Enn bólar ekkert á kvikmyndanámi á háskólastigi

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn eru orðnir langeygir eftir því að námi í kvikmyndagerð á háskólastigi verði komið á hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu verður ný kvikmyndastefna kynnt á næstunni, þar sem meðal annars verður fjallað um menntun.

Fjallað er um þetta á vef RÚV og rætt við Hafstein Gunnar Sigurðsson leikstjóra.

Ekkert kvikmyndanám á háskólastigi er í boði hér á landi, en Kvikmyndaskóli Íslands býður nám á framhaldsskólastigi. Árið 2012 lét menntamálaráðuneytið gera úttekt á stöðu kvikmyndamenntunar hér á landi, í þeim tilgangi að móta heildstæða stefnu. Niðurstaða skýrslunnar var meðal annars sú að þörf væri á námi á háskólastigi hér á landi, og að best væri að koma því á innan veggja Listaháskóla Íslands.

„Það líða fimm ár, frá 2012 til 2017, og okkur leið eins og það hefði ekkert gerst í þessum málum. Það hefði bara verið ákveðin stöðnun,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, kvikmyndagerðarmaður. Hann og 40 aðrir sem tengjast kvikmyndagerð með einum eða öðrum hætti skrifuðu þá undir áskorun til menntamálaráðherra, þar sem hvatt er til þess að kvikmyndanámi á háskólastigi verði komið á hér á landi. Á meðal þeirra sem skrifuðu undir áskorunina voru kvikmyndagerðarmennirnir Baltasar Kormákur, Dagur Kári, Grímur Hákonarson, Ísold Uggadóttir, Kristín Jóhannesdóttir, Óskar Jónasson, Ragnar Bragason og Valdís Óskarsdóttir, Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor LHÍ, Magnús Geir Þórðarson, þáverandi útvarpsstjóri og Sigurjón Sighvatsson framleiðandi, svo fáeinir séu nefndir. Áskorunin var afhent Lilju Dögg Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í nóvember árið 2017.

Hluti af stærra máli

Hafsteinn Gunnar segir að eftir að áskorunin var afhent hafi hreyfing komist á hlutina.

„Já það hafa alveg hlutir gerst. Í upphafi árs 2019 var peningum veitt í að setja af stað þróun á þessari deild innan Listaháskólans sem var algjörlega frábært. Fólk tók því fagnandi enda mikil samstaða um þetta mál innan greinarinnar. Og þar hefur flott vinna átt sér stað, en það hefur ekki enn tekist að tryggja að þessu verði hrint í framkvæmd. Þannig að það er óvissa um það núna hvenær það verður gert og með hvaða hætti.“

Þannig að það er búið að vinna þróunarvinnu en ekki opna deildina?

„Einmitt. Og okkur skilst að þetta sé kannski hluti af stærra máli, það sé verið að móta stefnu til næstu 10 ára í kvikmyndagerð á Íslandi. En spurningin er hvort þetta sé eitthvað sem stendur til að gera á næsta ári eða á næstu 10 árum. Og við teljum bara að þörfin sé mikil, að ákveðin framþróun í menntamálum innan kvikmyndageirans geti átt sér stað.“

Hafsteinn Gunnar segir það mjög nauðsynlegt fyrir þá sem hafa áhuga á að mennta sig í kvikmyndagerð, að geta gert það á háskólastigi.

„Við erum töluvert á eftir þeim löndum sem við berum okkur saman við í þessum málum og okkur finnst skjóta skökku við að það er boðið upp á listnám á háskólastigi í nánast öllum öðrum listgreinum á Íslandi, en ekki í kvikmyndagerð. Það er mjög mikilvægt fyrir endurnýjun greinarinnar og líka fyrir alla þá þekkingu sem hefur safnast saman í landinu. Við eigum fullt af ofboðslega vel menntuðu fólki sem hefur menntað sig í bestu skólum í heimi og það vantar samastað til þess að þessi þekking geti safnast saman í akademísku umhverfi.“

Hafsteinn Gunnar segir að það liggi beinast við að koma náminu á innan Listaháskóla Íslands, enda séu allir innviðir til staðar þar, auk þess sem ákveðin samlegðaráhrif gætu orðið í samstarfi við aðrar deildir.

Vinna á lokametrunum

Hasteinn Gunnar lærði sjálfur í New York og er með MFA-gráðu frá Columbia háskóla, en hann er einnig með BA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hann á að baki myndir á borð við Undir trénu, París norðursins og Á annan veg. Hann segist ekki vera í vafa um að kvikmyndanám á háskólastigi geti orðið þjóðhagslega hagkvæmt.

„Já það held ég alveg örugglega. Sérstaklega í ljósi allrar umræðu um skapandi greinar og mikilvægi þeirra, atvinnumöguleika í framtíðinni, fjórðu iðnbyltinguna og allt þetta. Kvikmyndagerð er líka alltaf að sanna sig meira og meira sem mikilvæg grein fyrir okkar samfélag, bæði menningarlega og í atvinnulegu tilliti.“

Þau svör fengust frá menntamálaráðuneytinu að fjallað sé um kvikmyndamenntun í nýrri kvikmyndastefnu sem kynnt verði á næstunni. Vinna við gerð hennar sé á lokametrunum.

„Það verður fyrsta heildstæða kvikmyndastefnan sem nær yfir hlut kvikmynda í menningu þjóðarinnar, menntun í kvikmyndagerð, miðlun íslensks kvikmyndaefnis og stuðning við framleiðslu kvikmynda,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Hafsteinn Gunnar segist bjartsýnn á að málið nái fram að ganga.

„Ég vona að stjórnvöld hafi séð mikilvægi þessa máls. En það sem maður er kannski uggandi yfir er tímasetningin, hvenær þetta lítur dagsins ljós og verður að veruleika,“ segir Hafsteinn Gunnar.

Sjá nánar hér: Ekkert háskólanám átta árum eftir afgerandi skýrslu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR