Netflix pantar músik frá Akureyri

Sinfónía Nord spilar í Hofi á Akureyri (mynd: Vísir/Tryggvi).

Bandaríska streymisveitan Netflix sendir nú verkefni í gríð og erg til Akureyrar. Sinfóníuhljómsveitin Sinfonia Nord á Akureyri, er ein af fáum, ef ekki sú eina í heiminum, sem getur sinnt kvikmyndatónlistarverkefnum þessa dagana.

Þetta kemur fram á Vísi og þar segir ennfremur:

Miðstöð Sinfonia Nord er í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri þar sem hljóðfæraleikarar hafa staðið í ströngu alla helgina, að taka upp kvikmyndatónlist fyrir bandarísku streymisveitinu Netflix. Verkefnin hreinlega hrúgast inn.

„Við eiginlega trúum því ekki hvað er að gerast. Við virðumst vera eina sinfónuhjómsveitin í heiminum sem getur veitt þessa þjónustu núna, ekki það að við vorum löngu byrjaðir á því. Núna erum við að taka upp tónlist fyrir þriðju Netflix-kvikmyndina okkar í röð,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar.

Það flækir málin að ekki mega vera fleiri en 20 í sama rýminu vegna samkomubannsins auk þess sem að Netflix krefst ýtrustu sóttvarna. Því þurfti að skipta hljómsveitinni upp í minni einingar auk þess sem að enginn komst inn í Hof nema fá grænt ljós frá hjúkrunarfræðingi.

Hljóðfæraleikararnir þurftu að vera með grímu í almennum rýmum og líklega hefur það ekki oft gerst áður að sinfóníuhljómsveit hafi starfað undir vökulum augum fulltrúa almannavarna, sem gætti þess að allt færi fram samkvæmt reglum. En tónlistin hentar þessum varúðarráðstöfunum.

„Við erum að taka upp kvikmyndatónlist fyrir dramatískan þátt, krimma, og þetta er bara svolítið eins og að vera inn í því,“ segir Þorvaldur Bjarni.

Framundan eru minnst þrjú verkefni og Netflix virðist ætla að grípa gæsina eftir að hafa kynnst Sinfoniu Nord í fyrri verkefnum, í febrúar var meðal annars tilkynnt að hljómsveitin myndi taka upp tónlistina í Eurovison-mynd Will Ferrel, þar sem Ísland kemur mjög við sögu.

„Við erum komin með olnbogann inn, þá vill svo til að fólk lítur til okkar þegar það fattar að á Íslandi er kannski langöruggast að vera á meðan á þessu stendur og þess vegna getum við veitt þjónustuna,“ segir Þorvaldur Bjarni en greint hefur verið frá því að Netflix hafi sett nánast alla sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu á ís, nema í tveimur löndum, Suður-Kóreu og Íslandi, vegna árangurs þeirra í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum.

Sjá nánar hér: Netflix beinir eyrum sínum að Akureyri – Vísir

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR