sinna samfélagslegu erindi sínu.

Ágætt dæmi þessu til stuðnings eru áhyggjur nágranna okkar Breta af stöðunni. Bretar eru 60 milljónir plús og þar hefur þessi umræða verið áberandi undanfarin misseri. Hafi Bretar áhyggjur ættum við að hafa þær enn frekar.

Fyrrum útvarpsstjóri BBC segir í nýlegri grein að risastærð bandarískra efnisveita á borð við Netflix og Amazon Prime geri þeim kleift að ná gífurlegum yfirburðum og það verði á kostnað staðbundinnar menningar (menningarlegs sjálfstæðis), nema stjórnvöld grípi til ráðstafana og verji meira fé í BBC og annað sem styður staðbundna menningu, það sem býr til samfélög og gefur þeim sjálfsmynd.

Það er fínt að fá aukinn aðgang að erlendu efni. En um leið er enn mikilvægara að bjóða upp á fjölbreytt og gott innlent efni.

Það er samfélagslegt verkefni og því eðlilegt að gera það meðal annars gegnum RÚV, þar sem áherslan verði algerlega á innlenda dagskrá (ég hef beint á þetta ítrekað í að minnsta kosti aldarfjórðung, hér er brot úr grein sem ég skrifaði 1996):

Hvort sem yfirmönnum Ríkisútvarpsins líkar betur eða verr, eru í gangi stórfelldar breytingar í sjónvarpsmálum heimsins. Flutningur sjónvarpsefnis um gervihnetti, ljósleiðara og annað er ekki aðeins að stórauka framboð á myndefni heldur einnig að breyta formi miðilsins. Hugmyndin um samfellda dagskrá sem hefst og lýkur á tilteknum tíma mun brátt heyra sögunni til. Fyrirbærin tölva, sími og sjónvarp munu renna saman í eitt og gegnum þetta nýja fyrirbrigði mun fólk sækja sér það myndefni sem því hugnast.

Þessi bylting (sem mig grunar reyndar að liggi og bíði færis í gámi á hafnarbakkanum í Reykjavík) mun bráðlega gera það að verkum að eina hlutverk Sjónvarpsins verður að bjóða uppá íslenskt efni.

Hvað með einkastöðvarnar?

Stór spurning hlýtur að hanga yfir núverandi viðskiptamódeli þeirra. Umrætt módel, sem byggir á því að þær dreifi hér vinsælu erlendu dagskrárefni, er að renna sitt skeið á enda.

Mörg risafyrirtæki hafa eða eru að koma fram með alþjóðlegar efnisveitur; Apple, Disney, NBCUniversal, AT&T gegnum HBO Warner (HBO Max) og fleiri. Þetta eru að uppistöðu sömu aðilarnir og hafa verið að útvega hérlendum stöðvum sjónvarpsefni.

Auðvelt er að sjá fyrir sér að innan skamms tíma hafi þessir miðlar alheimsdreifingu líkt og Netflix nú og því engin þörf á staðbundnum milliðum til að koma þessu efni til áhorfenda (kröfur um textun og talsetningu eru tæknileg úrlausnarefni, einnig skattlagning þessara alþjóðlegu aðila í hverju landi fyrir sig og eðlilegt að slíkur skattur renni til uppbyggingar innlendum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði). 

Því er mjög líklegt að framtíð einkastöðvanna byggist einnig á framboði innlends efnis fyrst og fremst. Vonandi reynist grundvöllur fyrir því. Einkastöðvarnar geta – og hafa – svo sannarlega lagt sitt af mörkum. Það var til dæmis Stöð 2 sem hratt af stað þeirri bylgju í leiknu íslensku sjónvarpsefni sem enn stendur.

Línuleg dagskrá verður aukaatriði, enda þróunin hröð í þá átt. Því þarf ekki lengur að hugsa um að fylla upp í tímaslott heldur bjóða fram nægilega fjölbreytt úrval efnis sem almenningur vill sjá.

Fréttir verða væntanlega í gangi allan daginn þó að einhverskonar safnsyrpur verði reglulegar (þetta er þegar meira og minna svona). Viðburðir þurfa auðvitað sinn línulega tíma. Íþróttaefni er spurning, munu smáir innlendir miðlar geta keppt við stærri alþjóðlega aðila um dreifingu slíks efnis? Viaplay til dæmis getur allt eins ráðið íslenska þuli til að lýsa leikjum og spjalla í hléi, fyrir og eftir ef þarf eins og Stöð 2 eða Sjónvarp Símans. En sjáum til.

Líkt og aðrar þjóðir, þurfum við einnig að hafa sterkan vettvang fyrir efni sem á í beinni samræðu við samfélag sitt með margvíslegum hætti. Þetta þarf að sjálfsögðu að gerast samfara áframhaldandi alþjóðlegri sókn íslenskrar menningar.

Semsagt, við eigum mikið og brýnt erindi við umheiminn en ekki síður við okkur sjálf.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR