DV um „Rökkur“: Hrollur og hómóerótík

Björn Stefánsson í Rökkri.

Kristinn H. Guðnason skrifar um Rökkur Erlings Óttars Thoroddsen í DV og segir myndina bera augljós merki þess að vera frumraun, en að framtakið sé vel meinandi, metnaðarfullt og að mörgu leyti áhugavert og gott. Hann gefur myndinni þrjár og hálfa stjörnu.

Í umsögn segir:

Rökkur er fyrsta kvikmynd leikstjórans Erlings Thoroddsen í fullri lengd á íslensku en áður hafði hann gert hrollvekjuna Child Eater í Bandaríkjunum þar sem hann stundaði nám. Hin íslenska frumraun er einnig hrollvekja sem ber að taka fagnandi því Íslendingar hafa nú ekki verið duglegir í framleiðslu slíkra kvikmynda. Rökkur hefur verið sýnd á kvikmyndahátíðum víða og fengið töluverða umfjöllun þrátt fyrir að framleiðendurnir hafi ekki haft úr miklum fjármunum að moða.

Dulúð á Snæfellsnesi

Í upphafsatriðinu fylgjumst við með tveimur ungum samkynhneigðum mönnum sem hafa gengið í gegnum sambandsslit og annar þeirra, Einar (Sigurður Þór Óskarsson), er augljóslega ekki alveg í jafnvægi. Gunnar (Björn Stefánsson), sem sleit sambandinu, hefur hins vegar hafið sambúð með öðrum ungum manni, leiknum af rapparanum Joey Christ. Eina nóttina fær Gunnar undarlega símhringingu frá Einari og heldur hann þá strax af stað vestur á Snæfellsnes, á æskuslóðir Einars. Þar finnur hann Einar í sumarhúsi undir Jökli.

Það er ekki að ástæðulausu að þetta svæði er valið því undarlegir atburðir byrja að gerast um leið og Gunnar kemur þangað. Snæfellsnes hefur verið hjúpað dulúð síðan galdramaðurinn Jón lærði bjó undir Jökli á 17. öld og vilja margir meina að hið yfirnáttúrulega þrífist þar.

Í bústaðnum hefst uppgjör á sambandsslitunum og Gunnar hefur áhyggjur af því að Einar sé í sjálfstortímingarleiðangri. Þess utan virðist einhver fylgjast með bústaðnum en erfitt er að átta sig á því hver það er. Fáar aðrar persónur koma við sögu en hinir fyrrverandi ástmenn nema þá kona af næsta sveitabæ (Aðalbjörg Árnadóttir) sem beðin var að gæta sumarhússins af foreldrum Einars.

Sterkir aðalleikarar

Rökkur uppfyllir eina af meginskyldum kvikmyndalistarinnar, að vera frumleg. Myndin nær að samþætta dramatíska hómóerótík, yfirnáttúrulega dulúð, sígilda hrollvekjuhefð og alíslenskan veruleika. Styrkur hennar felst aðallega í því hversu vel aðalleikararnir virðast tengjast og má hugsa sér að hægt hefði verið að skrifa Rökkur eingöngu sem dramamynd. Einstaka sinnum falla persónurnar þó á einlægnisskalanum en það verður að skrifast á handritið frekar en leikarana.

Styrkur Björns sem leikara kemur helst fram í dramatísku atriðunum en Sigurðar í hryllingnum. Nærvera Einars er ákaflega truflandi og maður hefur það á tilfinningunni að hann sé ekki þarna í raun og veru. Aðalleikararnir bera myndina að mestu leyti.

Myndin hefur tvo veikleika sem báðir gera vart við sig í seinni hlutanum. Annars vegar er handritið losaralegt og áhorfandinn áttar sig ekki á hvert myndin stefnir. Eftir á að hyggja virðast sum atriðin skorta alla merkingu og tilgang eða að merkingin sé svo djúp að hinn almenni áhorfandi meðtaki hana ekki. Kæmi það nokkuð á óvart því að hér er ekki um neina „artí-fartí“ mynd að ræða.

Hinn veikleikinn er lengdin. Langdregni hefur aldrei verið talin dyggð í kvikmyndagerð og Rökkur missir af nokkrum gullnum tækifærum til að enda snyrtilega. Endirinn er þó ekki að öllu slæmur því þar eru nokkur vel heppnuð og truflandi bregðuatriði.

Sjá nánar hér: Hrollur og hómóerótík – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR