Aukinn áhugi erlendra framleiðenda á Íslandi í kjölfar yfirlýsingar Netflix

Frá tökum á kvikmyndinni Oblivion með Tom Cruise við Jarlhettur sumarið 2012.

Erlend kvikmyndaver hafa sýnt Íslandi mikinn áhuga eftir að yfirmaður hjá Netflix greindi frá því í síðustu viku að efnisveitan væri með framleiðslu í tveimur löndum; Suður Kóreu og Íslandi. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Þar segir ennfremur:

Sóttvarnalæknir fékk í síðustu viku erindi þar sem óskað var eftir samtali um hvernig væri hægt að greiða götur erlendra tökuliða. Meðal þess sem hefur verið nefnt er að tökuliðin verði skimuð fyrir COVID-19 og að þau haldi sig á afmörkuðum svæðum.

Einar Hansen Tómasson hjá Film in Iceland staðfestir í samtali við fréttastofu að erindið hafi verið sent í síðustu viku og nú sé beðið eftir viðbrögðum frá sóttvarnalækni. „Við viljum fá að vita hvort þetta sé tóm vitleysa eða ekki. Þetta hefst allt á samtalinu.“

Leynd hvílir yfir tökum Kötlu

Einar segir nóg hafa verið að gera eftir ummæli yfirmanns Netflix um að hér væri framleiðsla. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru það tökur á sjónvarpsþáttaröðinni Kötlu eftir Baltasar Kormák.  Hvorki forsvarsmenn RVK Studios né Netflix hafa viljað tjá sig um hvernig tökunum verður háttað.

Í umfjöllun vefmiðilsins The Wrap kemur fram að tökulið þáttanna hafi öllu verið gert að fara í sýnatöku og því sé skipt upp á sóttvarnarsvæði.  Þar kemur fram að hvorki yfirmenn Netflix hafi viljað tjá sig né gáfu þeir færi á því að aðstandendur Kötlu kæmu í viðtal.

Fylgjast vel með 

En nú er horft til þess að hægt verði útfæra þessar reglur fyrir erlend tökulið.  

„Menn fylgjast vel með og telja að stjórnvöld hér hafi verið að vinna góða vinnu. Við séum á leið út úr ástandinu og þeir vilja nýta sér það,“ segir Einar. Þetta gerist ekki á morgun en ef þetta gæti gerst eftir mánuð væri það spennandi.  

Öllum erlendum ferðamönnum sem koma hingað til lands er gert að fara í tveggja vikna sóttkví. Sú regla verður í gildi til 15. maí, að minnsta kosti. Hugmyndir framleiðslufyrirtækjanna byggja á því að tökur færu fram á hálfgerðu sóttvarnarsvæði. Kristinn Þórðarson, formaður SÍK, segir að þetta yrði þó aldrei gert án samráðs við sóttvarnalækni.

Hótel leigð og tökuliðið skimað 

Hægt yrði að leigja vél með áhöfn, hótel til að hýsa fólkið þar sem enginn sé og síðan yrði skimað fyrir COVID-19. Hjúkrunarfræðingur yrði til taks og eftirlitsmaður frá landlæknisembættinu. „Fólk yrði þá í sóttkví í sólarhring eða þar til niðurstaða fengist úr sýnatökunni,“ segir Kristinn.  Hann segir Ísland standa nokkuð vel að vígi vegna víðfeðmis og fámennis og þá sé gengi íslensku krónunnar hagstætt. Hann bendir jafnframt á að þetta geti verið mikil innspýting fyrir ferðaþjónustuna.

Áhuginn er sannarlega til staðar. Í umfjöllun The Wrap kemur fram að framleiðslufélagið True North hafi verið í viðræðum um þrjár Hollywood-kvikmyndir sem ráðgert var að taka hér á landi í júní.  Tökum á einni þeirra hefur þegar verið frestað til ágúst vegna  kórónuveirufaraldursins. 

Sjá nánar hér: Hollywood horfir til Íslands eftir yfirlýsingu Netflix

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR