Wonder Woman, Ísland og framtíðin

Warner Bros. hefur tilkynnt að Wonder Woman 1984 verði frumsýnd samtímis í kvikmyndahúsum og á streymisveitu þeirra, HBO Max, þann 25. desember næstkomandi. Þetta eru enn ein tímamótin í sögu kvikmyndanna sem heimsfaraldurinn hefur ýtt undir. Hvað gæti þetta þýtt fyrir íslenskar kvikmyndir?

(Fyrst smá um hugtakanotkun: Í þessari grein verður streaming service eða content provider þýtt sem efnisveita. S-VOD eða Subscription VOD sem áskriftarveita og P-VOD eða Premium VOD sem greiðsluveita).

Tímamótin felast í því að þetta er fyrsta Hollywood stórmyndin sem fær þessa meðferð, þar sem áhorfendur geta valið um hvort þeir horfi heima (eða bara hvar sem þeir vilja) eða í kvikmyndahúsi.

Fyrr á árinu höfðu Hollywood stúdíóin sett myndir sem ætlaðar voru kvikmyndahúsum beint á efnisveitur (Troll’s World Tour, Mulan og fleiri).

Dreifingaraðferðin sem slík er ekki ný. Mörg undanfarin ár hafa ýmsar kvikmyndir, gjarnan smærri verk, farið þessa leið, sem í Bandaríkjunum er kölluð „Day and Date“ (dagur og dagsetning) – að sýna samtímis eða um svipað leyti í bíó og á greiðsluveitu. Stundum virðist það hafa tekist sæmilega, stundum ekki eins og gengur.

En munurinn nú er að hér er um að ræða eina af stórmyndunum sem Hollywood myndverin byggja afkomu sína á. Þetta var ekki planið, en aðstæður virðast hafa rekið Warner Bros. til þessarar aðgerðar. Það er ekki bara faraldurinn og lokuð kvikmyndahús, HBO Max hefur átt brösuglega byrjun og þarf nauðsynlega á fleiri áskrifendum að halda. Þarna er því einnig verið að hugsa um að fjölga þeim.

Líklegt er að þessi þróun muni halda áfram. Það mun taka sinn tíma og þessu verður ekki tekið þegjandi og hljóðalaust af kvikmyndahúsunum, en þau eru hinsvegar í frekar veikri stöðu. Því er lang líklegast að þau muni þurfa að fara í gegnum töluverða aðlögun á starfsemi sinni á næstu árum.

Þessi ákvörðun mun væntanlega hafa mikil áhrif á kvikmyndamarkaðinn um allan heim þar sem Hollywood myndverin leiða hann í krafti stærðar sinnar.

Íslenskar kvikmyndir á heimamarkaði

Íslenskar myndir eru sögulega í sterkri stöðu á heimamarkaði, sem meðal annars sést á því hve meðalaðsókn á þær í kvikmyndahúsum er há miðað við önnur lönd og þær sem fá mikla aðsókn ná meiri hæðum en gerist víða annarsstaðar. Einnig má benda á að meirihluti þeirra er síðan á dagskrá RÚV þar sem þær fá gott áhorf.

Því mætti spyrja hvort einhver sérstök þörf sé á að íslenskar kvikmyndir séu sýndar samtímis eða um svipað leyti í kvikmyndahúsum og á greiðsluveitu.

Hér hefur staða kvikmyndahúsanna eftir faraldurinn áhrif. Hvernig verður aðsóknin? Standa þau frammi fyrir beinni samkeppni við efnisveitur um frumsýnt efni? Munu þau sætta sig við það? Eiga þau annarra kosta völ? Öllum þessum spurningum er enn ósvarað, en verði þetta fyrirkomulag tvöfaldrar dreifingar á frumsýndum kvikmyndum að einhverskonar normi munu íslenskar kvikmyndir væntanlega fylgja þeirri þróun.

Allt er þetta að sjálfsögðu mikilli óvissu háð sem stendur og margt sem þarf að breytast eigi þetta að verða að veruleika.

Ef hægt er að ná til fleiri á frumsýningartímabilinu kann þetta að vera góð hugmynd. Greiðsluveitur eru þegar til hér, efnisveitur Símans og Vodafone bjóða uppá slíkt, en hingað til hefur áherslan verið á eftirmarkaðinn, þá þjónustu sem vídeóleigur sinntu áður og verðlagning eftir því. Hægt er að hugsa sér að slíkum þjónustum fjölgi eitthvað, ef markaðurinn bregst jákvætt við.

Verðlagning á frumsýndri kvikmynd í greiðsluveitu þyrfti að taka mið af verði bíómiða, líklega vera nokkuð hærri, líkt og bæði Universal og Disney gerðu þegar boðið var uppá frumsýndar bíómyndir í greiðsluveitu. Auk þess ætti skipting milli rétthafa og dreifingaraðila að vera enn frekar rétthafa í vil. Um þetta verður tekist á en fólk hefur fundið út úr öðru eins.

Annað sem gæti unnið með þessu mögulega nýja framtíðarfyrirkomulagi er að áhorfendahópur íslenskra kvikmynda er gjarnan eldri, meðan unglingar og ungt fólk er stærsti kúnnahópur kvikmyndahúsanna. Og eldri hóparnir eru oft seinni til að fara í bíó. Aðgengi að frumsýndum íslenskum myndum heima gæti því verið freistandi kostur fyrir marga.

Ólöglegt niðurhal verður líklega vandamál. Um leið og myndir fást á netinu eru þær yfirleitt komnar á skráardeilisíður. Spurningin er þá bæði hvort eitthvað sé hægt að gera varðandi það og hvort það skipti máli fyrir efnahagshliðina þegar á heildina er litið.

Eldri hóparnir eru ólíklegri til að stunda ólöglegt niðurhal og reynslan úr tónlistarbransanum sýnir að auðvelt aðgengi dregur úr ólöglegu niðurhali. Þar er þó í flestum tilfellum um áskriftarveitur að ræða, en ekki greiðsluveitur eins og hér er verið að gera ráð fyrir (auðvitað má sjá fyrir sér að áskriftarveitur fjármagni kvikmyndir að einhverju leyti, Sjónvarp Símans hefur til dæmis lýst yfir áhuga á því, en þá yrði væntanlega um einhverskonar Netflix módel að ræða, þar sem myndin fengi nokkrar vikur í bíó áður. Spurning samt hvort þetta myndi ganga á hinum íslenska örmarkaði – kæmi einhver í bíó?).

En hvað með hinn alþjóðlega markað íslenskra kvikmynda?

Íslenskar kvikmyndir eru hluti af alþjóðlegum markaði listrænna kvikmynda, líkt og myndir flestra þjóða utan Bandaríkjanna. Myndirnar sem freista þess árlega að komast inn á þennan markað skipta líklega einhverjum þúsundum en aðeins lítill hluti nær máli. Því er út af fyrir sig merkilegt að mörg undanfarin ár hafi á bilinu 1-3 íslenskar kvikmyndir náð víðtækri alþjóðlegri dreifingu á hverju ári.

Þessi markaður er ekki mikill að umfangi miðað við Hollywood kerfið en hefur samt skilað sæmilegum árangri um langa hríð, þó mörg teikn séu um að það sé að breytast. Kerfið er marglaga, en byggir í grófum dráttum á því að heimaframleiðandinn fær yfirleitt sýningarrétt í eigin landi og samframleiðendur í sínum löndum. Sérhæfð sölufyrirtæki selja síðan dreifingarrétt til dreifingaraðila um allan heim, sem svo gera sér mat úr verkunum á sínum svæðum. Efnisveitur á borð við Netflix og Amazon Prime hafa síðan sett nokkuð strik í þetta kerfi á undanförnum árum. Í krafti stærðar geta þau boðið uppá alheimsdreifingu eða þrengri dreifingu ef þarf og það getur verið erfitt fyrir lókal dreifingaraðila að keppa við það. En auðvitað eru þau mjög selektív.

Sé  hægt að koma upp fleiri efnisveitum sem eru aðgengilegar víða um heim, mætti ímynda sér að það kæmi sér vel fyrir arthouse markaðinn. Slíkar myndir gætu náð til fleiri en spurningin er auðvitað hvort og hvernig slíkt fyrirkomulag skilaði ásættanlegum tekjum til rétthafa, þeirra sem standa að baki myndunum. Önnur spurning er líka hver sér sér hag í að koma slíkum efnisveitum á fót.

Kostir slíkrar dreifingar eru helst þeir að kvikmyndirnar yrðu aðgengilegar mjög víða strax, en ekki smám saman um yfir margra mánaða eða jafnvel ára tímabil. Áhuga þeirra sem kjósa slíkar myndir yrði svalað fljótt. Tiltekin kvikmynd fær mikla athygli á hátíðum og yrði í kjölfarið komin í heimsdreifingu. Margir myndu taka slíku fagnandi.

Hugsanlega myndi þetta þrengja eitthvað að listrænu kvikmyndahúsunum, en kannski ekki. Þau eiga sér dyggan áhorfendahóp sem myndar ákveðið samfélag og ættu því að halda velli með einhverjum breytingum, líkt og þau bíó sem sýna fyrst og fremst Hollywood myndir.

Vænta má breyttra tíma. Tímarnir eru vissulega alltaf að breytast en ný staða blasir nokkuð afgerandi við. Breyttu tímarnir verða ekki „one size fits all“, þeir verða allskonar. Eftir um aldarfjórðungs þróunarferli hinnar stafrænu veraldar virðist sem hún hafi að mestu sett hina hliðrænu til hvílu. Hægt er að nálgast málin öðruvísi. En kvikmyndahúsin, hugmyndin um að fólk komi saman til að deila sameiginlegri reynslu, verða að sjálfsögðu áfram til.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR