Dagur varðveislu kvikmyndaarfleifðar

Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

Í dag, laugardaginn 27. október, er dagur kvikmynda- og hljðupptökuarfleifðar mannkynsins (2018 World Day for Audiovisual Heritage) og er þema dagsins „Saga þín er á hreyfingu“ eða “Your Story is Moving”.  Í tilefni dagsins fjallar Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands um það sem hæst ber hjá Kvikmyndasafninu þessa dagana, en safnið gengur nú gegnum miklar breytingar.

Kvikmyndasafn Íslands vill minnast þessa dags með eftirfarandi upplýsingum á Facebook síðu sinni um þá þróun sem verið hefur að eiga sér stað hjá safninu að undanförnu og með eftirfarandi hugleiðingum sem leiða upp að boði til áhugasamra hópa um að koma í heimsókn í safnið til sjá með eigin augum hvað sé verið að gera þar í uppbyggingu til að sögurnar sem varðveittar eru í safninu í ýmsum formum komist á hreyfingu samkvæmt þema alþjóða kvikmyndaarfleifðardagsins svo því sé haldið til haga.

Til að koma sögum sem varðveittar eru í kvikmyndum hjá Kvikmyndasafni Íslands á hreyfingu þarf ýmislegt að koma til: Það þarf að vera hægt að færa þær af gömlum, í mörgum tilvikum slitnum, rispuðum og óhreinum filmum, yfir í stafrænt form sem býður upp á margvíslegt aðgengi, fjölbreytta miðlun, en það þarf líka að vera hægt að njóta sagnanna af filmunum sjálfum og viðhalda þannig 100 ára arfleifð, sem er saga út af fyrir sig. Kvikmyndasöfn nútímans eru eins konar tvíhöfði, þ.e. þau eru með stafrænt og hliðrænt höfuð á einum og sama líkamanum. Þau gætu breyst í tvíhöfða þurs ef þau hafa ekki aðstöðu og bolmagn til að miðla safnkostinum með öllum þeim sögum sem hann hefur að geyma, ekki bara í hreyfanlegum myndum heldur líka gripunum sem notaðir voru við að skapa þær og sýna þær frá upphafi. Þessi saga er líka á hreyfingu.

Það hefur nú gerst og upplýsist hér með í tilefni af kvikmyndaarfleifðardeginum að Kvikmyndasafn Íslands hefur eignast nýjan og fullkominn 5.1K kvikmyndaskanna og tilheyrandi búnað eins og 260TB “server”, filmuþvottavél, nýjar tölvur og forrit. Þá hefur starfsmönnum verið fjölgað um einn til að sinna þessari hlið starfsseminnar og því starfa nú tveir menn á hinni nýju skanna- og yfirfærslustöð safnsins í stað eins áður á gömlu stöðinni. Þyrftu að vísu að vera helmingi fleiri hið minnsta en við trúum því að starfsmönnum muni fjölga á þessu svið er fram líða stundir og þjóðin sér hversu mikilvægt starf þarna er unnið. Því eitt er að yfirfæra kvikmynd af filmu eða myndböndum í stafrænt form annað er að gera við þær, koma saman sem heillegastri útgáfu af margvíslegu frumefni, vel útlítandi með nýrri litgreiningu og rispu- og óhreinindahreinsun, allt saman nauðsynlegt en tímafrekt ferli til að sögurnar sem myndirnar hafa að geyma munu njóta sín sem best og varðveisla þeirra í uppgerðri mynd verði sem tryggust.

Safnið fór að tala fyrir nauðsyn þess að það eignaðist nýjan og fullkominn kvikmyndaskanna fyrir einum 5 árum síðan. Svo fór að aukfjárveiting fékkst fyrir atbeina Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og þáverandi menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssonar, í fyrra til að fara út í þessa mikilvægu fjárfestingu upp á 35 milljónir, sem var eingreiðsla fyrir skanna, þvottavél og server (geymsluþjón), sem við köllum LOFT (í höfuðið á Lofti Guðmundssyni, kvikmyndafrumkvöðli). Hér við bættust 10 milljónir til að ráða viðbótarstarfskraft og innrétta húsnæði frá grunni fyrir þessa nýung. Leggja þurfti nýtt rafmagn að stöðinni, með sérgreindu öryggi, kaupa kælibúnað fyrir aðstöðuna þar sem LOFTI var fyrirkomið og koma yfirfærslutækjunum þannig fyrir að hægt væri með auðveldum hætti að yfirfæra kvikmynda- og hljóðefni af nánast hvaða mynd- og hljóðbandsformi sem vera skyldi.

Skanninn, sem er að ScanStation gerð frá Laisergraphics í Bandaríkjunum og LOFTUR (Metastore), komu í hús fyrir tæpu ári síðan en LipsnerSmith þvottavélin snemmsumars. Það kom maður frá framleiðanda þvottavélarinnar fyrr í vikunni gagngert til að yfirfara hana og til að tryggja að allt væri í lagi en þegar skanninn kom í hús í lok nóvember í fyrra kom fulltrúi seljandans til landsins og dvaldi með okkur í eina fjóra daga við uppsetningu hans og kennslu á gripinn. Enn er eftir að innrétta húsnæði fyrir þvottavélina þótt hún sé kominn í gagnið en að öðru leyti er aðstaðan að verða tilbúin.

Nýr skanni Kvikmyndasafns Íslands.

Það hefur tekið tímann sinn að sigrast á alls kyns byrjunarörðugleikum eins og gefur að skilja, þegar um flókna tækni er að ræða, en um þessar mundir getum við með nokkru stolti sagt að stöðin sé orðin þokkalega starfhæf þótt enn sé eftir að ganga frá ýmsum endum sem sumir hverjir kalla á viðbótar útgjöld.

Með þessari uppbyggingu stafræna hluta Kvikmyndasafnsins og öllu því sem fylgir t.d. í þróun verklags, skráningar o.fl. er í raun verið að byggja upp alveg nýtt kvikmyndasafn frá grunni, sem lifir eigin lífi við hliðina á gamla hliðræna safninu, filmunum í frysti- og kæligeymslum, sem áfram þarf að sinna og myndböndum. Sá hluti safnsins heldur áfram gildi sínu og kallar t.d. fljótlega á stækkun frystigeymslunnar en filmur eru best geymdar í frysti og kæli.

Ekki er ólíklegt að mörgum þyki þessi uppbygging forvitnileg og myndu vilja koma í heimsókn í safnið. Við bjóðum hér með til slíkra heimsókna af þessu tilefni en myndum vilja að gestir kæmu í hóp t.d. á bilinu 8 – 20 manns sem væru velkomnir í heimsókn. Slíkir hópar (vinnustaðir, saumaklúbbar, skólabekkir) þyrftu að panta tíma áður. Reikna má með að það taki um eina klukkustund hið minnsta að skoða safnið sem myndi gerast undir leiðsögn.

Nú er unnið að endurgerð kvikmynda í hinni nýju aðstöðu safnsins samkvæmt forgangslista í kappi við tímann því sýningar tveggja efstu myndanna á listanum hafa þegar verið ákveðnar. Þetta eru myndirnar Síðasti bærinn í dalnum (1950) eftir Óskar Gíslason, sem sýnd verður í Hörpu í desember n.k. við lifandi undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands og er tilefnið 100 ára fæðingarafmæli Jórunnar Viðar, tónskálds, sem samdi tónlistina fyrir myndina, hin myndin er Saga Borgarættarinnar 1. og 2. hluti (1920) sem ákveðið hefur verið að verði sýnd á hinni heimsfrægu kvikmyndahátíð þögulla kvikmynda í Pordenone á Ítalíu í október á næsta ári, þegar liðin verða 100 ára frá töku myndarinnar hér á landi. Þriðja myndin á forgangslistanum sem nú er í skönnun er Ísland í lifandi myndum (1925) sem Loftur Guðmundsson gerði og er ein vinsælasta og um leið merkasta heimildarmynd þriðja áratugarins, kvikmynd sem framleiðendur heimildarmynda og sjónvarpsþátta hafa sótt mjög mikið í í gegnum tíðina. Hún er varðveitt í mörgum útgáfum sem kallar á rannsókn og umtalsverða eftirvinnslu.

Þannig er unnið eftir forgangslista safnsins alla daga vikunnar nema á mánudögum. Sá dagur er helgaður þjónustu við viðskiptamenn safnins, einkum framleiðendur heimildarmynda og sjónvarpsþátta sem hafa mikla þörf fyrir aðgengi að kvikmyndaefni úr safninu til að geta sagt sögur sínar með sem bestum hætti.

Fljótlega segjum við nánar frá því sem er og hefur verið að gerast á vettvangi safnis en klykkjum hér út með því að óska okkur öllum til hamingju með kvikmyndaarfleifðardaginn 2018.

Erlendur Sveinsson
Erlendur Sveinsson
Höfundur er forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR