„Agnes Joy“ í bíó í dag, „Gósenlandið“ á morgun

Sýningar á Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur hefjast í kvikmyndahúsum Senu í dag. Heimildamynd Ásdísar Thoroddsen, Gósenlandið, byrjar í sýningum í Bíó Paradís á morgun föstudag.

Agnes Joy er grátbrosleg mæðgnasaga eftir leikstjórann Silju Hauksdóttur. Áleitin saga úr samtímanum og um leið þroskasaga mæðgna frá Skaganum þar sem húmorinn er aldrei langt undan. Mæðgurnar Rannveig (Katla M. Þorgeirsdóttir) og Agnes (Donna Cruz) búa á Akranesi ásamt föður Agnesar, Einari (Þorsteinn Bachmann). Rannveig er í tilvistarkreppu, óánægð í starfi sínu fyrir fjölskyldufyrirtækið og hjónabandið komið á algera endastöð. Þegar nýr nágranni, leikarinn Hreinn (Björn Hlynur Haraldsson), birtist á tröppunum er eins og vonbrigði og gremja hversdagsins hverfi um stund hjá mæðgunum.

Gósenlandið er þriðja kvikmyndin í röð heimildamynda sem kvikmyndafélagið Gjóla ehf hefur framleitt undir stjórn Ásdísar Thoroddsen, sem beinir augum að sögu og verkmenningu á Íslandi. Sú fyrsta fjallaði um bátasmíðar, önnur fjallaði um búningasaum og nú er það sú þriðja sem fjallar um mataröflun, matseld og matarsögu. Matargerð á Íslandi einkenndist af skorti; salt vantaði, brenni vantaði, korn vantaði, flest það sem nóg var af hjá nágrannaþjóðum. Engu að síður hefur þjóðin sem byggði landið fundið leiðir til að bæta úr skortinum. Því er nafnið, Gósenlandið, ekki gefið í kaldhæðni segir í kynningu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR