Víðsjá um MEÐ SIGG Á SÁLINNI: Bíómyndirnar týnast innan um grobbsögur

„Með sigg á sálinni er skemmtileg aflestrar en er fjarri því sá minnisvarði um feril og lífshlaup Friðriks Þórs Friðrikssonar sem leikstjórinn verðskuldar,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson bókarýnir Víðsjár meðal annars í umsögn sinni um bókina.

Björn Þór skrifar:

Íslensk kvikmyndasaga verður ekki skrifuð án þess að Friðrik Þór Friðriksson sé þar afskaplega fyrirferðarmikill. Raunar er engum blöðum um það að flétta að Friðrik Þór er mikilvægasti kvikmyndahöfundur íslenskrar kvikmyndasögu, en ferillinn nær – eins og fólk veit – frá gjörningaverkum á borð við Brennunjálssögu á öndverðum níunda áratug síðustu aldar til metsölumynda á borð við Djöflaeyjuna og Engla alheimsins, en sú síðastnefnda var frumsýnd á nýársdag árið 2000 og markaði þannig upphaf nýrrar íslenskrar kvikmyndaaldar með glæsibrag. Nýútkomin ævisaga Friðriks, Með sigg á sálinni: Saga Friðriks Þórs Friðrikssonar eftir Einar Kárason, er samt ekki skrifuð fyrir kvikmyndaáhugafólk, hvað þá kvikmyndafræðinga, enda kannski heldur þröngur lesendahópur þar á ferðinni. En það vekur samt nokkra furðu hversu rýr hlutur kvikmyndagerðar Friðriks er í bókinni, svona á heildina litið. Að þessu ætla ég að koma aftur eftir augnablik en fyrst er að spyrja, fyrir hverja, ef ekki kvikmyndafólk, er bókin þá skrifuð? Svarið, sem þó er kannski ekki alveg augljóst, tengist uppbyggingu, formi og frágangi bókarinnar, auk efnistakanna.

Í stuttum inngangi sem fylgir bókinni úr hlaði víkur Einar nokkrum orðum að tilkomu verksins og sambandi sínu við Friðrik, en þeir eru auðvitað aldagamlir vinir, hafa þekkst allt frá því á menntaskólaárunum, og samstarfsmenn í þremur kvikmyndum, Skyttunum, Djöflaeyjunni og Fálkum, þar sem Einar skrifaði handritið, ýmist upp á eigin spýtur eða með leikstjóranum. Í þessum inngangi verður Einari tíðrætt um víðfræga sagnagleði og frásagnargáfu Friðriks og nefnir að í þeirra vinahópi, eða „klíkunum í kringum Friðrik“ eins og það er orðað, hafi það lengi verið rætt að nauðsynlegt væri að festa á blað sögur hans og „einkennileg ævintýri og örlög“.

Í þessu samhengi er minnst á að áður hafi verið ráðist í slíkt verk, og kann suma hlustendur að renna minni til bókarinnar sem Einar vísar þarna til, en hún nefnist Vor í dal og kom út árið 1994, skrásett af Árna Óskarssyni, öðrum einstaklingi úr vinahópi Friðriks. Í þessa bók vitnar Einar Kárason annað slagið og sjálfur stígur hann fram með mislöng innskot, en vinnuaðferð og mikilvægasta formeinkenni bókarinnar er að Friðriki sjálfum er gefið orðið. Lokaorð inngangsins, „svona segist honum frá“ tvípunktur, en svo hefst eiginleg frásögn bókarinnar og mælir Friðrik þar í fyrstu persónu, eru þannig lýsandi fyrir textann í heild. Lesanda er í ákveðnum skilningi boðið að sitja við fótskör Friðriks og hlusta á sagnameistarann segja sögur úr lífi sínu.

Og sögurnar eru vissulega skrautlegar og sumar hverjar afskaplega skemmtilegar. En það er forvitnilegt í þessu samhengi að Friðriki finnst á einum stað ástæða til að gera viðtökur bókarinnar sem ég nefndi rétt áðan, Vor í dal, að umfjöllunarefni. Vísar hann þar til tveggja kvengagnrýnenda, Sigríðar Albertsdóttur og Kolbrúnar Bergþórsdóttur, en hvorug var hrifin af bókinni og á sú fyrrnefnda, Sigríður, að hafa talað um „karlagrobb“ í þessu samhengi. Í áðurnefndum inngangi er síðan dálítið eins og Einar Kárason vilji slá varnagla gegn áþekkum viðtökum á nýju bókinni. Um Vor í dal segir Einar: „Þeim sem lesa þá bók getur eflaust fundist að Frikki hljóti að vera dálítið sjálfsánægður; hann hefur gaman að segja frá sigrum sínum, og þó sérstaklega þeim litlu; á íþróttasviðinu, ýmiskonar klækjum, eða hvað honum varð á orði í þetta eða hitt skiptið. Og slíkt er með á þeim blöðum sem hér fylgja.“ Svo kemur varnaglinn. Einar heldur áfram: „Allir sem þekkja Frikka vita að þetta er partur af hans dálítið sérstaka húmor og verður fyndið þegar fólk lærir að taka því sem gríni.“ Um þessi orð höfundar er allavega tvennt að segja. Annars vegar mælist Einari vel þarna og hittir naglann á höfuðið. Það er grobbbragur af mörgum þeim sögum sem Friðrik segir í bókinni, en hann er góðlátlegur og snýst einmitt gjarnan um litlu sigrana, laxana sem í slíkum röðum voru veiddir að staðurinn þaðan sem línunni var kastað var í kjölfarið kenndur við Friðrik, mörkin sem voru skoruð, eða forðað frá því að verða að veruleika, en þá er Friðrik í marki, slíkar sögur er legíón í bókinni.

En auðvitað gæti Friðrik verið að stæra sig af öðrum og mikilsverðari hlutum, en miklum mun minna fer fyrir slíku, og að húmor liggi grobbinu til grundvallar er í mörgum, ef ekki flestum, tilvikum hafið yfir vafa. Stundum kann lesandi reyndar að andvarpa örlítið, eins og þegar Friðrik hittir Quentin Tarantino og ímyndar sér í kjölfarið að Tarantino hafi horft á Skytturnar og þaðan sé tónlistarvalið í Pulp Fiction komið. En á heildina litið er það einmitt fígúran sem Einar lýsir í innganginum sem birtist lesendum, maður sem upplifað hefur eitt og annað og veit að góð saga krefst þess gjarnan að bæði séu menn ófeimnir við að mála sjálfan sig skærum litum og sannleikanum sé hnikað til í þágu skemmtigildis. Og bókin virðist ekki síst ætluð unnendum slíkra sagna.

Hitt er kannski öllu þungvægara og snertir á ákveðnu grundvallaratriði. Alveg burt séð frá því hversu rækilega Friðrik hefur slegið í gegn í sínum vinahópi í gegnum árin með skemmtilegum sögum eru það ekki sögurnar sem Friðrik segir á góðum stundum sem skipta máli þegar lífshlaup hans er skoðað. Það eru ekki sögurnar sem svona nauðsynlega þarf að varðveita, ekki fyrst og fremst allavega, heldur ber að huga að þeirri staðreynd að Friðrik er listamaður hvurs höfundarferill í íslenskri kvikmyndagerð er ójafnaður. Það er fyrir kvikmyndirnar sem hans verður minnst og það er kvikmyndagerðin sem maður myndi halda að væri aflvaki bókar sem þessarar. En eins og vikið var að í upphafi þessa pistils vilja þær stundum týnast dálítið, bíómyndirnar. Þarna er að finna ákveðna grundvallarskekkju í bókinni að mínu mati.

Kannski er ekki heppilegt að þeir sem bækur um Friðrik skrifa séu jafnan vinir hans. Það er í sjálfu sér ekki að undra að vinurinn Einar gangist nær gagnrýnislaust inn á söguskoðun og frásögn Friðriks, nokkuð sem býr í sjálfum frásagnarhættinum, sem er galli enda þótt það kunni að hafa gert vinnuna við bókina þægilega. Fjarlægðin á viðfangsefnið hverfur, áleitnar spurningar virðast aldrei hafa verið hluti af vinnuferlinu, og útkoman er verk sem hefur nær ekkert heimildargildi, sem er miður þegar um ævisögu jafn mikilvægs listamanns í íslenskri menningarsögu er að ræða. Þá er líka eins og skýrt konsept fyrir bókina hafi aldrei verið til staðar, það er allt gott um skemmtilegar grobbsögur að segja, en þær koma ekki í staðinn fyrir strúktúr og sjónarhorn höfundar, þá tilfinningu að lífshlaup Friðriks sé eitthvað sem hægt sé að varpa ljósi á og sé þess virði að skoða alvarlega.

Hér áðan minntist ég á að hlutur kvikmynda Friðriks sé furðu rýr í bókinni, og nægir kannski í því samhengi að benda á að sögur af amatörfótboltafélagi Friðriks fá meira pláss en varið er í allar kvikmyndir hans, að þremur undanskildum. Á fjórum síðum er til dæmis fjallað um Rokk í Reykjavík, þremur er varið í Engla alheimsins, og einni efnisgrein í Næsland. Sjö síður fara hins vegar í fótboltafélagið Árvak og enn fleiri í Lunch United. Nú er vert að ítreka að Friðrik er vissulega sagnamaður góður, því fékk ég að kynnast þegar Guðni Elísson og ég sátum með honum í tvo daga og tókum við hann 50 blaðsíðna viðtal sem birtist svo í bókinni Kúreki norðursins. En eðlilegt hefði verið að þessari sagnagáfu Friðriks hefði verið stýrt og beint í tilteknar áttir af höfundi bókarinnar, kvikmyndasögulegar áttir hefði ég sjálfur kosið og finnst í raun að hefði verði eðlilegt, en það er ekki gert. Eftir stendur því bók sem er skemmtileg aflestrar en er fjarri því sá minnisvarði um feril og lífshlaup Friðriks Þórs sem þessi öndvegisleikstjóri verðskuldar.

Sjá nánar hér: Bíómyndirnar týnast innan um grobbsögur

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR