FK opnar nýja og uppfærða vefsíðu

Félag kvikmyndagerðarmanna (stofnað 1966) hefur opnað nýja og uppfærða vefsíðu á nýrri slóð, fkvik.is. Sigríður Rósa Bjarnadóttir formaður FK fylgir nýrri síðu úr hlaði.

Sigríður skrifar:

Kæru félagar,

Til hamingju með nýja vefsíðu, með henni hefst nýr kafli í sögu félagsins. Stefnan er að standa vörð um hagsmuni félagsmanna, að efla fagmennsku í kvikmyndagerð á Íslandi með góðu upplýsingastreymi, útgáfu fréttabréfs og fjölbreyttu námskeiðahaldi í samstarfi við Kvikmyndaklasann og Rafiðnaðarsambandið.

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur sannað sig sem mikilvægur hluti af hagsæld og menningu þjóðarinnar og svo þarf að vera áfram. En það má gera betur, við þurfum að þrýsta á stjórnvöld um að auka fjármagn til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og hækka endurgreiðslur vegna framleiðslukostnaðar í 35%, við þurfum að taka stór skref í að efla menntun í kvikmyndagerð og starfsöryggi innan greinarinnar. Við gerum þetta með því að þétta raðir okkar og standa bak í bak með fagfélögum okkar í SÍK, SKL og BÍL.

Á undanförnum vikum hefur stjórnin fundið fyrir þungum áhyggjum forsvarsmanna kvikmyndaiðnaðar á Íslandi vegna slæmrar stöðu starfsfólks innan greinarinnar á tímum COVID-19, en um leið vilja þeirra um að vera okkur innan handar í okkar baráttu.

Við þær fordæmalausu aðstæður og áskoranir sem þjóðin hefur þurft að glíma við síðastliðna mánuði, hefur það komið í ljós að þau úrræði sem í boði eru henta ekki mörgum af okkar félagsmönnum. Slíkt hefur skapað falskt öryggi fyrir verktaka í skapandi greinum, sem margir hverjir upplifa sig nú í flugvél með bilaðan lendingarbúnað.

Við þurfum að lyfta grettistaki og hætta að vera „ósýnilega fólkið,“ fólkið á bak við tjöldin.  Við þurfum að fá fast land undir fætur, og vissu um að ákveðin grunnréttindi og öryggi séu tryggð ef eitthvað bjátar á. Með sameiningu stéttarfélags kvikmyndagerðarmanna (FK), Félags tæknifólks í rafiðnaði (FTR) og Félags sýningarstjóra í kvikmyndahúsum (FSK) innan Rafiðnaðarsambands Íslands (RAFÍS), stöndum við sterkari og tökumst saman á við þær hindranir sem fyrir okkur verða í átt að kjarabótum og vinnustaðasamningum.

Stefnum öll á fjölmennan aðalfund í haust. Við hvetjum ykkur eindregið til að fylgja okkur á samfélagsmiðlum og tökum fagnandi á móti öllum ábendingum á info@fkvik.is.

Baráttukveðja,

Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Formaður FK

Sjá nánar hér: Nýr kafli í sögu félagsins

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR