Viðhorf | Bíó Paradís á brúninni

Bíó Paradís hefur alltaf verið á brúninni. Eiginlega þannig að það hangir á fingurgómunum sem smám saman eru að renna fram af.

Bíóið lagði af stað 2010 með lítið fjármagn, fyrst frá borginni og stuttu síðar kom ríkið inn. Mjög þakkarvert út af fyrir sig, því með þetta var hægt að fara af stað í kunnuglegu íslensku bjartsýniskasti, en um leið var treyst mjög á áhuga almennings. Frá upphafi hefur bíóið verið rekið að langmestu fyrir sjálfsaflafé (um og yfir 80%), sem er óþekkt hjá menningarhúsum.

Okkur sem stóðum að þessu í upphafi var fljótt ljóst að þetta væri alltof hátt hlutfall og meiri stuðningur þyrfti að koma til, ekki síst meðan verið væri að byggja starfsemina upp til nokkurra ára. Það reyndist rétt mat, enda hefur reksturinn verið mjög þungur lengst af, en á undanförnum árum hefur hann aðeins skánað enda bíóið náð fótfestu sem eitt af helstu menningarlegu kennileitum borgarinnar.

Þegar svo leigusalinn vill hækka leigu mikið og fjölmargt er brýnt að lagfæra innanhúss fyrir tugi milljóna króna, er ljóst að ekki verður áfram haldið nema aukin stuðningur opinberra aðila komi til.

Þetta er nefnilega þjónusta við samfélagið. Líkt og leikhúsin, listasöfnin önnur sambærileg þjónusta við almenning.

Hinsvegar er skilningurinn á því að kvikmyndir séu listgrein stundum svolítið takmarkaður.

Svo maður velji diplómatískt orðalag.

Stofnun Bíó Paradísar grundvallaðist á þeirri hugmynd að kvikmyndir væru listsköpun og að sjálfsagt og eðlilegt væri að almenningur hefði fjölbreyttan aðgang að kvikmyndalist og -menningu, að börn og unglingar gætu notið kvikmyndamenntunar og að þetta gerðist í andrúmslofti þar sem sagan að fornu og nýju svifi yfir og allt um kring.

Ekki að þetta sé byltingarkennd hugmynd. Svona stofnanir hafa verið reknar um áratugaskeið að miklu leyti á kostnað opinberra aðila á öllum Norðurlöndunum og reyndar í mestallri Evrópu. Sambærilegar stofnanir má einnig finna í Bandaríkjunum, bendi til dæmis á sjálfseignarstofnunina Film Society of Lincoln Center í New York sem bæði nýtur alríkisstuðnings og fjármagns frá New York fylki, auk stuðnings frá einkaaðilum.

Bíó Paradís er tilraun til að breyta íslenskri kvikmyndamenningu – sem að stærstum hluta hefur falist í því að sækja mikið í nýjustu Hollywood myndirnar hverju sinni. En kvikmyndin er svo miklu meira en það.

Tilraunin hefur tekist að því leyti að þegar bíóið stendur frammi fyrir lokun verður uppi fótur og fit og fjölmargir héðan og þaðan stíga á stokk og lýsa því hversu mikils virði Bíó Paradís er. Þarna hafa fjölmargir sótt margskonar sterkar upplifanir sem hafa haft mikil áhrif á líf viðkomandi. Athyglisvert var að heyra í stórum hópi sem sækir ekki Bíó Paradís að ráði en vill að það sé til. Fólk vill nefnilega búa í samfélagi þar sem aðgangur er að fjölbreyttri menningu.

Tillögur að lausnum hafa verið kynntar fyrir bæði borg og ríki (menntamálaráðuneyti). Borgin mun fyrir sitt leyti vera tilbúin að stíga inn en það stendur á svörum frá menntamálaráðuneytinu.

Á meðan hangir Bíó Paradís á brúninni og smám saman losnar um tæpt takið.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR