Skorað á Alþingi að auka framlög til þáttaraða

Forsvarsmenn hagsmunafélaga kvikmyndagreinarinnar hafa sent frá sér opið bréf til alþingismanna þar sem skorað er á þá að auka framlög til sjónvarpshluta Kvikmyndasjóðs, en þaðan er veitt fé til gerðar leikinna þáttaraða.

Bréfið er svohljóðandi:

Við undirrituð hvetjum alla Alþingisþingmenn til að styðja tillögu um hækkun framlaga til sjónvarpssjóðs Kvikmyndamiðstöðvar Íslands í samræmi við breytingartillögu sem lögð hefur verið fram við fjárlög ársins 2019.

Framleiðsla á leiknu íslensku sjónvarpsefni er vaxtarbroddur sem verður að hlúa að

Með tilkomu nýrra efnisveitna hefur skapast fordæmalaus eftirspurn eftir leiknu íslensku sjónvarpsefni. Þáttaraðir eins og Ófærð, Réttur, Fangar, Stella Blómkvist og fleiri hafa verið sýndar um allan heim og eru aðgengilegar hundruðum milljóna áhorfenda í gegnum efnisveitur á borð við Netflix, NBC, AMC, BBC og svo mætti lengi telja.

Hagræn margföldunaráhrif

Fjölmargar úttektir hafa sýnt fram á að hver króna sem hið opinbera leggur til kvikmyndagerðar skilar sér margfalt til baka. Tekjur ríkisins eru því mun meiri en kostnaður, þar sem stærstur hluti framleiðslufjármagns kemur erlendis frá en allir skattar eru greiddir á Íslandi. Kvikmyndagerð er sú listgrein sem leiðir flest störf af sér og fjármagnið skilar sér út í hagkerfið með margvíslegum hætti.

Flöskuháls

Framlag frá Kvikmyndamiðstöð Íslands er tiltölulega lítill hluti framleiðslukostnaðar hverrar þáttaraðar en afar mikilvægur, enda er vilyrði sjóðsins skilyrði fyrir frekari fjármögnun úr erlendum sjóðum. Nú þegar hefur myndast flöskuháls; fullþróuð verkefni komast ekki í framleiðslu þar sem Kvikmyndamiðstöð Íslands getur aðeins veitt 2-3 vilyrði á ári, sem er í engum takti við eftirspurn. Það er afar brýnt að efla getu Kvikmyndamiðstöðvar til að halda heilbrigðu flæði hvað varðar framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni.

Menning og ímynd

Fyrst og síðast er aukin framleiðsla á leiknu íslensku sjónvarpsefni mikilvæg fyrir menningu okkar og tungu. Ef við eigum ekki okkar eigin sögur á okkar eigin tungumáli, þá veikir það sjálfsmynd okkar sem þjóðar – sér í lagi á okkar tímum þar sem holskefla erlends sjónvarpsefnis flæðir yfir í áður óþekktum skömmtum. Það er jákvætt að eftirspurn eftir okkar sögum skuli ná langt út fyrir landsteinana og mun aukin innspýting í framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni efla ímynd okkar út á við.

 

Dagur Kári
formaður SKL, Samtaka kvikmyndaleikstjóra

Fahad Jabali
formaður FK, Félags kvikmyndagerðarmanna

Kristinn Þórðarson
formaður SÍK, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda

Margrét Örnólfsdóttir
formaður FLH, Félags leikskálda- og handritshöfunda

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR