„Mistök mín og misskilningur“ segir formaður stjórnar ÍKSA

Klapptré hafði samband við Hlín Jóhannesdóttur formann stjórnar ÍKSA og bað hana að varpa ljósi á aðdraganda þess að heimildamyndin 690 Vopnafjörður var felld út af lista tilnefndra heimildamynda á dögunum og einnig hversvegna myndin var tilnefnd yfir höfuð, enda var hún frumsýnd 2017 meðan starfsreglur Eddunnar kveða á um að öll tilnefnd verk skulu hafa verið frumsýnd á árinu 2018.

Hlín vildi byrja á því að taka skýrt fram að ekki væri á nokkurn hátt við aðstandendur 690 Vopnafjörður að sakast í þessu máli, heldur væri þetta tilkomið vegna mistaka og misskilnings af sinni hálfu. Borist hafi fyrirspurn frá aðstandendum myndarinnar í janúar 2018 um hvort hægt væri að senda myndina inn, en það var eftir að skilafresti lauk og valnefndir höfðu hafið störf.

„Ég átti þá samtal við aðstandendur myndarinnar og misskildi hvenær myndin hefði fyrst verið sýnd opinberlega og taldi að fyrsta opinbera sýning myndarinnar hefði verið á erlendum vettvangi í janúar 2018 og að aðeins hefðu farið fram óopinberar sýningar á myndinni á árinu 2017,“ segir Hlín. „Ég benti því aðstandendum myndarinnar á að þess vegna væri hægt að sækja um að ári. Síðan var myndin send inn á réttum tíma í forvalið nú og staðfest af Auði Elísabet Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra með minni vitneskju að það væri í lagi. Okkur láðist semsagt að skoða nákvæmlega hvenær myndin var upphaflega sýnd og þannig tekur myndin þátt í forvalinu og það leiðir síðan til þess að hún er tilnefnd. Þegar tilnefningar eru síðan opinberaðar berast okkur athugasemdir. Þá er þetta skoðað og í ljós kemur að myndin var frumsýnd og sýnd í Bíó Paradís 2017. Þetta eru semsagt alfarið mín mistök, sem eru tilkomin vegna míns misskilnings og á því bið ég aðstandendur myndarinnar, valnefnd og aðra hlutaðeigandi afsökunar,“ segir Hlín að lokum.

Edduverðlaunin verða afhent í Austurbæ þann 22. febrúar næstkomandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR