Viðhorf | Við þurfum að tala um framtíðina

Framtíðin er komin. Hún er pínu þokukennd ennþá en er að taka á sig mynd. Allmargir þykjast ekki sjá hana eða vilja hana burt. Það er alveg skiljanlegt að vissu leyti, sumt í henni er kannski ekkert mjög spennandi miðað við óbreytt ástand og margt er óvissu háð. Um leið er ekkert víst að sumt sem í henni er klikki. En í öllu falli er hæpið að við komumst hjá því að takast á við hana.

Hún hefur vissulega verið svolítið lengi á leiðinni. Ég minntist held ég fyrst á hana hér, í kvikmyndablaðinu Myndmál, tölublaðið er frá 1984.

Hvernig framtíðin er ekki alveg komin

Fyrir nokkrum dögum langaði mig allt í einu að lesa bók um Jack Warner. Mógúlinn sem stofnaði Warner Brothers. Ég opnaði Kindle appið í símanum mínum og fann ævisögu hans. Kostaði fimm dollara. Keypti hana og nokkrum sekúndum síðar var ég byrjaður að lesa.

Út er komin bíómynd – The Assistant – á stafrænum vettvangi í allavega Bandaríkjunum og Bretlandi. Peter Bradshaw gefur henni glimrandi umsögn í The Guardian. Þetta er sjónarhorn á Weinstein hryllinginn og me too. Julia Garner, sem er frábær í Netflix seríunni Ozark, fer með aðalhlutverkið.

Mig langar að sjá hana. Núna. Hversvegna get ég ekki horft á hana á Íslandi? Núna? Gegn greiðslu að sjálfsögðu.

Væri hún í bíó færi ég kannski þangað. En mig langar að geta valið um hvort ég horfi á hana í kvikmyndahúsi eða heima (eða hvar sem ég kann að vera). Það er (fyrir löngu) kominn tími til að finna lausnir á þessu.

Í dag, 1. maí, býðst öllum sem vilja að horfa á nýjustu mynd chileska leikstjórans Pablo Lorrain, Ema. Það er hin ágæta efnisveita, MUBI, sem býður uppá þetta. Gael Garcia Bernal er meðal leikara. Sem er plús. Ég er til í að kíkja þetta. Myndin er ókeypis í dag allavega.

Það er svosem óþarfi, er alveg til í að borga, en þetta er kannski hugsað sem markaðssetning.

Gott og vel, bara frábært framtak segi ég. Það er alveg óvíst hvort þessi mynd bærist nokkurntíma til Íslands. Þetta er svona Bíó Paradís mynd – og nú vill svo til að framtíð þess góða bíós er í algerri óvissu. Vona þó innilega að það leysist en spurningin er auðvitað þessi: afhverju er það eitthvað atriði á tímum internets hvort myndin berist til Íslands eða ekki?

Auðvitað er best að horfa á bíómyndir í kvikmyndahúsum. Engin spurning. En það er líka fínt að horfa á þær heima. Stóra málið er fjölbreytt aðgengi að kvikmyndum. Bíóhúsin geta ekki sinnt þeirri kröfu nema að takmörkuðu leyti. Stafræn dreifing getur það.

Ekkert af þessu snýst um að kvikmyndahús eða kvikmyndahátíðir hverfi. Þetta eru frábær fyrirbæri, fólk sem kemur saman og á sameiginlega upplifun í bíó er og verður bæði frábært og mjög mikilvægt.

Hvernig skal taka á móti framtíðinni

Já ég þekki efnahagslegu hliðina á kvikmyndaheiminum þokkalega. Sölur á tiltekin svæði og allt það, sem er kannski ein stærsta hindrunin gagnvart opnu aðgengi kvikmynda á heimsvísu, en hefur um leið verið ákveðinn lykill að fjármögnun í vistkerfi kvikmyndanna.

Þetta kerfi hefur að mörgu leyti verið ágætt (en líka ekki svo ágætt) en nú eru einfaldlega komnir aðrir tímar. Fyrir allnokkru síðan.

Spurningin er ekki lengur hvernig hægt er að verja þetta kerfi. Spurningin er hvernig er hægt að byggja upp nýtt dreifingarkerfi þar sem almenningur hefur eins opin aðgang að kvikmyndum og unnt er, en kvikmyndagerðarmenn fá jafnframt greitt fyrir efnið.

Vissulega þarf að glíma við mörg flókin úrlausnarefni. En það er mergurinn málsins, það þarf að glíma við þau, ekki fresta því.

Stærstu atriðin eru hvernig viðhalda má fjölbreytninni og hvernig hægt er að byggja upp vitrænt tekjumódel.

Fjölbreytnispurningin snýr sérstaklega að kvikmyndum utan Hollywood.

Hætta er á að frekar fá yfirþjóðleg fyrirtæki (a la Netflix eða aðrar stórar streymisveitur) gnæfi yfir markaðinn, þannig að ekki sé grundvöllur fyrir smærri VOD-veitum. Þessi kompaní leggi auðvitað mesta áherslu á efni sem þegar nýtur vinsælda, það er tilteknar afurðir Hollywood. Þau kunna að vilja bjóða uppá (eða skipað að gera það af t.d. ESB) evrópskt eða annað efni, en hætta er á að því sé skipað í kjallarann, ekki haft mikið til sýnis. Meðferð Netflix á ýmsum frábærum myndum utan Hollywood er til dæmis ágætt dæmi, það er slatti af þeim en erfitt að finna þær.

Þetta er reyndar sama vandamál og evrópsk kvikmyndagerð hefur lengi glímt við, en munurinn er sá að dreifing er þó fyrir hendi á grunni hvers lands fyrir sig, til eru deifingaraðilar sem fjárfesta í þeim og bíó til að sýna þær, sem og aðrar dreifingarleiðir. En það þrengir sífellt að.

Tekjumódels spurningin snýr auðvitað að öllum, bæði Hollywood risanum og öllum hinum. Hvernig er hægt að tryggja ásættanlegar tekjur gegnum streymi og hvað með hina dreifigluggana (leigu, kapalstöðvar, sjónvarpsstöðvar og og fleira)?

Baráttan um framtíðina

Bandarísku kvikmyndafagmiðlarnir fara nú mikinn vegna streymis-stríðs Universal myndversins og AMC bíókeðjunnar sem er sú stærsta í heimi (Cineworld keðjan og fleiri hafa bæst í hópinn bíóhúsamegin). Þessi slagur er tilkominn vegna ástandsins nú, faraldursins, en umræðan hefur reyndar staðið um árabil og hverfst í kringum spurningar um sýningarglugga, hversu lengi t.d. bíóin fá að hafa kvikmyndir hjá sér eingöngu og hvenær þær byrja að nota aðrar dreifileiðir. Þrýstingur á að stytta þennan glugga vex sífellt og jafnvel á hið ónefnanlega; að dreifa myndum samtímis í bíó og á netinu.

Í stuttu máli snýst „streymis-stríðið“ um þetta: Universal tók stórt skref fyrir nokkrum vikum með því að setja fjölskyldumyndina Trolls World Tour í stafræna dreifingu (amerísku myndverin eru vegna stærðar sinnar í kvikmyndaheiminum ákveðin mælikvarði á hverskyns tilhögun innan hans). Universal segir að þetta hafi heppnast vel og vill nú ganga lengra.

Myndverið hefur gefið það út að myndir verði nú gefnar út eftir efnum og ástæðum hverju sinni í bíóum og/eða í stafrænu formi (VOD – eða Premiere-VOD, þar sem þú greiðir premíugjald fyrir að horfa á nýja mynd. Viljir þú sjá hana síðar lækkar verðið).

Bíóin hafa hingað til ekki viljað ljá máls á þeirri hugmynd að gefa myndir út samtímis í bíó og á VOD-formi, segja það rústa tekjumódelinu. Þessvegna er skollið á stríð, AMC segist ekki ætla að sýna neinar myndir frá Universal. Fylgir sögunni að bíóin noti þetta harkalega orðalag til að senda hinum myndverunum, Disney risanum sérstaklega, aðvörunarskot.

Þessi átök gætu verið lýsandi fyrir það sem koma skal: að fundin verði lausn á því að almenningur hafi val um vettvang til að horfa á nýjar bíómyndir.

Í þessari frétt er meðal annars rætt um að almenningsálitið viðist ekkert sérlega hliðhollt bíóhúsunum. Almenningi sé vissulega umhugað um bíóhúsin en á ekkert undir óbreyttu ástandi. Fólk vilji fá að velja fyrir sig. Þessi umræða hefur vissulega staðið í mörg ár, en vegna aðstæðna nú fær hún aukin slagkraft. Stórar breytingar eru í aðsigi, þær munu taka sinn tíma og það sem ræður úrslitum (hvort sem okkur líkar betur eða verr) eru möguleikarnir til að afla tekna.

Faraldurinn og tilheyrandi lokanir bíóanna hafa kallað á tilraunir með stafræna dreifingu. Ýmsar smærri myndir hafa farið í slíka dreifingu. Listabíóin og dreifingaraðilar þeirra bæði austanhafs og vestan hafa gert tilraunir með „virtual cinema“ sem þýðir að myndin er sýnd stafrænt í tilteknum slottum gegn gjaldi og hluti miðaverðs rennur til viðkomandi bíós líkt og venjulega.

Hátíðir víða um heim hafa gert tilraunir með netútgáfur og nú hafa margar þær stærstu gert með sér samning ásamt YouTube um stafræna megahátíð, We Are One.

Þetta fer einhvernveginn, en tilfinningin er sú að straumurinn liggi þungur í átt að þrengingu fyrrnefndra glugga – og kannski hverfa þeir alveg. Kvikmyndahúsin munu hinsvegar ekki hverfa, alls ekki, en aðlögun mun þurfa að eiga sér stað og sá túr verður misþægilegur – og alveg óljóst hvort áfangastaðurinn verði betri en brottfararstaðurinn. Eða eins og Margo Channing (Bette Davis) sagði í All About Eve: „Fasten your seatbelts, it’s going to be a bumpy night.“

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR