[Stikla] „Agnes Joy“ frumsýnd 17. október

Stikla kvikmyndarinnar Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur er komin út og má skoða hér.

Vísir segir frá:

Agnes Joy er þroskasaga mæðgna frá Skaganum þar sem húmorinn er aldrei langt undan.

Agnes Joy er ný mynd í leikstjórn Silju Hauksdóttur sem skrifar einnig handritið ásamt Göggu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Með aðalhlutverk fara leikararnir Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Donna Cruz, Þorsteinn Bachmann, Björn Hlynur Haraldsson og Kristinn Óli Haraldsson. Vísir frumsýnir fyrstu stikluna úr kvikmyndinni hér neðan í fréttinni.

Móðirin Rannveig, leikin af Kötlu Margréti, upplifir kulnun í lífi og starfi. Það er ekki nóg með að hún sé einmana, hjónabandið á leið í hundana og föst í starfi sem hún hatar, heldur á hún í stöðugum útistöðum við dóttur sína, Agnesi, leikin af Donnu Cruz sem er að stíga sín fyrstu skref á hvíta tjaldinu.

Þegar nýr nágranni birtist á tröppunum er eins og vonbrigði og gremja hversdagsins hverfi um stund hjá mæðgunum. Það leiðir til þess að fjölskyldan neyðist til að horfast í augu við glænýjar áskoranir.

Framleiðendur eru Birgitta Björnsdóttir og Gagga Jónsdóttir fyrir Vintage Pictures. Handritið er byggt á hugmynd Mikaels Torfasonar sem er meðframleiðandi ásamt Guðbjörgu Sigurðardóttur. Myndin verður frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni BUSAN í Suður Kóreu í byrjun október en frumsýnd hérlendis þann 17. október.

Sjá nánar hér: Fyrsta stiklan úr Agnes Joy frumsýnd á Vísi – Vísir

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR