spot_img

Ásgeir H. Ingólfsson um Benedikt, kolefnisprump og kvikmyndahátíðir

Benedikt Erlingsson.

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar frá kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary og segir frá uppgangi suður-kóreskra kvikmynda, suður-amerísku systramelódrama og vanhugsaðri – að hans mati – ræðu Benedikts Erlingssonar. Þetta birtist á vef RÚV.

Ásgeir víkur að ræðu Benedikts svona:

Svo eru auðvitað ótal gestir á þessum hátíðum og sumum þeirra er flogið yfir heimshöfin, stundum bara til þess að halda stutta tölu – eins og Benedikt Erlingsson kom inn á í ræðu sem hann flutti á hátíðinni. Í frétt Screen Daily um ræðuna kom fram að Benedikt talaði um kolefnisvindgang kvikmyndahátíða heimsins, eða svo ég endursegi örstutt brot: „Kvikmyndahátíðir senda útsendara víðs vegar um heim, þar sem þeir prumpa kolefni. Þær bjóða erlendum gestum, sem prumpa kolefni. Þeir borða kjöt, ferðast með leigubílum, hækka í loftkælingunni.“

Hér er rétt að taka fram að ég tók bara rútu á hátíðina, og tók bara leigubíl einu sinni á milli þess sem ég labbaði að meðaltali ellefu kílómetra á dag upp háar brekkurnar í Karlovy Vary. Það að opna svalirnar á gistiheimilinu virkaði svo ágætlega sem loftkæling. Ég borðaði vissulega eitthvað kjöt, en hvorki minna né meira en heima hjá mér. Í þessum efnum er ég ekki sérstakt frávik, ég er vissulega langt í frá efst í fæðukeðjunni en er samt örugglega með meira kolefnisfótspor heldur en allir háskólakrakkarnir á tjaldstæðinu.

Ég virði það við Benedikt að ýta við fólki, það þarf margar samræmdar aðgerðir til þess að takast á við yfirvofandi loftslagsvá. En það að ferðast minna, hanga bara heima hjá sér og kíkja stundum á Skype – ég leyfi mér að efast um að það sé besta lausnin. Vissulega þurfum við að skoða allar mögulegar lausnir á loftslagsvandanum, en við þurfum líka að forgangsraða og átta okkur á hvaða vandamál eru alvarlegust. Og þótt fáir stjórnmálaleiðtogar heimsins séu að gera nóg þá er held ég óhætt að fullyrða að öfgaþjóðernissinnar eins og Donald Trump og Bolsanaro í Brasilíu séu hættulegri umhverfinu en flestir, annar vofir yfir stærsta hagkerfi heimsins og hinn er líklegur til þess að gera sitt besta til að tortíma Amazon-frumskógunum sem fyrst.

Fasistar vilja ekki ferðalög

En Bolsanaro og Trump vilja ekki að við ferðumst, vilja ekki að við förum á kvikmyndahátíðir sem sýna ekki bara Hollywood-myndir, þar sem við kynnumst annarri menningu, jafnt í bíósalnum og á barnum og á tjaldsvæðinu og í viðtölum og á masterclössum. Benedikt minnist einnig á að 1600 kvikmyndir séu gerðar á ári hverju í Evrópu, en aðeins 600 nái dreifingu utan eigin heimalands, og kallar í kjölfarið eftir færri hátíðum og færri myndum og hefur áhyggjur af því að framtíðarsagnfræðingar muni kalla okkar tíma „öld afþreyingarinnar.“

Mikil ósköp sem ég þrái það að hann hafi rétt fyrir sér, það er vart hægt að hugsa sér betri eftirmæli. Í staðinn fyrir að vera öld stríðsins eða öld ójöfnuðarins eða öld loftslagshamfaranna, sem gætu vissulega orðið örlög okkar, þá er ljóst að við höfum gert eitthvað rétt ef okkur tekst að búa til öld afþreyingarinnar, sem myndi þá um leið vera öld listarinnar og öld mennskunnar, því allt er þetta samtengt.

Því fleiri bíómyndir og því fleiri kvikmyndahátíðir, því betra. Við þurfum fleiri kvikmyndahátíðir og fleiri bíómyndir, fleiri bókasöfn og fleiri listasöfn og fleiri tónleikastaði. Því það eru staðirnir þar sem ástin sigrar og hatrið tapar, það eru staðirnir þar sem fólk lærir samkennd og kynnist öðrum menningarheimum í gegnum annað en smellvænar æsifréttir.

Þessar þúsund bíómyndir sem fá ekki dreifingu utan síns heimalands eru líka mikilvægar. Jafnvel ef þær eru vondar eru þær líka mikilvægar. Vond list er nauðsynlegur hluti af vistkerfinu og svo er rétt að muna að gott og vont eru ekki einu mælikvarðarnir á list. List skiptir ekki bara máli þegar kemur að meistaraverkum og metsöluverkum, hún skiptir máli sem snar þáttur í mannlífinu öllu, ekki bara heimsborganna með fínu hátíðirnar heldur líka krummuskuða sem eru kannski ekki einu sinni með kvikmyndahús lengur. En við þurfum helst kvikmyndahús í hvert pláss, eins og í gamla daga, og jafnvel litlar kvikmyndahátíðir hringinn í kringum landið, okkar land sem og önnur.

Þær verða ekki allar stórar og fæstar munu geta boðið stórstjörnum – og það skiptir ekki öllu máli hvort þær sýna stærstu meistaraverk heimsbíósins eða misjafnlega amatörslegt heimabrugg, hvort tveggja er mikilvægt fyrir alvöru lifandi menningu og ef okkur öllum tekst að búa til raunverulega öld afþreyingar, þar sem fólk er sískapandi og djúpfrótt um aðra menningarheima, þá losnum við fljótlega við Trumpa og Bolsanora heimsins og látum fljótlega af þeirri skammtímahugsun og vanahugsun sem kom okkur í þessi vandræði til að byrja með.

Og þar komum við að því sem við Benedikt erum líklega sammála um, að planta trjám fyrir hverja hátíðarheimsókn, þar sem við getum, svo ég vitni aftur í Benedikt og gefi honum lokaorðin, „tjúttað alla nóttina í nýja hátíðarskóginum okkar, komið seint heim og sofið allan daginn. Þetta er mín lausn – vinna minna, sofa meira og planta trjám.“

Sjá nánar hér: Stéttamunur, kolefnisprump og kvikmyndahátíðir

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR