spot_img

THE PIPER eftir Erling Óttar Thoroddsen heimsfrumsýnd á Screamfest

Bíómyndin The Piper eftir Erling Óttar Thoroddsen verður frumsýnd á Screamfest hátíðinni í Los Angeles þann 18. október. Screamfest er elsta og helsta hrollvekjuhátíðin vestra.

Stutt er síðan Erlingur Óttar frumsýndi bíómynd sína, Kulda, hér á Íslandi og gengur hún enn í kvikmyndahúsum. The Piper er væntanleg í íslensk kvikmyndahús þann 10. nóvember. Klapptré sagði fyrst frá verkinu hér.

The Piper vísar til þjóðsögunnar um Rottufangarann frá Hamelin (The Pied Piper of Hamelin) sem finna má í Grimms ævintýrum. Þjóðsagan á rætur sínar allt að miðöldum og segir frá dulafullum manni með flautu sem birtist í borginni Hamel á meðan gríðarleg rottuplága stóð yfir í borginni. Flautuleikarinn virtist eiga töfraflautu sem hann bauðst til að nota til að losa borgarbúa við rotturnar gegn gjaldi, sem hann svo gerði. En þegar borgarbúar neituðu svo að greiða honum gjaldið endaði það með skelfilegum afleiðingum fyrir þá alla.

The Piper gerist í nútímanum. Ungt tónskáld fær tækifæri lífs síns þegar henni er falið að klára tónverk hins látna lærimeistara síns. En fljótlega tekur hana að gruna að tónlistin laði fram ill öfl. Smám saman rennur upp fyrir henni hinn ógnvekjandi uppruni laglínunnar og að hún hefur vakið upp skelfilega krafta.

Erlingur skrifar og leikstýrir fyrir Millenium Media.

Breski leikarinn Julian Sands fer með eitt aðalhlutverkanna. Fyrr á árinu var gerð mikil leit að Sands í Kaliforníu eftir að hann kom ekki fram eftir fjallgöngu. Fannst lík hans um sex mánuðum síðar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR