Fréttablaðið um „Kaf“: Þetta á að vera gaman

Rammi úr Kaf.

„Heillandi, áhugaverð, undarlega notaleg og róandi bíóupplifun,“ skrifar Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðið um heimildamyndina Kaf eftir Hönnu Björk Valsdóttur, Önnu Rún Tryggvadóttur og Elínu Hansdóttur.

Þórarinn skrifar meðal annars:

Kaf er dásamleg mynd sem heillar og gleður á mörgum ólíkum sundbrautum.

Eftir að hafa notið þess að slaka á yfir fallegri lífsspeki og smitandi leikgleði Snorra og ljómandi andlitum lítilla sundkappa og himinlifandi foreldra átta ég mig enn betur á hversu magnað fyrirbæri ungbarnasundið getur verið og hversu merkilegt starf Snorra í raun og veru er.

Fegurð myndarinnar felst líka ekki síst í því af hversu mikilli alúð vinkonurnar þrjár gera hana enda vissu þær greinilega alveg hvaða fjársjóði þær voru að kafa eftir.

„Það voru barneignir sem sameinuðu okkur fyrir nokkrum árum, við vorum í mömmuklúbbi, mömmujóga og í ungbarnasundi og reynslan af því að vera hjá Snorra situr enn í mér sjö árum seinna. Þetta er svo stór upplifun,“ sagði Anna Rún í viðtali við Fréttablaðið um hvernig hugmyndin að myndinni varð til.

„Við vildum sem mæður og listamenn fjalla um þennan sérstaka tíma, þar sem foreldrar helga sig því verkefni að kynnast nýrri mannveru og vera til staðar fyrir hana. Þetta er dýrmætur tími og ungbarnasundið, sem við höfum allar reynslu af, hreyfði við okkur.“

Og með myndinni tekst þeim svo sannarlega að hreyfa við fólki enda er Snorri stórmerkilegur maður og frábært efni í aðalpersónu kvikmyndar með mátulega dramatíska sögu um vatnshræðslu og sigur á óttanum að baki. Þannig að óhjákvæmilega langar að fá að vita meira og dóla sér aðeins lengur í vatninu með þessum hugsjónamanni hamingjunnar og ómótstæðilega krúttlegum nemendum hans.

Kaf sogar mann einhvern veginn ofan í ótrúlega róandi stemningu, hlýjan heim vatnsins með ósvikinni og orðalausri gleðitjáningu barnsins þar sem Snorri vakir yfir öryggi hvers og eins með gleðisöng og ómótstæðilegum fíflagangi.

„Þetta á að vera gaman,“ segir Snorri sjálfur og það er þetta svo sannarlega. Anna Rún sagði í Fréttablaðsviðtalinu að maður kæmi alltaf glaður upp úr lauginni hjá Snorra og það sama á við um þessa hlýju og blautu mynd um hann.

Sjá nánar hér: Bíó­dómur: „Þetta á að vera gaman“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR