Gísli Snær Erlingsson: Nemendur besta auglýsingin

Morgunblaðið ræðir við Gísla Snæ Erlingsson sem tók nýverið við skólastjórataumunum í London Film School, einum elsta kvikmyndaskóla heims. Hann ræðir um skólann, verkefnin framundan og breytingarnar sem kvikmyndaheimurinn er að ganga í gegnum.

Úr viðtalinu:

Gísli Snær Erl­ings­son tók ný­verið við skóla­stjórataum­un­um í London Film School, ein­um elsta kvik­mynda­skóla heims. Hann hef­ur ekki í hyggju að breyta áhersl­um í skóla­starf­inu, enda sér hann ekki ástæðu til að breyta því sem virk­ar vel. Hins veg­ar sé ým­is­legt á döf­inni, t.d. stend­ur til að flytja skól­ann úr Co­vent Garden til London City Is­land og því fylgi mikið umstang og skriffinnska.

Gísli Snær kveðst vita­skuld fylgj­ast  grannt með námi nem­enda, sem skipt­ist í þrjár ann­ir á ári og fel­ur í sér að þeir búa til fjölda kvik­mynda á tveggja ára náms­tíma og eru flest­ar um 20 mín­út­ur að lengd. „Um 250 á ári,“ seg­ir hann og er afar hreyk­inn af út­skrift­ar­verk­efn­um nem­enda. Og al­veg með töl­urn­ar á hreinu þegar kem­ur að af­rek­um þeirra. „Frá því ég hóf störf í hittifyrra hafa nem­end­ur sýnt 530 mynd­ir á 431 kvik­mynda­hátíð og hampað 87 verðlaun­um og 55 til­nefn­ing­um. Einn fékk meira að segja Óskar­inn fyr­ir bestu er­lendu mynd­ina þetta árið. Í skól­an­um er mik­il áhersla lögð á að styðja vel við bakið á nem­end­um. Tveir starfs­menn eru í fullri vinnu við að koma mynd­un­um á fram­færi á kvik­mynda­hátíðum og víðar, enda er okk­ur mikið í mun að nem­end­ur njóti vel­gengni, þeir eru okk­ar besta aug­lýs­ing.“

Spurður hvort nem­end­ur hafi svipaðar hug­mynd­ir um kvik­mynda­gerð og hann og sam­nem­end­ur hans í kvik­mynda­nám­inu í Par­ís á tí­unda ára­tugn­um, seg­ir hann um­hverfið hafa gjör­breyst. „Áhugi þeirra bein­ist í meira mæli að gerð sjón­varpsþátta, enda markaður­inn orðinn miklu meiri fyr­ir þátt­araðir, sem fólk get­ur horft á heima í stofu í eins mörg­um lot­um og það vill. Sam­hliða þess­ari þróun hef­ur orðið æ erfiðara að fjá­magna kvik­mynd­ir í fullri lengd. Í gamla skól­an­um mín­um þurft­um við nem­end­urn­ir að hafa rosa­lega mikið fyr­ir því ef okk­ur langaði að horfa á gaml­ar bíó­mynd­ir eða þætti. Þá var ekk­ert sem hét „on­line“ eða frír aðgang­ur að streym­isveitu á borð við MUBI eins og nem­end­ur London Film School hafa. Fyr­ir vikið eru nem­end­urn­ir bún­ir að sjá ógrynni mynda, miklu fleiri en mín kyn­slóð, og hafa þróað með sér meiri sjón­ræn­an lesskiln­ing.“

Bygging London Film School í Covent Garden.
Bygg­ing London Film School í Co­vent Garden.

Sjálf­ur út­skrifaðist Gísli Snær frá La Fém­is kvik­mynda­skól­an­um í Par­ís 1994. Árið eft­ir tókst hon­um að græta stór­an hluta ís­lensku þjóðar­inn­ar með Benja­mín dúfu, sinni fyrstu kvik­mynd í fullri lengd eft­ir námið. Benja­mín dúfa á sér­stak­an stað í hjarta mér, ég get ekki horft á hana án þess að fara all­ur í keng því ég upp­lifi svo sterkt hverstu mikið all­ir sem að henni komu gáfu af sér. Ég segi stund­um að það hafi orðið til ein­hver gald­ur,“ seg­ir Gísli Snær.

Viðtalið við Gísla má lesa í heild sinni í Sunnu­dags­mogg­an­um í dag.

Sjá nánar hér: Nemendur besta auglýsingin

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR