„Kona fer í stríð“ fær SACD verðlaunin í Cannes

Benedikt Erlingsson og Ólafur Egill Egilsson, handritshöfundar Kona fer í stríð, hlutu rétt í þessu SACD verðlaunin sem veitt eru í flokknum Critic’s Week á Cannes hátíðinni. Verðlaunin eru veitt af samtökum handritshöfunda og tónskálda.

Critic’s Week er hliðardagskrá Cannes hátíðarinnar, þar sem kvikmyndin var heimsfrumsýnd þann 12. maí.

Dómnefndin sem veitir SACD verðlaunin er skipuð af kvikmyndagerðarfólki sem eru í stjórn SACD og fá handritshöfundarnir 5.000 evrur í verðlaun. Benedikt var viðstaddur hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku.

Kona fer í stríð segir frá kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar. Að bjarga einu barni eða að bjarga heiminum?

Myndin hefur hlotið góða dóma í hinum ýmsu virtu kvikmyndatímaritum og hefur frammistaða aðalleikkonu myndarinnar, Halldóru Geirharðsdóttur, fengið sérstakt lof.

Kona fer í stríðsem er íslensk/frönsk/úkraínsk samframleiðsla er framleidd af Marianne Slot, Benedikt Erlingssyni og Carine Leblanc og meðframleidd af Serge Lavrenyuk, Bergsteini Björgúlfssyni og Birgittu Björnsdóttur. Með aðalhlutverk fara auk Halldóru, Davíð Þór Jónsson, Magnús Trygvason Eliasen, Ómar Guðjónsson og Jóhann Sigurðarson. Bergsteinn Björgúlfsson sér um stjórn kvikmyndatöku, Davíð Alexander Corno klippir myndina og Davíð Þór Jónsson semur tónlist.

Myndin verður frumsýnd hérlendis þann 22. maí.

Þrjár íslenskar myndir hafa áður tekið þátt í Critics’ Week; Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen árið 1992, hin norsk/íslenska Vandræðamaðurinn eftir Jens Lien tók þátt árið 2006 og fransk/íslenska stuttmyndin Víkingar eftir Magali Magistry tók þátt árið 2013. Þá má einnig nefna að hina fransk/íslenska kvikmynd Sólveigar Anspach, Sundáhrifin, hlaut SACD verðlaunin árið 2016 en hún keppti í Directors Fortnight flokknum.

Sjá nánar hér: Kona fer í stríð vinnur til SACD verðlaunanna á Critic’s Week

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR