Þverskurður nýrra og nýlegra kvikmynda á Stockfish auk margra góðra gesta

Nicolas Cage fer með aðalhlutverkið í Color Out of Space eftir Richard Stanley, sem sýnd verður á miðnætursýningu 13. mars.

Vel á þriðja tug nýrra og nýlegra kvikmynda víðsvegar að verða sýndar á Stockfish hátíðinni sem stendur frá 12.-22. mars í Bíó Paradís. Þarna má finna ýmsar myndir sem hlotið hafa góðar viðtökur á hátíðum á undanförnum mánuðum en einnig tvær heimsfrumsýningar. Sex leikstjórar og einn leikari sækja hátíðina heim að þessu sinni. Auk þessa verða tvær íslenskar heimildamyndir frumsýndar á hátíðinni.

Úrval alþjóðlegra kvikmynda

Meðal mynda sem vakið hafa mikla athygli á hátíðum að undanförnu eru til dæmis And The We Danced eftir Levan Akin, Arracht eftir Tom O’Sullivan (gestur), Fire Will Come eftir Oliver Laxe, It Must Be Heaven eftir meistarann Elia Suleiman, Monos eftir Alejandro Landes og The Painted Bird eftir Václav Marhoul.

Tvær myndir heimsfrumsýndar

Tvær kvikmyndir eru heimsfrumsýndar á hátíðinni; A Fire in the Cold Season eftir Justin Oakey (Nýfundnaland) og Amber and Me eftir Ian Davies (Bretland).

Myndavalið í heild sinni má skoða hér ásamt stiklum úr myndunum.

Alþjóðlegir gestir

Sex leikstjórar og einn leikari munu sækja hátíðina heim að þessu sinni. Þetta eru Justin Oakey leikstjóri A Fire in the Cold Season, Karim Ainouz leikstjóri Invisible Life (hlaut Un Certain Regard verðlaunin í Cannes 2019, sömu verðlaun og Hrútar hlutu 2015), Dome Karukoski leikstjóri Tolkien, Ian Davies leikstjóri Amber and Me, Tom Sullivan leikstjóri Arracht/Monster, Dónall Ó Héalai leikari í Arracht/Monster og Mona J Hoel leikstjóri Are You Leaving Already?

Tvær íslenskar heimildamyndir frumsýndar

Tvær nýjar íslenskar heimildamyndir verða frumsýndar á hátíðinni, annarsvegar Eins og málverk eftir Eggert Pétursson eftir Gunnlaug Þór Pálsson, um listamanninn Eggert Pétursson sem lýsir eigin verkum og sköpunarferli sem hann tengir mikið við íslenska náttúru og eiginleika hennar og hinsvegar Guðríður hin víðförla eftir Önnu Dís Ólafsdóttur sem fjallar um Guðríði Þorbjarnardóttur (980-1050), en hún var um miðja 11. öldina víðförlasta kona miðalda. Hún var einn merkilegasti landkönnuður sögunnar og sigldi meðal annars átta sinnum yfir úfið Atlantshafið og kannaði veröldina allt frá norðurströndum Ameríku og vestur til Vatíkansins í Rómarborg. Leifur Eiríksson bjargaði henni, síðar mágkonu sinni, úr sjávarháska sem varð til þess að hann fékk viðurnefnið “heppni”.

Miðnætursýning á nýrri mynd Richard Stanley með Nicholas Cage

Vert er að vekja athygli á að miðnætursýning verður á nýrri kvikmynd költleikstjórans Richard Stanley (Hardware) Color Out of Space sem byggð er á bók H.P Lovecraft, en sjálfur Nicolas Cage fer með aðalhlutverkið. Sýningin verður 13. mars og hefst kl. 23.

Sjá myndavalið hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR