spot_img

Áhersla á sjónvarpsþáttaraðir á bransadögum Stockfish

Danski handritshöfundurinn Jeppe Gjervig Gram verður með meistaraspjall 15. mars kl. 15 í Bíó Paradís.

Líkt og jafnan eru bransadagar stór hluti af Stockfish hátíðinni en þar er fjallað um ýmis mál sem snúa að kvikmyndagreininni. Áhersla á þróunina í sjónvarpsþáttaröðum er áberandi að þessu sinni.

Boðið er uppá meistaraspjall með Jeppe Gjervig Gram, einum handritshöfunda dönsku þáttanna Borgen og einnig pallborðsumræður um sjónvarpsþáttaraðir með þátttöku Liselott Forsman, nýskipaðs framkvæmdastjóra Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins, Laufeyjar Guðjónsdóttur forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar íslands og allra dagskrárstjóra íslensku sjónvarpsstöðvanna.

Meistaraspjall með Jeppe Gjervig Gram

Hvenær: 15. mars kl. 15 í Bíó Paradís. Allir velkomnir og ókeypis inn.

Jeppe Gjervig Gram er danskur handritshöfundur best þekktur fyrir dönsku sjónvarpsseríuna Borgen (2010-2013) sem hann skrifaði ásamt Adam Price. Handritsteymið á bakvið seríuna vann meðal annars Peabody og BAFTA verðlaun fyrir skrifin. Gram hefur einnig skrifað þætti fyrir sjónvarpsseríuna Sommer (2008-2009) og Bedrag (2016-) sem nýlega var sýnd á RÚV. Huldar Breiðfjörð, sem skrifaði meðal annars handrit París norðursins(2014), Undir trénu (2017) og einn þátt í seríunni Pabbahelgar (2019), mun ræða við Gram um verk hans og hvernig góð sjónvarpssería verður til.

Pallborð um sjónvarpsseríur á breyttum tímum

Hvenær: 17. mars kl. 16:30 í Bíó Paradís. Allir velkomnir og ókeypis inn.

Nú þegar efnisveitum fer fjölgandi og framleiðsla á sjónvarpsefni leitar í nýjar rásir er rétt að taka stöðuna. Hvernig munu íslenskar sjónvarpsstöðvar mæta aukinni samkeppni? Hvernig hyggjast sjóðirnir bregðast við breyttu landslagi? Þátttakendur eru Liselott Forsman, forstöðumaður Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins, Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, Pálmi Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps Símans og Þóra Björg Clausen, dagskrárstjóri Stöðvar 2.

Pallborðsumræður: Norræn heimildamyndagerð, staða hennar og tækifæri

Hvenær: 14. mars kl. 14 í Bíó Paradís. Allir velkomnir og ókeypis inn.

Í samvinnu við Nordisk Panorama býður Stockfish norrænu heimildamyndagerðarfólki á hátíðina sem hefur sett sinn svip á heimildamyndasenuna á Norðurlöndunum. Þau koma til með að taka þátt í norrænu heimildarmyndaspjallborði. Á hátíðinni verða sýndar þrjár heimildamyndir sem unnu til verðlauna á Nordisk Panorama í fyrra; Humanity on Trial, Lindy Return of the Little Light og Q’s Barbershop. Í pallborðsumræðunum verður rædd staða norræna heimildamyndabransans og möguleikar á frekara samstarfi. Umræ’um verður stýrt af Cecilia Lidin sem sér um heimildamyndir á vegum dönsku kvikmyndamiðstöðvarinnar og er í valnefnd Nordisk Panorama í ár. Aðrir þáttakendur eru Margrét Jónasdóttir (IS) framleiðandi, Emil Langballe (DK) leikstjóri Q’s Barbershop og Outi Rousu (FI) framleiðandi.

Verk í vinnslu

Hvenær: 16 mars kl. 16 í Bíó Paradís. Allir velkomnir og ókeypis inn.

Í Verk í vinnslu gefst aðstandendum íslenskra kvikmyndaverka sem ekki eru tilbúin til sýninga tækifæri til að kynna verk sín fyrir þeim erlendu fjölmiðlum sem sækja hátíðina hverju sinni.

Alla viðburði má skoða nánar hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR