spot_img

Hallgrímur Kristinsson hjá FRÍSK: „Íslenskar kvikmyndir lifa oft lengur“

(Mynd: RÚV)

Hallgrímur Kristinsson formaður Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) ræddi við RÚV í tilefni þess að á síðasta ári voru myndirnar Undir trénu og Ég man þig tekjuhæstar í íslenskum kvikmyndahúsum.  Hallgrímur segir að íslenskar kvikmyndir eigi sér oft lengra líf í kvikmyndahúsum en erlendar.

Úr viðtalinu:

„Íslenskar myndir byrja oft rólega svo en svo fara þær af stað á afspurninni. Gott dæmi um það er Undir trénu, sem fór ekki af stað með neinni sprengingu, en svo spyrst hún út,“ segir Hallgrímur Kristinsson í viðtali við Morgunútvarpið. „Þannig geta þær oft gengið mánuðum saman í bíó.“

Hallgrímur segir enga leið að staðfesta sögur um óheyrilegar vinsældir íslenskra mynda áður fyrr eins og Með allt á hreinu og Stella í Orlofi. „Þá var engin formleg leið til að halda utan um aðsóknartölurnar. En núna erum við með öflugan gagnagrunn sem heldur utan um þetta. Við höfum áreiðanlega tölur 20 ár aftur í tímann, en ekki lengra en það.“

Á síðustu fjórum árum hafa íslenskar kvikmyndir þrisvar trónað á toppnum yfir tekjuhæstu kvikmyndir ársins. Hallgrímur segir að íslenskum myndum hafa fjölgað mjög í seinni tíð og þess vegna fari margar þeirra framhjá fólki. Bíóaðsókn sé þó áfram góð. „Hún náði hámarki 2009 þegar 1,7 milljón manna fóru í bíó yfir árið, síðan fór hún aðeins niður á við í kjölfarið nokkur ár á eftir, en síðan fór hún að stíga aftur upp núna í kringum 2014. Tekjur stóðu í stað núna frá því á síðasta ári en aðsóknin fór niður um 3%.“

Sjá nánar hér: „Íslenskar kvikmyndir lifa oft lengur“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR