„Garn“ sýnd víða um heim

Heimildamyndin Garn/Yarn sem framleidd er af Compass Films hefur fengið góðar móttökur víða um heim á undanförnum misserum. Þannig var hún sýnd í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum, Bretlandi og vel á þriðja tug annarra landa. Nú er hún til sýnis í yfir 20 kvikmyndahúsum í Japan.

Eftir að sýningar hófust í Japan hafa verið skipulagðar ferðir til Íslands frá Japan fyrir unnendur hannyrða til að koma og skoða íslenskt handverk og garn. Mun hópurinn einnig fara á prjónanámskeið á Íslandi.

Verk Tinnu Þórudóttur Þorvaldar sem er einn af listamönnunum úr myndinni eru nú til sýnis í einni stærstu garnverslun Japans. Eftir að sýningum líkur í kvikmyndahúsum verður myndin sýndi í garnverslunum í Tókíó. Pantaðar hafa verið prufur af íslensku garni til Japans með það í huga að hefja innflutning.

Garn/Yarn kom út á Netflix í þeim löndum sem ekki höfðu áður tryggt sér sýningarrétt í sjónvarpi. RÚV mun sýna myndina á þessu ári.

Myndin fjallar um hvernig hið gamalgróna prjón og hekl er orðið partur af vinsælli bylgju í nútíma- og götulist. Við fylgjumst með alþjóðlegu lista- og handverksfólki útfæra þetta listform, hvert á sinn hátt. Þetta litríka og alþjóðlega ferðalag byrjar og endar á Íslandi og varpar meðal annars ljósi á það hvernig garn tengir okkur öll á einn eða annan hátt.

Leikstjórar myndarinnar eru Þórður Jónsson, Heather Millard og Una Lorenzen.

Garn/Yarn var frumsýnd í Bandaríkjunum á kvikmyndahátíðinni SXSW í Texas og vann áhorfendaverðlaun á hinni virtu kvikmyndahátíð Nordisk Panorama í Malmö Svíþjóð.

Compass Films hyggst fylgja eftir vinsældum Garn/Yarn með sjónvarpsþáttum um hannyrðir þar sem Tinna Þórudóttir Þorvaldar verður kynnir. Þáttaröðin nefnist Baðstofan og hefst framleiðsla þáttanna í vor.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR