LevelK selur A SONG CALLED HATE á heimsvísu

Heimildamyndin A Song Called Hate sem fjallar um Eurovisongjörning hljómsveitarinnar Hatara er komin með dreifingarsamning hjá danska fyrirtækinu LevelK. Leikstjóri og framleiðandi myndarinnar er Anna Hildur Hildibrandsdóttir en hún fylgdi hópnum til Ísrael og Palestínu í fyrra ásamt Baldvini Vernharðssyni kvikmyndatökumanni. Myndin er framleidd af Tattarrattat í samstarfi við RÚV.

Frumsýna átti myndina á CPH:DOX heimildamyndahátíðinni í Kaupmannahöfn í mars síðastliðinn en ekki varð af því vegna lokunar landamæra. Ráðgert er að hún verði frumsýnd í haust.

Lagið Hatrið mun sigra var framlag Íslands til Eurovision sem fram fór í Tel Aviv árið 2019 eins og frægt er orðið. Mikill alþjóðlegur fjölmiðlaáhugi skapaðist í kringum yfirlýsingar Hatarahópsins, bæði í aðdraganda lokakvöldisins og á kvöldinu sjálfu þar sem táknrænn gjörningur þeirra náði til yfir 200 milljóna áhorfenda.

A Song Called Hate fjallar um listina sem felst í því að taka afstöðu og spyr spurninga um hlutverk listarinnar í pólitísku samhengi. Í myndinni kynnumst við aðdragandanum og sjáum hvað gerðist á bak við tjöldin á ferðum hópsins.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir.

Anna Hildur hefur áður stýrt þáttagerð og unnið sem framleiðandi en þetta er í fyrsta skipti sem hún leikstýrir heimildamynd í fullri lengd, hún segir;

Þetta ferðalag var bæði ögrandi og erfitt. Maður fann vel fyrir spennunni og hættunum sem voru til staðar. En um leið var gefandi að sjá Hatarahópinn taka afstöðu til mannréttindamála með svona afgerandi hætti og fylgjast með öllu ferlinu sem stóð í raun yfir í sex mánuði. Það gaf mér von og vonin er það dýrmætasta sem maður á.“

Iain Forsyth og Jane Pollard sem unnu með Önnu Hildi að verkinu sem yfirframleiðendur eru meðal annars þekkt fyrir mynd sína 20.000 Days On Earth sem fjallar um Nick Cave. Þeim fannst viðfangsefnið ekki síst áhugavert vegna hugmynda um hvaða áhrif listin getur haft:

Við erum alltaf áhugasöm um stærra samhengi sögunnar sem verið er að fást við. Við viljum afhjúpa goðsögnina um hvað þarf til að vera listamaður, hvað það þýðir að búa yfir skapandi hugsun. Listin getur ekki breytt heiminum, en hún getur breytt fólki og fólk getur breytt heiminum.

Myndin var tekin upp í Reykjavík, London, Madrid, Ísrael og Palestínu. Frumsamin kvikmyndatónlist við myndina er eftir Margréti Rán úr Vök en Bergur Þórisson hljóðblandaði og útfærði með henni. Öll eftirvinnsla var unnin hjá Trickshot.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR