Lestin á Rás 1 um “Litlu Moskvu”: Sumir byggja stíflur meðan aðrir sprengja þær

Marta Sigríður Pétursdóttir, kvikmyndarýnir Lestarinnar á Rás 1, segir Litlu Moskvu eftir Grím Hákonarson vera merka heimild um liðna tíð, og sé enn lifandi saga í minni íbúa Neskaupstaðar.

Marta Sigríður segir meðal annars:

Litla Moskva er einstaklega vel gerð mynd að því hún leitast raunverulega við að fanga söguna sem er falin í daglegu lífi þeirra sem lifa hana, myndin er ekki sett upp sem hefðbundin heimildar- og fræðslumynd líkt og Bráðum verður bylting þar sem rætt er meðal annars við sagnfræðinga. Heldur fær áhorfandinn að kynnast ólíkum persónum og ólíkum sjónarmiðum fólksins sem býr á staðnum. Litla Moskva er borin uppi af viðtölum við íbúa Neskaupstaðar, bæði eldri og yngri íbúa, og við sjáum hvernig ein hugmyndafræðin hefur tekið við af annarri í viðskiptum og pólitík og dæmi hver fyrir sig hvort sé betra eða verra. Heimurinn er nefnilega ekki svarthvítur. Saga Stellu Steinþórsdóttur sem kemur fram í myndinni er til marks um það en hún er verkakona sem lýsir sér sem helblárri og þurfti að berjast á móti straumnum í kommasamfélaginu sem dygg stuðningskona Sjálfstæðisflokksins.

Hvort hennar hlutskipti sem verkakonu sé betra eða verra eftir að sósíalisminn leið undir lok í Neskaupstað skal látið liggja á milli hluta hér líkt og í myndinni, það er margrætt. Mannlegt líf er margrætt og óendanlega núansað, það eru til margar útgáfur af sömu sögunni og það er mikilvægt að fá innsýn inn í sem flestar hliðar samfélagsins og að fólk hlusti á hvert annað og læri af stóru mistökum mannkynsögunnar. Sjálfur bærinn er líka áhugaverð persóna í Litlu Moskvu, breytingar á arkitektúr og notagildi bygginga eru mikilvægur hluti af sögunni sem og fjöllin, hafið og náttúran. Fyrst var það síldin, svo stóriðjan og undir lokin eru það ferðamennirnir sem eiga að koma atvinnusköpuninni til bjargar.

Útvörður kommúnismans og hugmyndafræðilegur vígvöllur

Bæði myndatakan og tónlist Valgeirs Sigurðssonar skapa myndinni fallega og vandaða umgjörð eins og viðfangsefnið á skilið. En það er saga Stellu og hún sem persóna sem sat eftir í mér löngu eftir að ég sá myndina. Góðar heimildarmyndir opna dyr inn í heima sem áður voru áhorfandanum huldir og góðar heimildarmyndir geta víkkað út þekkingu áhorfandans á fólki og málefnum sem þeir þekktu jafnvel fyrir. Góða heimildarmyndir eru líka þær sem eru áhugaverðar karakterstúdíur. Heimildarmyndir, eins og orðið gefur til kynna, eiga jú að vera heimildir. Það er ekki til neitt sem heitir fullkomið hlutleysi eða einhver ein útgáfa af sannleikanum eða sögunni sem er réttari en annar, allt er huglægt. Nokkuð sem er mikilvægt að hafa í huga á tímum síðsannleikans og samfélagsmiðlanna sem stýra að mörgu leyti því hvaða viðhorf og upplýsingar ná til okkar.

Sjá nánar hér: Sumir byggja stíflur meðan aðrir sprengja þær

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR